HÉRAÐSDÓMUR Vesturlands dæmdi í síðustu viku hálfþrítugan karlmann til greiðslu sektar fyrir ógætilegan akstur.
HÉRAÐSDÓMUR Vesturlands dæmdi í síðustu viku hálfþrítugan karlmann til greiðslu sektar fyrir ógætilegan akstur. Dómurinn kemst þó að þeirri niðurstöðu að erfitt hafi verið fyrir ákærða að gera sér grein fyrir því að bifreið hans var á of mikilli ferð miðað við aðstæður.

Maðurinn var ökumaður fólksbifreiðar sem lenti í hörðum árekstri á Úthlíðarvegi skammt vestan Ólafsvíkurennis í febrúar á þessu ári. Við áreksturinn lést sextán ára piltur sem var farþegi í bílnum. Barnshafandi kona og dóttir hennar sem voru í hinum bílnum meiddust lítillega. Manninum var einnig gefið að sök að hafa ekið bíl sínum of hratt og án nægilegrar aðgæslu í skafrenningi og hálku. Þá segir í ákæru að hemlar bifreiðarinnar hafi verið lélegir og hjólabúnaði áfátt.

Héraðsdómur Vesturlands komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að búnaði bílsins hefði verið áfátt. Jafnframt segir í dómnum að lögreglumaður og bifvélavirki sem skoðaði bifreiðina eftir slysið hafi borið að einn hjólbarða bifreiðarinnar hafi verið ónýtur og ekki með næga mynsturdýpt. Mynsturdýptin hefði hins vegar ekki verið mæld og því ósannað að hún hafi verið of lítil þegar áreksturinn varð.

Manninum var gert að greiða 20.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá lögbirtingu dóms en sæta ella sex daga fangelsi. Finnur T. Hjörleifsson héraðsdómari kvað upp dóminn.