Talningarmaður í Palm Beach bíður eftir ákvörðun kjörstjórnar, en handtalningu atkvæða var frestað í gær.
Talningarmaður í Palm Beach bíður eftir ákvörðun kjörstjórnar, en handtalningu atkvæða var frestað í gær.
TERRY Lewis, dómari í Flórída, hafnaði í gær kröfu um að frestur til að handtelja atkvæði í forsetakosningunum yrði framlengdur en hann rann út klukkan 22 í gærkvöld að íslenskum tíma.
TERRY Lewis, dómari í Flórída, hafnaði í gær kröfu um að frestur til að handtelja atkvæði í forsetakosningunum yrði framlengdur en hann rann út klukkan 22 í gærkvöld að íslenskum tíma. Lewis setti þó skilyrði um að einstakar sýslur mættu senda inn leiðréttingar á niðurstöðum eftir áðurnefndan frest og mætti þá Katherine Harris, innanríkisráðherra Flórída, sem er repúblikani, ekki hafna slíkum tölum að eigin geðþótta. Hún yrði að "hafa hófsemd" að leiðarljósi. Harris sagði skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma að sýslurnar fengju frest til kl. sjö í kvöld til að rökstyðja kröfu um endurtalningu. Hún sagði að borist hefðu staðfestar lokatölur í Flórída. Hefði Bush fengið 300 atkvæðum meira en Gore en hún bætti við að á laugardag yrði lokið við að telja utankjörstaðaatkvæði frá Bandaríkjamönnum búsettum erlendis.

Enn er óljóst hvort endurtalning muni breyta kjörmannafjölda frambjóðendanna tveggja í þrem sambandsríkjum auk Flórída, þ.e. Wisconsin, Oregon og Nýju-Mexíkó. Um tíma virtist sem Bush myndi sigra þar sem endurtalning hefði gefið honum 21 atkvæði meira en Gore í síðastnefnda ríkinu. Við nánari athugun kom í ljós að fyrir mistök höfðu atkvæði Gore verið vantalin og í gærkvöld benti allt til þess að hann hreppti ríkið og fimm kjörmenn þess. Á hinn bóginn eru 25 kjörmenn Flórída svo margir að sá frambjóðandi sem fær þá hefur tryggt sér forsetaembættið.

Repúblikanar lýstu yfir vaxandi óánægju sinni með meintar tilraunir Gore og manna hans til þess að tefja tímann og reyna þannig að koma í veg fyrir að repúblikaninn George W. Bush yrði næsti forseti Bandaríkjanna. "Það er að verða æ ljósara að stuðningsmenn Gore varaforseta ætla einfaldlega að halda áfram að telja atkvæði þar til úrslitin eru orðin þau sem þeir vilja," sagði Karen Hughes, talsmaður Bush, í Austin í Texas í gær.

"Við erum ánægð með ákvörðunina," sagði Warren Christopher, fyrrverandi utanríkisráðherra og helsti lagalegi ráðgjafi liðsmanna Al Gore, í gær um úrskurð Lewis dómara í Flórída. Hann hvatti fjórar sýslur þar sem ákveðið var að handtelja atkvæðin vegna kvartana um ýmis mistök og misskilning til að halda áfram þar til öll atkvæði væru talin, hvað sem liði áðurnefndum fresti. Sagði Christopher að Harris gæti nú ekki lýst því yfir einhliða að hún myndi ekki leyfa að endurtalningu yrði haldið áfram eftir að fresturinn rynni út. Handtalningin í tveim sýslum, Palm Beach og Volusia, var þegar hafin, henni var síðan frestað í Palm Beach í gærdag vegna hinnar lagalegu óvissu en hún hefst á ný í dag.

Kjörstjórn í þeirri þriðju, Miami-Dade, ákvað í gær að atkvæðin skyldu einnig handtalin þar. Miami-Dade er fjölmennasta sýslan í Flórída, þar búa um tvær milljónir manna. Endanleg ákvörðun um handtalningu í hinni fjórðu, Broward, var til umræðu þar í gær.

Miami, Tallahassee. AP, AFP, The Daily Telegraph.