6. BEKKUR A úr Rimaskóla fer fimmtudaginn 16. nóvember til Óðinsvéa til að taka þátt í ævintýraverkefni í barnasafninu Fyrtøjet en þar hittir bekkurinn jafnaldra sína frá Óðinsvéum og frá Tampere í Finnlandi.
6. BEKKUR A úr Rimaskóla fer fimmtudaginn 16. nóvember til Óðinsvéa til að taka þátt í ævintýraverkefni í barnasafninu Fyrtøjet en þar hittir bekkurinn jafnaldra sína frá Óðinsvéum og frá Tampere í Finnlandi.

Undanfarnar vikur hafa börnin frá Danmörku, Finnlandi og Íslandi unnið með þjóðsögur myndrænt og leikrænt ásamt myndlistarmanni og leikara. Næstu helgi hittast bekkirnir þrír og sýna ævintýrin sín leikin og myndskreytt fyrir gesti barnasafnsins. 6.A úr Rimaskóla hefur unnið leiksýningu og myndlistarsýningu upp úr íslensku þjóðsögunni um selkonuna sem átti sjö börn á landi og sjö í sjó. Laugardaginn 18. nóvember verður leiksýningin þeirra frumsýnd í Fyrtøjet ásamt sýningunum frá Danmörku og Finnlandi og jafnframt myndlistarsýning íslensku, dönsku og finnsku barnanna opnuð.

Ólöf Sverrisdóttir leikstýrir hópnum og Jónína Margrét Sævarsdóttir leiðbeinir í myndsmiðjunni.

Laugardaginn 2. desember verður opnuð sýning í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi á myndverkum frá löndunum þremur auk þess sem íslensku börnin sýna ævintýrið sitt.