FYRIR skömmu kom Óli á Stað GK til Grindavíkur eftir viðamiklar breytingar í Riga í Lettlandi en þær hófust 15. júní og er kostnaðurinn um 30 milljónir króna.
FYRIR skömmu kom Óli á Stað GK til Grindavíkur eftir viðamiklar breytingar í Riga í Lettlandi en þær hófust 15. júní og er kostnaðurinn um 30 milljónir króna. Óli á Stað fékk sinn skammt af óveðrinu sem gekk yfir England á dögunum en Gunnlaugur Ævarsson, skipstjóri, segir að skipið hafi reynst óskaplega vel. "Þetta er mikill munur," segir hann um skipið sem var smíðað 1964 og hefur verið tekið reglulega í gegn síðan en aldrei eins mikið og nú. Það var slegið út að aftan og lengt um 1,6 metra. Eins var skipið hækkað upp að aftan, sett nýtt skorsteinshús og nýr skorsteinn. Auk þess er nýr veltitankur í því og nýtt frammastur, íbúðir voru endurnýjaðar og sett í ný setustofa, ný stakkageymsla, gufubað og þrjú ný baðherbergi með allri nauðsynlegri hreinlætisaðstöðu. Nýtt bakkaspil var sett í skipið, lestin var gerð styttufrí og opnað fram í íslest og tekur skipið 150 kör í lest í stað um 100 áður. Skipið var sandblásið innan og utan og málað auk ýmissa annarra aðgerða, en nú er verið að setja í vinnslubúnað og stefnt að því að fara á net á næstunni. Gunnlaugur segir að í breytingunum hafi verið gert ráð fyrir að hægt væri að skipta yfir á línu. "Þetta eru miklar breytingar en við fengum þær á einstaklega góðu verði."