ÝMSAR blikur eru nú á lofti í sjávarútvegi Danmerkur. Verulegur samdráttur á veiðiheimildum, hátt olíuverð og umfram veiðigeta flotans veldur miklum taprekstri. Skiptar skoðanir eru um úrlausnir. Vaxandi þrýstingur er nú frá samtökum fiskiðnaðarins og eigendum stærri fiskiskipa á að tekið verði upp kvótakerfi með framseljanlegum veiðiheimildum.
Forystumenn fiskiðnaðarins og útgerðarmenn stórra fiskiskipa telja að tafarlaust verði að fara í gagngera endurskoðun á sjávarútvegi Danmerkur eigi atvinnugreinin að geta lifað. Nú styttist í það að Evrópusambandið útdeili aflaheimildum til aðildarlandanna og allt bendir til þess að mikill niðurskurður verði á veiðiheimildum í þorski, síld, makríl og brislingi.

Á síðasta ári drógust aflaheimildir Dana saman um 40%. Hátt olíuverð og lægra fiskverð, einkum á bræðslufiski, veldur miklum erfiðleikum í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski, en á síðasta ári drógust tekjur þessa geira flotans saman um 44%.

Samtök fiskiðnaðarins og eigendur stórra fiskiskipa eru sammála um að stjórnun fiskveiða í Danmörku sé að miklu leyti um slæma stöðu að kenna. Hún byggist á því að allir hafi rétt til allra veiða, bæði stór skip og litlir bátar hafi í raun og veru rétt til að veiða sömu fisktegundir. Að mati Samtaka fiskiðnaðarins og togaraeigenda, sem eru í minnihluta í sjómannasamtökunum, en skila þó yfir 90% aflaverðmætanna á land, hafa tekjur útgerðarinnar skerzt verulega og fiskveiðistjórnunin er ekki nógu markviss. Ekki tekst að nýta nægilega vel þær aflaheimildir sem Dönum falla í skaut.

Allir verða fátækir

"Eins og staðan er nú verða allir fátækir og að auki nást kvótarnir ekki vegna þess að smærri bátarnir ná ekki sínum hlut. Staðan er óþolandi og verði ekki grundvallarbreytingar þar á eins og í landbúnaðinum, verður floti okkar ekki samkeppnisfær eftir 5 til 10 ár," segir Peder Hyldtoft, formaður Samtaka fiskiðnaðarins, í samtali við danska blaðið Börsen.

"Í landbúnaðinum þykir það sjálfsagt mál að þeir sem gera betur, kaupa hina út og þannig ná menn að hámarka hagnaðinn. Í fiskveiðunum er hins vegar ætlunin að alli lifi af. En það er óraunhæft og forysta sjómanna slær ryki í augu þeirra með því að segja þeim ekki sannleikann," segir Hyldtoft.

Leiðin til að afla flotanum rekstrargrundvallar, en aflaverðmæti hans upp úr sjó er um 35 milljarðar króna, er að koma á kvótakerfi til margra ára og að kvótarnir verði framseljanlegir, að mati andstæðinga núverandi fiskveiðistjórnunar. Það þarf að færa saman aflaheimildir og færa á milli skipa, svo veiðiheimildirnar nýtist betur og veiðigeta flotans sömuleiðis.

Þrátt fyrir að veiðiheimildir Dana hafi dregizt saman hefur flotinn ekki náð að veiða, það sem leyfilegt er. Til dæmis hafa þeir hvorki náð kvóta sínum í rauðsprettu né síld. Samtök fiskiðnaðarins segja að það eitt þýði verulegt tekjutap auk þess sem það leiði til aukins innflutnings á fiski til vinnslu, en Danir eyða um 80 milljörðum í innflutning á fiski árlega. "Og það er mikið þegar við getum ekki séð okkur sjálfir fyrir nægum fiski. Nýti danski flotinn veiðiheimildir sínar ekki betur eigum við það á hættu að aðrar ESB-þjóðir krefjist þess að fá að veiða það, sem við náum ekki," segir Hyldtoft.

Flotinn of stór

Henning Jörgensen sjávarútvegshagfræðingur segir að ástæðan fyrir döpru gengi danska flotans nú sé sú að hann sé einfaldlega of stór. Veiðigetan sé of mikil. Hann bendir á að á árunum 1986 til 1996 hafi miklum fjármunum verið varið til úreldingar fiskiskipa og við það hafi náðst jafnvægi milli flotastærðar og leyfilegt afla.

"En svo hófst veruleg fjárfesting í fiskiskipum á ný og veiðigetan er orðin allt of mikil. En sjómönnum sjálfum er ekki um þetta að kenna. vandamálið liggur í auðlindinni, fiskinum. Munurinn á landbúnaði og fiskveiðum er sá að jarðnæðið er alltaf á sama stað. Það sama á ekki við um fiskinn í sjónum," segir Jörgensen. Hann bætir við að fiskihagfræðingar leggi til framseljanlega einstaklingskvóta út frá hagfræðilegum sjónarmiðum.

"Með því að úthluta veiðiréttinum til þeirra, sem bezt gera, verður árangurinn beztur. Þau fiskiskip, sem skapa mestar tekjur nýta kvótana bezt. En það eru fleiri sjónarhorn en hrein hagfræði, ekki sízt hin félagslegu. Mörg smærri bæjarfélög í Danmörku eru háð fiskveiðum og vinnslu. Fótunum yrði kippt undan þeim misstu þau flotann frá sér. Það má taka Holland og Ísland sem dæmi um fiskveiðiþjóðir, sem byggja á framseljanlegum kvótum. Í Hollandi var það kerfi tekið upp vegna þrýstings frá sjómönnum. Það sýnir vel arðsemiskröfuna sem gerð er til flotans þar. Á Íslandi var það pólitísk ákvörðun, sem byggðist á mikilli þýðingu sjávarútvegs fyrir afkomu þjóðarbúsins. Þar hefur komið í ljós að kvótakerfið hefur ekki, eins og óttazt var, valdið smærri byggðunum skaða svo nokkru nemi. Það er bæði þrýstingur innan ESB og annars staðar að við fiskveiðar verði kvótakerfi tekið upp," segir Jörgensen.

Á öndverðum meiði

Fulltrúar fiskiðnaðarins og stærri fiskiskipa eru alveg sammála um að breyta verði til, eigi danski sjávarútvegurinn að standa sig í samkeppninni við aðrar þjóðir eins og Holland. Eina leiðin sé að taka upp framseljanlega kvóta.

Bent Rulle, formaður dönsku sjómannasamtakanna, er algjörlega á öndverðum meiði. "Fiskiðnaðurinn og nokkrir eigendur stórra togara vilja breyta til og að aflaheimildir verði teknar af sumum og gefnar eða seldar öðrum. Slíkt myndi rústa þann grunn sem fiskveiðar í Danmörku byggjast á, það er að sjómenn hafi einkarétt á því að eiga fiskiskip. Slík breyting myndi leiða til þess að erlent fjármagn flæddi inn í sjávarútveginn, sem síðan verður seldur fjármálaspekúlöntum. Ég tek ekki þátt í slíku. Ég er fulltrúi sjómanna, en ekki auðvaldsins. Ég er ekki á móti breytingum, en þær eiga að vera fólkinu til gagns, en ekki fáum útvöldum sem vilja hreiðra um sig í dönskum sjávarútvegi."