Vilborg Davíðsdóttir
Vilborg Davíðsdóttir
ÚT er komin skáldsagan Galdur eftir Vilborgu Davíðsdóttur. Í fréttatilkynningu segir: "Árið er 1419. Ættstórir foreldrar Ragnfríðar og Þorkels ákveða giftingu þeirra í fyllingu tímans.
ÚT er komin skáldsagan Galdur eftir Vilborgu Davíðsdóttur.

Í fréttatilkynningu segir: "Árið er 1419. Ættstórir foreldrar Ragnfríðar og Þorkels ákveða giftingu þeirra í fyllingu tímans. En Ragnfríður verður barnshafandi eftir enskan skipbrotsmann og í kjölfarið heldur Þorkell utan til náms í Svartaskóla í París. Á meðan eykst ólgan í landinu. Englendingar sækja fast á Íslandsmið og versla við innfædda í trássi við bann Noregskonungs og valdsmanna hans, sem stendur ógn af vaxandi fyrirferð þeirra á Íslandi. Þegar Þorkell kemur heim og verður handgenginn enska biskupnum á Hólum í Hjaltadal, John Williamsson Craxton, hittir hann fyrir Ragnfríði, ráðskonu biskups, og ungan son hennar ...

Í Galdri fléttar Vilborg Davíðsdóttir listilega saman magnaða ástarsögu og einhverjar hatrömmustu deilur í sögu Íslands. Jafnt umhverfi sem persónur verða ljóslifandi fyrir lesanda, þar sem þær takast á um völd og virðingu, knúnar áfram af blindum metnaði, ást og afbrýði.

Fyrsta bók Vilborgar Davíðsdóttur, unglingabókin Við Urðarbrunn, kom út 1993 og framhald hennar, Nornadómur, 1994. Síðan hefur hún sent frá sér skáldsögurnar Eldfórn (1997) og nú Galdur. Við Urðarbrunn fékk verðlaun Íslandsdeildar IBBY (International Board of Books for Young People) árið 1994. Framhaldið, Nornadómur, var verðlaunuð af Skólamálaráði Reykjavíkur sem besta frumsamda unglingabókin það sama ár.

Nýverið var útgáfuréttur skáldsögu hennar, Eldfórn, seldur til þýska útgáfurisans, BTB-Bertelsmann og er sagan væntanleg í þýskri útgáfu á næsta ári."

Útgefandi er Mál og menning. Bókin er 192 bls., unnin í Prentsmiðjunni Odda hf. Kápuna gerði Alda Lóa Leifsdóttir. Verð: 3.990 krónur.