TÖLVUORMURINN Navidad, jólaormurinn, er kominn til Íslands og hefur þegar smitað fjölda tölva hérlendis.
TÖLVUORMURINN Navidad, jólaormurinn, er kominn til Íslands og hefur þegar smitað fjölda tölva hérlendis. Ormurinn kemur í veg fyrir að hægt sé að keyra forrit í tölvum og hefur þannig alvarleg áhrif á starfshæfni þeirra en ekki er vitað til þess að hann eyði gögnum.

Sigurður Stefánsson hjá Friðriki Skúlasyni ehf. telur að vírusinn hafi borist hingað til lands í gær. Ormurinn dreifir sér með tölvupósti. Þegar hann hefur gert tölvuna óstarfhæfa sendir hann sjálfan sig áfram sem viðhengi með póstforritinu Outlook Express til allra tölvupóstnetfanga sem skráð eru í viðkomandi tölvu.

Tölvunotendur geta komið í veg fyrir smitun tölvu sinnar með því að opna ekki viðhengi með nafninu navidad.exe.