Ragnar Fjalar  Lárusson
Ragnar Fjalar Lárusson
Sá veiðiskapur eða slátrun sem ég er að mótmæla, segir Ragnar Fjalar Lárusson, er óþörf, ójafn og ódrengilegur leikur að lífi.
Sigmar B. Hauksson, formaður Skotveiðifélags Íslands, sendir mér tóninn í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið 9. nóv. vegna greinar sem ég skrifaði um rjúpnaveiðar 2. nóv. sl. Tónninn í þessari grein hans ber vott um sjálfumgleði, eins og hann einn viti skil góðs og ills. Rökin sem hann færir fyrir skoðunum sínum eru ekki upp á marga fiska.

Ég vil nú ræða stuttlega helstu atriði þessarar greinar. Hann talar í upphafi um smekklausar árásir mínar á skotveiðimenn og að þeir hafi oftar en einu sinni þurft að þola svívirðingar af minni hálfu, en nú keyri um þverbak "því að presturinn gefur í skyn að veiðar séu ekki Guði þóknanlegar". Ég veit ekki hver guðsmynd Sigmars er, en mín guðsmynd er af kærleiksríkum Guði og miskunnsömum sem elskar öll sín börn og sköpunarverk sitt. Þennan Guð hefur Jesús Kristur birt okkur. Hann segir: "Allt sem þér gjörið einum minna minnstu bræðra það hafið þér og mér gjört". Hverjir eru minnstu bræður okkar mannanna fremur en dýrin, sem okkur ber skylda til að virða og fara vel með? Næst minnir hann á að presturinn hafi litla þekkingu á skotveiðum. Að vissu leyti er það alveg rétt. Ég hef aldrei snert byssu á ævinni, því að ég hefi frá barnæsku haft andúð á veiðum, ekki síst tilgangslausum veiðum, sem ekki eru sprottnar af þörf til að afla sér fæðu, en rjúpnaveiðar eru leikur skotveiðimanna að lífi, þjáningum og dauða saklausra dýra

Þá kemur Sigmar að "klerki í klípu" og telur klerkinn afar óheppinn í tilvitnunum um árásir á skotveiðimenn. Ég man ekki nákvæmlega hvað ég skrifaði þá, en minnti á orð Alberts Schweitzers um lotningu fyrir lífinu eins og Sigmar segir. Síðan koma afar ósmekkleg og niðrandi orð um Albert Schweitzer. Sigmar segir: "Ég hefi frekar takmarkað álit á Albert Schweitzer. Hann leit á skjólstæðinga sína af ýmsum kynþáttum þjóða Afríku sem hálfgerð börn og einfeldninga. Ýmsir guðfræðingar nútímans og afrískir menntamenn hafa tekið svo djúpt í árinni að kalla Schweitzer málsvara nýlendukúgara, sem taldi svarta kynstofninn þeim hvíta óæðri". Fyrir þessi orð má Sigmar blygðast sín. Albert Schweitzer var einn merkasti, fórnfúsasti og gáfaðasti hæfileikamaður þessarar aldar, sem bar ótakmarkaða lotningu fyrir sköpunarverki Guðs og hlynnti að hrjáðum bræðrum og systrum og málleysingjum inni í myrkviðum Afríku og flutti þeim boðskapinn um Frelsarann. Þar dvaldist hann í fjölmörg ár við erfitt en frábært starf, þó honum byðist frami í Evrópulöndum.

Þá kemur að næstu millifyrirsögn Sigmars: "slæm guðfræði". Ég nefndi grein mína: "Lítið til fugla himinsins" og vitna þar í orð Krists. Um þetta segir Sigmar: "að það komi sér verulega á óvart, hvað hinar guðfræðilegu útskýringar sr. Ragnars á Biblíunni séu gloppóttar og einfeldningslegar". Hvað er maðurinn að fara? Í þessari örstuttu grein er ég ekki að ræða guðfræði eða biblíuskýringar, það á hver sæmilega greindur maður að sjá, en það virðist fara fram hjá Sigmari. Í greininni er ég einungis að "skjóta á" skotveiðimenn og rjúpnaskyttur föstum skotum, slík fyrirbæri, sem þeir eru, eru hvergi nefnd í Biblíunni svo það þarf engar biblíuskýringar að hafa um þá. En svo fer Sigmar allt í einu að tala um dæmisögu, hann segir: "Í dæmisögunni er Kristur ekki að tala um rétt manna til veiða". Um hvaða dæmisögu er Sigmar hér að tala? Veit hann ekki að þau orð sem hann vitnar til um fugla himinsins og þau orð sem á eftir fara eru úr Fjallræðu Jesú, og hún hefur aldrei fyrr í mín eyru verið nefnd dæmisaga. Þetta er döpur þekking á Biblíunni. Sigmar segir: "Sr. Ragnar virðist tapa sjónar á því að við lifum ekki án þess að svipta plöntur og dýr lífi". Vissulega er mér þetta fullkomlega ljóst. Þetta er sú nauðung sem við lifum við meðan við gistum þessa jörð og þann kross verðum við að bera. En það sem ég er að mótmæla er sá veiðiskapur eða slátrun sem er óþörf, ójafn og ódrengilegur leikur að lífi. Sigmar virðist halda að hann sé að þjóna Guði og náttúruskoðun sinni með því að skjóta, kvelja, drepa á leið sinni um fagra og heillandi náttúru. "Skotveiðar eru útivist með tilgangi" segir hann. Er Sigmar virkilega að halda því fram að þeir sem hafa yndi af því að fara um víðerni landsins í friði og sátt við náttúruna geri það í tilgangsleysi?

"Ég fer aldrei svo á veiðar að ég finni ekki návist skaparans," segir hann. Er það ekki furðuleg opinberun á sálarlífi eða undarleg réttlæting að finna til návistar skaparans og væntanlega vilja hans, þegar hann fer út í náttúruna með alvæpni til að gera sér leik að því að drepa smáfugla? Þar leggst lítið fyrir kappann. Þetta er dapurleg játning og slæm guðfræði.

Til þess að afsaka gerðir sínar hafa skotveiðimenn sett sér siðareglur sem ógerlegt er að halda. Kjarni þeirra er á þessa leið, skv. orðum Sigmars: "Þá er veiðidagur góður, þegar hóflega er veitt með talsverðri líkamlegri áreynslu og sært dýr liggur ekki að kvöldi". Þó að ég viti lítið um skotveiðar, þá segir heilbrigð skynsemi mér að það er útilokað að ætla sér að staðhæfa að aldrei liggi sært dýr að kvöldi. Slík staðhæfing fær ekki staðist. Auðvitað liggja margar helsærðar og deyjandi rjúpur að kveldi eftir slíkan atgang sem rjúpnaveiðar eru á Íslandi.

Ég ætla að ljúka þessum orðum mínum með því að vitna til viðtals við Bubba Morthens, sem var skotveiðimaður og rjúpnaskytta um langt skeið. Viðtalið er í "Séð og heyrt" sem út kom um daginn. Þar segir Bubbi: "Ég fékk bara nóg og seldi byssurnar. Ég var að veiða fyrir vestan og særði rjúpu og þurfti að elta hana inn í kjarr. Hún komst í burtu frá mér og ég heyrði hræðsluhljóðin í henni. Þá skaut ég hana þar sem hún var að hlaupa en hún var ekki ennþá dauð, þegar ég tók hana upp. Rjúpan náði augnsambandi við mig og þá var mér hugsað til þess hvað ég væri eiginlega að gera. Ég var að ganga um í stórbrotnu landslagi og drepa eina lífið sem ég sá. Ég var búinn að skjóta rjúpu í svo mörg ár og þarf ekki að gera það lengur og ég er mjög sáttur við það ... og er það ekki eitt af gullunum í lífi manns, þegar maður uppgötvar að það er ekkert gaman að drepa líf með heitu blóði?" Þetta er vel sagt og mætti fara sem víðast og flestir heyra.

Gott væri að formaðurinn og félagar hans færu að dæmi Bubba. Ég ætla að bæta því við kvöldbænir mínar að svo megi verða. Ég þakka Sigmari fyrir þá uppástungu að skotveiðimenn biðji fyrir mér, því að bænin er vissulega máttugt afl.

Höfundur er prestur.