Halldór  Hauksson
Halldór Hauksson
Tillagan verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar nk. fimmtudag, segir Halldór Hauksson, og ættu allir íbúðareigendur að fylgjast vel með því sem þar verður ákveðið.
Á undanförnum vikum hefur mátt lesa greinar um gamla félagslega kerfið hér í Morgunblaðinu.

Þeim sem þar tjá sig má skipta í tvo hópa, annar ver kerfið kerfisins vegna og hamrar stöðugt á því að hinn hópurinn eigi ekki það sem hann keypti, hann hafi bara fengið það að láni. Málflutningurinn er í föðurlegum umvöndunartón og þegar það dugar ekki breytist tónninn þannig að manni dettur helst í hug hending úr þekktri vögguvísu, "...haltu kjafti, hlýddu og vertu góður."

Í grein formanns Leigjendasamtakanna sl. laugardag er hnýtt í "vögguvísutón" í tvo einstaklinga sem áður höfðu tjáð sig um málið en þar segir: "Þau hafa því aldrei greitt markaðsverð fyrir íbúðina og eiga því engan rétt á því þegar þau fara".

Ekki veit ég hvað þau greiddu fyrir sínar íbúðir og er til efs að formaðurinn viti það, ég get upplýst formanninn um að ég greiddi ekki markaðsverð fyrir mína íbúð, ég greiddi verð sem var yfir markaðsverði. Mér var uppálagt að greiða líka niður kostnað við íbúðir í öðrum áfanga sem fóru svo langt fram úr markaðsverði að húsnæðisnefnd Reykjavíkur var ekki stætt á að láta þá íbúðakaupendur greiða kostnaðinn og skelltu honum á áfangann sem ég keypti í. Þetta er að vísu lögbrot sem ég hef kvartað yfir við húsnæðisnefnd, Húsnæðisstofnun (Íbúðalánasjóð), borgarstjóra og félagsmálaráðuneytið en svörin sem ég hef fengið eru í "vögguvísustílnum."

Ég greiði líka fulla vexti af láninu sem ég fékk með íbúðinni, kerfið er nefnilega svo frábært að þar sem við hjónin "slysuðumst" til að fara yfir rúmar þrjár milljónir í heildartekjur á ári fyrir fimm manna fjölskyldu hækkuðu vextirnir í vexti á almennum markaði og það án þess að ég þyrfti að fara í greiðslumat. Íbúðalánasjóði er nefnilega alveg sama hvort ég stenst greiðslumat þegar kemur að því að hækka vextina. Það frábæra við kerfið er svo, að þó að tekjur mínar lækki niður fyrir tekjumörkin lækka vextirnir ekki, ég þarf ekki að hafa áhyggjur af "niðurgreiddu" láni til íbúðarkaupanna. Jafnvel þótt ég verði öryrki lækka vextirnir ekki enda vita allir að öryrkjar hafa það svo gott.

Og börnin mín, hver er þeirra staða? Ef við hjónin féllum skyndilega frá er kerfið svo frábært að þeim yrði einfaldlega hent út úr íbúðinni, borgaryfirvöld eiga forkaupsrétt að íbúðinni en börnin mín engan rétt, við þau yrði einfaldlega sagt "...heiðra skaltu föður þinn og móður."

Eitthvað fer það í taugarnar á forsvarsmönnum Íbúðalánasjóðs að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði leystu vanda sinna umbjóðenda á mannlegum nótum og viðurkenndu eignarrétt þeirra á íbúðunum. Hafnfirðingar geta hins vegar róað Íbúðalánasjóð með einföldum hætti með því að kaupa íbúðir sem enn hvílir á kaupskylda og selja þær svo aftur til sömu aðila á sama verði. Þannig myndast enginn mismunur á kaup- og söluverði og því enginn hagnaður. Seljendur hagnast ekki heldur þar sem þeir kaupa til baka það sem þeir áttu fyrir á sama verði.

Reykjavíkurborg leysir til sín íbúðir í félagslega kerfinu á niðursettu verði og breytir þeim í leiguíbúðir í stað þess að kaupa eða byggja íbúðir á almennum markaði og myndast þar milljónahagnaður. Íbúðalánsjóður sendir áreiðanlega reikning fyrir þessum mismuni á sama tíma og hann sendir Hafnarfjarðarbæ reikning fyrir mismuni sem aldrei varð til.

Hvert er markmiðið með kaupskyldu sveitarfélaga, hvernig stendur á því að kaupskyldan er tíu ár við sölu en fimmtán ár þegar um nauðungarsölu er að ræða? Svarið er einfalt og hafi einhver haldið að það sé til að gæta hagsmuna íbúa félagslega kerfisins skjátlast hinum sama hrapalega. Upphaflega var meiningin að hafa eingöngu kaupskyldu við nauðungarsölu en svo áttuðu hinir sömu sig á því að þá myndu þeir sem ættu íbúðir í félagslega kerfinu á landsbyggðinni snarlega skila inn íbúðunum (og trúlega flytja á höfuðborgarsvæðið) til að sitja ekki uppi með illseljanlegar eignir við gildistöku laganna. Fimmtán ára markið er til að tryggja hagsmuni Íbúðalánasjóðs þar sem þá ætti að vera tryggt að eignarhluti íbúðaeigenda er orðinn nægur til að óhætt sé að selja ofan af honum án þess að sjóðurinn skaðist, skítt með íbúðareigandann.

Til að létta undir með sveitarfélögum í vanda var sett í lögin ákvæði um að ef þau breyttu þeim íbúðum sem þau neyddust til að leysa til sín með þessum hætti í leiguíbúðir gætu þau skuldbreytt áhvílandi lánum í lengri lán með niðurgreiddum 1% vöxtum.

Borgaryfirvöld í Reykjavík sáu sér hins vegar leik á borði og settu fram kröfu um að forkaupsréttur sveitarfélaga yrði áfram til staðar, auðsjáanlega í þeim tilgangi að ná til sín ódýrum íbúðum og fá í leiðinni niðurgreidd lán til að fjármagna leiguíbúðir í Reykjavík. Þetta eru sömu aðilar og halda því fram að íbúðareigendur í gamla félagslega kerfinu eigi engan rétt til að teljast eigendur þar sem þeir hafi fengið "niðurgreidda" vexti sem er í raun rangt þar sem stór hluti íbúðaeigenda borgar sömu vexti og á almennum markaði. Þetta eru líka sömu aðilar og halda því fram að það sé brot á jafnræðisreglu að íbúar í Reykjavík fái að selja íbúðir sínar á frjálsum markaði en íbúar á landsbyggðinni ekki þegar þeir vita að sveitarfélög á landsbyggðinni hafa fyrir löngu fallið frá forkaupsrétti sínum og heimilað íbúðaeigendum að selja íbúðir sínar ef þeir geti og ekki borgar varasjóður tap þessara einstaklinga þrátt fyrir að þeir hafi greitt í varasjóðinn og eigi hann í raun og veru.

Varasjóður var upphaflega tryggingasjóður ætlaður til að bæta galla sem kæmu fram á íbúðum í félagslega kerfinu. Gjald í sjóðinn var 1% álag á íbúðaverð allra íbúða í félagslega kerfinu sem framlag íbúðakaupenda í sjóðinn. Þarna söfnuðust upp nokkur hundruð milljónir vegna þess að stöðugt var greitt í sjóðinn en sáralítið fór úr sjóðnum. Þeir, sem eiga íbúðir í þessu kerfi, vita af fenginni reynslu að lítið þýðir að kvarta yfir göllum á íbúðum þar sem svör húsnæðisnefndar eru yfirleitt í "vögguvísustílnum."

Einhver snillingurinn fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að hirða sjóðinn og nota hann til að greiða niður tap sveitarfélaga sem sátu uppi með illseljanlegar eignir. Mér hugnast sú hugmynd raunar ágætlega að greiða niður tap landsbyggðarfólksins með þessum sjóði enda greiddi það í sjóðinn en það lýsir hins vegar fullkomlega viðhorfi kerfispostulanna til einstaklinganna í kerfinu að reglurnar gera eingöngu ráð fyrir að greiða niður tap sveitarfélaga sem sitja uppi með dýrar eignir en þeir einstaklingar sem sitja uppi með eignir í sama kerfi verða að bera tapið sjálfir.

Ekki selja!

Fyrir borgarstjórn liggur nú löngu tímabær tillaga um að Reykjavíkurborg falli frá forkaupsrétti sínum að félagslegum eignaríbúðum. Tillagan verður tekin fyrir á fundi borgarstjórnar nk. fimmtudag og ættu allir íbúðareigendur að fylgjast vel með því sem þar verður ákveðið.

Hverjir verða með og hverjir á móti tillögunni?

Verði tillagan felld er næsta skref í málinu að nota tækifærið í næstu borgarstjórnarkosningum og syngja vögguvísu Káins yfir öllum þeim sem greiða atkvæði gegn tillögunni.

Þangað til skaltu ekki selja íbúðina þína!

Höfundur er íbúðareigandi í félagslega kerfinu.