Sólveig Snæland Guðbjartsdóttir fæddist á Akureyri 8. apríl 1940. Hún lést á heimili sínu laugardaginn 4. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Sigurðardóttir frá Torfufelli, f. 2. desember 1911, d. 3. júní 1984, og Guðbjartur Marías Snæbjörnsson, skipstjóri, f. 4. júlí 1908, d. 18. nóvember 1967. Bræður Sólveigar eru: 1) Sigurður Snæland Guðbjartsson, f. 26. janúar 1939, kvæntur Gyðu Þorgeirsdóttur og eiga þau fimm börn. 2) Snæbjörn Snæland Guðbjartsson, f. 24. apríl 1941. 3) Jósef Snæland Guðbjartsson, f. 8. nóvember 1949, var kvæntur Hjördísi Agnarsdóttur, þau slitu samvistum, þau eiga þrjú börn. Núverandi kona Jósefs er Wendy Snæland, eiga þau eina dóttur.

Sólveig giftist 15. júní 1961 eftirlifandi eiginmanni sínum Jóni Ellerti Guðjónssyni, f. 23. mars 1936. Foreldrar hans eru Sigurbjörg Malmquist Jóhannsdóttir, f. 17. nóvember 1915, og Guðjón Jónsson, járnsmiður, f. 1. maí 1904, d. 19. apríl 1940. Börn Sólveigar og Ellerts eru: 1) Guðjón Axel Jónsson, f. 18. apríl 1962, búsettur í Reykjavík, í sambúð með Bjarneyju Hrafnberg Hilmarsdóttur, f. 6. janúar 1963, sonur hennar er Hilmar Helgi Sigfússon, f. 4. maí 1981. 2) Guðbjartur Ellert Jónsson, f. 15. júní 1963, búsettur í Reykjavík, var í sambúð með Önnu Láru Finnsdóttur, f. 14. ágúst 1963, þau slitu samvistum, börn þeirra eru: Tara Björt, f. 6. maí 1987, Elís Orri, f. 21. ágúst 1992, og Gauti Freyr, f. 18. júní 1996. 3) Sigurbjörg Rún Jónsdóttir, f. 29. maí 1968, búsett á Akureyri, gift Leonard Birgissyni, f. 24. janúar 1964, börn þeirra eru: Hildur, f. 6. júlí 1990, Hilmar, f. 30. október 1991, og Elvar, f. 30. október 1991.

Sólveig ólst upp á Akureyri, þar gekk hún í barna- og gagnfræðaskóla. Strax eftir giftingu fluttu Sólveig og Ellert til Reykjavíkur og bjuggu þar í átta ár ásamt börnum sínum og var Sólveig heimavinnandi.

Eftir það fluttu þau norður til Akureyrar og bjuggu þar síðan fyrir utan þrjú og hálft ár sem þau bjuggu á Ísafirði. Sólveig stundaði ýmis störf á Akureyri, lengst vann hún á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri við símavörslu og síðar á barnadeild. Sólveig starfaði mikið með Sjálfstæðisflokknum á Akureyri og var í nokkur ár formaður Kvenfélagsins Varnar.

Sólveig verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Fagra kveðjustund, tefðu augnablik, að þín síðustu orð verði þögnin. Ég hneigi höfuð mitt, og held lampanum hátt, að hann megi lýsa þér á leiðinni. (R. Tagore.)

Laugardagurinn 4. nóvember markaði þáttaskil í lífi okkar er mamma kvaddi eftir að hafa barist hetjulega í veikindum sínum. Þó svo að baráttan hafi verið erfið og mikið dregið af henni þá var hún alltaf hún sjálf, gaf af sér ást og veitti okkur umhyggju sína og alúð.

Sorgin er mikil og erfið en það sem við þökkum fyrir er að hafa notið þeirra forréttinda að hafa fengið að vera henni samferða í lífinu og notið návistar hennar. Það er erfitt að lýsa þeim tilfinningum sem nú bærast í brjóstum okkar en allir þeir sem þekktu mömmu, vita og skilja hversu gæfusöm við vorum að hafa notið þess sem hún bjó yfir. Það sem einkenndi hana umfram annað var ást, umhyggja og kærleikur sem hún gaf öllum sem njóta vildu.

Í sorginni finnum við gleði, gleði sem aldrei verður afmáð eða eydd því þó mamma sé farin þá skilur hún svo mikið eftir af sjálfri sér innra með okkur. Við munum í sorginni gleðjast yfir þessari gjöf og þakka þann tíma sem við nutum með henni því gjafir hennar marka djúpt í hjarta okkar.

Það verður erfitt að horfa fram veginn og hafa hana ekki hér á meðal okkar, en styrkur okkar er það sem hún gaf, við munum njóta þess um ókomna tíð.

Elsku pabbi, það er svo mikið af henni í okkur, við skulum rækta það og gleðjast í bænum okkar.

Vakna þú, sem sefur,

og veittu þjáðum lið,

verndaðu blómið,

sem grær við þína hlið.

Hlustaðu á regnið,

og heyrðu dropann falla,

himinninn er opinn,

og drottinn er að kalla.

Guðjón Axel, Guðbjartur Ellert og Sigurbjörg Rún.

Skjótt skipast veður í lofti. Fyrir rúmu hálfu ári brosti lífið við Sólveigu (Dúddu), mágkonu okkar og svilkonu. Vegna breytts starfsvettvangs Ellerts voru þau hjónin nýflutt aftur til Akureyrar, fæðingar- og heimabæjar hennar.

Íbúð var í smíðum og skyldi flutt inn á komandi jólaföstu, framundan var nálægð við börn og barnabörn eftir stopular samverustundir undanfarinna ára.

Síðast en ekki síst hafði Dúdda unnið sigur á illvígum sjúkdómi eftir erfiða meðferð og æðrulausa baráttu. Það voru svo sannarlega ánægjulegir tímar í vændum, en enginn má sköpum renna, ský dró fyrir sólu þegar annar sjúkdómur, ólæknandi, sótti að, gaf engin grið, dró allan mátt úr þessari góðu konu og leiddi hana til dauða. Stundum virðast örlögin grimm og ósanngjörn og leika þá grátt sem síst skyldi, í þeim efnum fáum við engu ráðið, en huggun er það harmi gegn að nú er þjáningunni lokið og hvíldin ræður ríkjum.

Eftir 40 ára vináttu og náin samskipti streyma minningar fram. Ánægjuleg var stundin þegar Dúdda hélt Guðjóni Axel undir skírn á brúðkaupsdegi okkar í Dómkirkjunni fyrir margt löngu. Samband Dúddu og Ellerts var afar náið og nöfn beggja venjulega nefnd í sömu andránni. Hún var umhyggjusöm móðir og frábær amma, hlý og einlæg, hafði ákveðnar skoðanir, sem hún studdi gildum rökum, hávaðalaust, og tók málstað þeirra sem minna mega sín og eiga undir högg að sækja. Heimsóknirnar norður voru ætíð tilhlökkunarefni, en þær einkenndust af gestrisni, listilegri matseld húsmóðurinnar og líflegum og skemmtilegum samræðum. Betri ferðafélaga en þau hjón var ekki hægt að hugsa sér og minnumst við t.d. ógleymanlegra ferða til Krítar, Suður-Karólínu og Florída.

Innileg var umhyggja Ellerts fyrir eiginkonu sinni og skýrt kom hún fram í hinum erfiðu veikindum, þar sem hann var ávallt til staðar, reiðubúinn að rétta hjálparhönd af nærgætni og væntumþykju. Við þökkum elsku Dúddu fyrir samfylgdina og trygglyndið í okkar garð og barna okkar, blessuð sé minning yndislegrar konu og kærs vinar.

Ellerti, börnum, barnabörnum og öðrum ættingjum sendum við einlægar samúðarkveðjur.

Guðrún og Viðar.

Mæt kona og góður heimilisvinur hefur kvatt þennan heim, langt um aldur fram. Sólveig, eða Dúdda eins og hún var venjulega kölluð, var borin og barnfædd á Akureyri og hér hefur hún lengstum búið, utan nokkur ár í Reykjavík á árum áður, og seinna um skeið á Ísafirði. Enda þótt hún léti sig hafa það að eiga heima utan Akureyrar var hún þó aldrei við það fyllilega sátt og óskaði þess ætíð að geta flutt hingað aftur. Og henni varð að ósk sinni, því síðastliðið vor fluttu þau, hún og Ellert eiginmaður hennar, aftur hingað til bæjarins. Var einstaklega ánægjulegt að sjá þá gleði, sem í augum hennar skein yfir því að vera komin aftur og sjá fram á góða daga í því umhverfi, sem henni þótti vænst um. En stuttu eftir að þau voru flutt til Akureyrar sl. vor var ljóst, að hún gengi með þann sjúkdóm, sem leiddi til svo ótímabærs andláts, og olli því að dvölin hér varð styttri en allir hefðu kosið.

Ég sá hana fyrst á menntaskólaárunum í MA fyrir rúmum fjörutíu árum. Hún var ein af yngismeyjunum, sem prýddu bæinn, hvort heldur þær vísuðu til sætis í Borgarbíói eða afgreiddu í einhverjum af verslunum miðbæjarins. Það voru áhöld á því hvers vegna við fórum í bæjarferð strákarnir og það orð fór á að við færum í bió, fremur til þess að láta vísa okkur til sætis en að horfa á myndina. Síðan liðu mörg ár. Ég kynntist Ellert fljótt eftir að ég fluttist til Akureyrar og tókst með okkur góður kunningsskapur, sem síðan leiddi til vináttu. Dúdda var þá farin að taka þátt í starfsemi Sjálfstæðisflokksins, en hún var í nokkur ár formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Varnar. Við áttum ágætt samstarf í sjórn fulltrúaráðsins, en þar átti hún sæti, sem formaður Varnar, en ég sem formaður. Hún var traust og samviskusöm í öllu, sem hún tók að sér. Við áttum alltaf gott skap saman, sem síðar leiddi til þess, að hún varð ein af mínum traustustu stuðningsmönnum, þegar prófkjör og kosningar voru annars vegar. Við Ellert urðum einnig samstarfsmenn í Slippstöðinni hf. um árabil. Það er þess vegna margs að minnast og engin furða þótt góð og náin tengsl mynduðust á milli fjölskyldna okkar. Við áttum síðan kost á að heimsækja þau vestur á Ísafjörð sumarið 1999, ein af þessum ferðum, sem maður aldrei gleymir. Veðrið var eins og best verður á kosið og gestrisni þeirra hjóna í samræmi við það. Er þetta eitt besta ferðalag sem við höfum farið í hér innanlands og áttu Dúdda og Ellert stærstan þátt í að svo varð. Margt var þar spjallað og kom þá vel fram hvað þeim var mikið í mun að flytjast til Akureyrar aftur, enda þótt þeim liði að mörgu leyti vel þar vestra og höfðu eignast þar góða vini. Eftirsjá eftir traustum vini er því mikil og erfitt að geta lítið gert, þegar svo góður vinur fellur frá og aðrir vinir sitja eftir með sorg í hjarta. En eins og áður mun tíminn lækna öll sár og minningin um góða konu verður það sem eftir situr. Á skilnaðarstund sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur til Ellerts og fjölskyldu um leið og við biðjum góðan guð að blessa Dúddu okkar og minningu hennar.

Gunnar Ragnars.

Laugardaginn 4. nóvember sl. andaðist Sólveig Snæland Guðbjartsdóttir á heimili sínu í Víðilundi 21, Akureyri. Viljum við minnast Sólveigar með nokkrum orðum við andlát hennar.

Það var í byrjun árs 1997 að Sólveig fluttist til Ísafjarðar með manni sínum Ellerti Guðjónssyni starfsmanni hjá Fiskistofu á Ísafirði. Þau fengu íbúð í Múlalandi 12, í sama húsi og við bjuggum í, þá hófust okkar kynni við þau ágætu hjón Sólveigu og Ellert.

Fljótt myndaðist góður vinskapur okkar á milli og áttum við saman fjölmargar góðar stundir sem ljúft er að minnast er við nú kveðjum Sólveigu vinkonu okkar með sárum trega.

Það var ótrúlega margt sem við áttum sameiginlegt með Sólveigu og Ellerti, öll höfðum við áhuga á útiveru í náttúrunni enda fórum við mikið saman í göngutúra stutta og langa. Við keyrðum stundum vestur í Önundarfjörð eða Dýrafjörð, lögðum bílnum og fórum í góðan göngutúr. Það bar við að grillið var tekið með og sest var á fallegan stað niður við sjó og grillað, horft á sólarlagið og fjöllin speglast í spegilsléttum sjónum, umræður voru þá oft mjög háfleygar um lífið og tilveruna.

Á veturna fórum við oft saman á gönguskíði, það kom fyrir að við gátum stigið á skíðin við útidyr og rennt okkur inn í göngubrautir í Tungudal. Í júní 1999 fórum við fjögur saman til Færeyja og ferðuðumst við víða um eyjarnar, þessi ferð var okkur öllum ógleymanleg. Í þessari ferð kynntust Sólveig og Ellert nokkrum vinum okkar Maju í Færeyjum sem nú í sumar heimsóttu þau á Akureyri.

Já, það er margs að minnast á kveðjustund. Þó okkar kynni hafi staðið styttra en við áttum von á, þá myndaðist sönn vinátta okkar á milli sem aldrei bar skugga á. Fyrir það þökkum við.

Við sendum þér, Ellert minn, og börnum þínum okkar innilegustu samúðarkveðjur, jafnframt báðu vinir okkar í Færeyjum fyrir samúðarkveðjur.

Far þú í friði, Sólveig, með þökk fyrir vináttu þína í okkar garð.

Björn Helgason,

María Gísladóttir.

Dúdda frænka er nú horfin frá okkur. Fallega, fíngerða Dúdda, tilvera hennar er meðal minninga bernsku minnar og þær minningar skjóta nú upp kollinum.

Holtagata 6 á Akureyri var æskuheimili Sólveigar Snæland Guðbjartsdóttur.

Þar lifði hún bernskudaga sína, vafin umhyggju ástríkra foreldra, þeirra Guðbjarts Snæbjörnssonar og Guðrúnar Sigurðardóttur. Hún ólst upp í stórfjölskyldu, bræður hennar voru þrír, Siggi og Krummi á líkum aldri og hún, og Jósef nokkru yngri. Á heimilinu var einnig amma Sigrún, fósturbróðirinn Ingólfur og Bogga frænka (Kristbjörg). Húsagarðar systranna Guðrúnar og Laufeyjar lágu saman og Laufey og Björgvin og börn þeirra, þau Ragnar og Sigrún, voru hluti af þessari tilveru. Þótt húsið í Holtagötu 6 væri ekki stórt og heimilismenn margir voru þar gestir flesta daga, stundum margir og oft næturgestir. Skyldfólkið kom með mjólkurbílnum framan úr sveit og leit inn, og oft var gist í Holtagötunni enda var þar ávallt pláss. Ég man að við matborðið var líka alltaf pláss, heimilisfólkið þjappaði sér bara betur saman á bekkjunum í eldhúsinu, borðið var dregið fram svo það náði þvert yfir gólfið í litla eldhúsinu.

Langamma Sigrún sat við endann og spurði frétta framan úr sveitinni sinni og samræður voru oft fjörugar. Allir voru aufúsugestir, þarna ríkti gleði því langamma Sigrún, ættmóðirin, var glaðsinna og félagslynd eins og öll hennar börn. Við þetta eldhúsborð, í kaupstaðnum, bragðaði ég ýmislegt sem ekki þekktist í sveitinni, rauðar pylsur úr kjötbúðinni, nýja ávexti úr útibúinu í Hamarsstígnum og framandi fiska, eins og skötu, sem húsbóndinn, vestfirski sjómaðurinn, vildi hafa á matseðlinum.

Það var ævintýri líkast fyrir mig að koma í Holtagötuna og fá að stoppa þar. Mér fannst Dúdda stundum líkjast prinsessu, svo falleg og svo fín.

Dúdda var ljóshærð og bláeyg, há og grönn. Hún var fimm árum eldri en ég og oft fyrirmynd, einkum á unglingsárunum. Hún tók mig stundum með sér til vinkvenna sinna, ég fékk a.m.k. einu sinni að vera með henni í skólann, Barnaskóla Akureyrar, ég fékk að vera með henni í öskudagsliði, ég fékk að vera með í leikjum krakkanna í götunni á kvöldin, og ég fékk að sofa fyrir ofan hana í rúminu, því oft var ekki annars staðar pláss. Það var býsna margt nýtt sem ég, litla sveitastelpan, átti kost á að kynnast í fylgd með Dúddu. Eftir á dáist ég að þolinmæði hennar og jafnaðargeði, hvernig hún entist til að vera með litlu frænku sína í eftirdragi. Ég þakkaði þetta aldrei nægilega. Nú er það of seint.

Við stækkuðum, urðum ungar stúlkur. Ég átti athvarf á heimili hennar þegar ég flaug úr mínu fjölskylduhreiðri, foreldrar hennar voru mér sem aðrir foreldrar. Ég leit upp til fallegu frænku minnar, henni fylgdi birta, og gleði ríkti hvar sem hún fór. Ég fékk að fljóta með henni og Krumma á böll á KEA og ég var tekin með í bíltúr þegar hún hafði fengið bílpróf. Þetta voru skemmtilegir tímar. Svo kom prinsinn inn í líf hennar. Ég man eftir brúðkaupi þeirra Ellerts, um miðjan júní, í Holtagötu 6, þá var "nóttlaus voraldar veröld", þau ljómuðu af hamingju og framtíðin brosti við þeim.

Þau stofnuðu heimili og þeim fæddust yndisleg börn. Eins og í ævintýrunum.

Leiðir okkar lágu sjaldnar saman eftir það. Við bjuggum sjaldnast á sama landshorni. Ég fylgdist með henni úr fjarlægð. Á afmælisdegi hennar, í apríl síðastliðnum, hringdi ég til hennar og áleit þá að hún væri á Ísafirði. Þá var hún stödd í Munaðarnesi með öllum afkomendum sínum. Hún var svo glöð, glöð yfir því að öll fjölskyldan hennar var þar saman komin, hún var einnig glöð yfir því að þau Ellert höfðu tekið ákvörðun um að flytjast aftur heim, heim til Akureyrar. Og frænka mín fluttist heim, nær börnum og barnabörnum. Því miður varð dvöl hennar ekki löng, ævintýrinu lauk of fljótt.

Ellert umvafði konu sína umhyggju og ást, alla tíð. Í byrjun sambúðar þeirra virtust mér orð Jónasar Hallgrímssonar eiga svo vel við hann, að "blómknapp þann gæti - borið og varið - öll yfir æviskeið". Enn finnst mér þau orð hæfa. Hún frænka mín var ekki sterkbyggð en hún eignaðist tryggan lífsförunaut að styðjast við, lífsförunaut sem aldrei brást. Til hinsta dags, hinstu stundar var hann við hlið hennar.

Úti er ævintýri. Við hin grátum yfir því sem við höfum misst. Við grátum vegna þess sem var gleði okkar (Kahlil Gibran). En minningarnar um Dúddu og um ævintýrin lifa. Góður guð styrki ykkur Ellert, Guðjón, Guðbjartur, Sigurbjörg og fjölskyldur.

Sigfríður L. Angantýsdóttir.

Af öllum þeim gæðum

sem okkur veitir

viturleg forsjá

til ánægju auka

er vináttan

dýrmætust.

(Epikúros.)

Þegar æskuvinkona er fallin frá er söknuður allsráðandi í brjóstum okkar.

Eftir ævilanga vináttu verður mikið tómarúm. Minningar um ótal ánægjustundir hrannast upp. Skólagangan með leikjum og starfi, unglingsárin með öllum sínum ævintýrum. Afrek þitt þegar þú syntir yfir fjörðinn með vinkonu þinni. Ferðalög og útilegur, böllin, smáskotin, stóra ástin kom í nn í tilveru þína eftir eitt slíkt og það skot hefur enst með gagnkvæmri umhyggju.

Þó að við allar þrjár stofnuðum fjölskyldu og settumst að sín á hvoru landshorninu slitnaði aldrei vinkonuþráðurinn. Alltaf vorum við í sambandi hvor við aðra, fylgdumst með stækkandi fjölskyldum, atvinnu og lífshlaupinu öllu sem fullorðinsárin bera með sér.

Það var okkur raun að fylgjast með baráttu þinni við illkynja sjúkdóm en við dáðumst að dugnaði þínum og æðruleysi, þú lést ekki bugast þótt oft hljóti að hafa verið erfitt. Því miður gátum við svo lítið gert þér til hjálpar.

Í þrenningunni Obba, Bíbba og Dúdda, hefur fækkað um eina í þessu jarðlífi, en Dúdda verður alltaf með í huga okkar og tilveru í framtíðinni.

Elsku Ellert, Guðjón, Guðbjartur og Sigurbjörg, þið hafið misst mikið, en minningin um ástríka og góða eiginkonu, móður og ömmu, sem öllum vildi vel, verður ykkar styrkur.

Elsku vinkona, með miklum söknuði kveðjum við þig og þökkum ómetanlega vináttu í gegnum árin.

Þínar vinkonur,

Bryndís og Sigrún.

Skjótt hefur sól brugðið sumri,

því séð hef ég fljúga

fannhvíta, svaninn úr sveitum

til sóllanda fegri.

(Jónas Hallgr.)

Hvern hefði órað fyrir því, á vordögum síðasta sumars, að Dúdda, Sólveig Guðbjartsdóttir, mundi ásamt blómskrúði sumarsins falla til moldar núna á haustdögum. Það er mikill harmur kveðinn hjá hennar nánasta fjölskylduliði og vinum öllum.

Það er huggun harmi gegn að sá sem er mikið syrgður, hefur lifað til góðs. "Þú grætur vegna þess, sem var gleði þín áður", segir spámaðurinn Kahlil Gibran. Tímaglas lífshlaupsins tæmist, fyrr eða síðar, þó ótímabært fráfall sé ætíð meira sláandi en þegar öldungur hnígur ellimóður að velli.

Þegar ég minnist Sólveigar frænku minnar verður það ávallt minnisstætt hvað það var alla tíð bjart yfir henni og það var líka birta í nafninu hennar. Hún var ætíð hógvær í glæsileik sínum með mildu brosi og spékopp í kinn. Þegar ég sá hana síðast, en það var nokkrum dögum fyrir andlát hennar, þá var bjart yfir henni og æðruleysi þó að ekki leyndi sér að baráttan væri hörð. Þó að örlögin sköpuðu henni þann dóm að vera brottkölluð á góðum aldri, þá var hún þakklát fyrir góða ævi. Þau Ellert sköpuðu alltaf gott umhverfi kringum sig. Til þeirra var alltaf gaman að koma. Þeim fylgdi ætíð glaðværð og sérstök hlýja, sem gott var að njóta. Börnin þeirra bera með sér þetta hlýlega viðmót og glaðlega fas. Þetta er dýrmæt arfleifð.

Mér er það minnisstætt þegar ég átti athvarf þrjá vetur hjá foreldrum Dúddu í Holtagötu 6, þá voru þrjú eldri systkinin á mesta fjörkálfaaldrinum og var oft brugðið á leik. Vinsæll leikur var nefndur veiðimannaleikurinn. Stóri frændinn var að sjálfsögðu í hlutverki Grýlunnar. Þá var mikið hlegið og skríkt.

Það eru ljúfar minningar frá þessum dögum. Dúdda var vel gerð til líkama og sálar, hún vílaði ekki fyrir sér að leggjast til sunds og synda yfir Eyjafjarðarál ásamt vinkonu sinni. Eitt sinn syntu þær frá tanganum og yfir fjörðinn. Þá bjó hún alltaf fjölskyldu sinni fagurt heimili og vel var tekið á móti gestum hvort sem var í Reykjavík, Akureyri eða á Ísafirði.

Hún Dúdda var dul og bar ekki tilfinningar sínar á torg, en ég veit hún átti ríka trúarsannfæringu, sem hefur veitt styrk í erfiðu veikindastríði. Það ætla ýmsir, sem gæddir eru djúpri undirvitund, að þegar mönnum er kippt fyrirvaralítið af þessum lífsvettvangi, þá sé þeim ætlað annað og nýtt hlutverk, "meira að starfa Guðs um geim".

Sálmaskáldið Hallgrímur Pétursson setur umskiptin fram á sannfærandi hátt:

Nær þegar kallið kemur

kaupir sér enginn frí.

Þar læt ég nótt er nemur,

neitt skal ei kvíða því.

Elsku Ellert og börnin. Við biðjum Guð að blessa ykkur, góðu minningarnar og sefa sorgina.

Svava, Sigurður og fjölskylda frá Torfufelli.

Fáum manneskjum hef ég kynnst um dagana, sem hafa borið með sér eins mikla birtu og vinkona mín, Sólveig Guðbjartsdóttir.

Hvar sem hún var eða kom, var sem ljóma brygði á allt umhverfis hana. Mér fannst eins og hún hlyti að vera frá öðrum heimi, heimi sem væri svo miklu betri en sá sem við lifum í.

Prúðmennska, réttlæti og kærleikur einkenndu alla hennar framkomu. Trúmennska var í fyrirrúmi í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún hallaði aldrei á nokkurn mann, var alltaf reiðubúin að rétta hlut þess er minna mátti sín, sá ávallt það besta í fari hvers og eins.

Þeir hafa verið þungbærir þessir mánuðir frá því hún veiktist. En það æðruleysi og sá styrkur sem hún sýndi var með eindæmum, aldrei kvörtunarorð. Ef spurt var um líðan var svarið yfirleitt það sama, að hún hefði það bærilegt.Og vissulega bar hún þjáningar sínar af mikilli reisn.

Ég er þakklát fyrir þær stundir sem við höfum átt í sumar á heimili hennar. Alltaf fór maður sterkari af hennar fundi og hugurinn fylltist einhverjum ólýsanlegum friði. Heima undi hún sér best, og þaðan lagði hún í sína hinstu för, umvafin ástvinum sínum. Fjölskyldan og heimilið var henni allt.

Dúdda eins og hún var kölluð var falleg kona svo eftir var tekið og fegurð sinni hélt hún til hinstu stundar.

Senn fara jólaljósin að lýsa upp skammdegið og birtan sem Dúdda skilur eftir sig mun lýsa okkur um ókomna tíma.

Fagra kveðjustund, tefðu

augnablik, að þín síðustu

orð verði þögnin. Ég hneigi

höfuð mitt, og held

lampanum hátt, að hann

megi lýsa þér á leiðinni.

(R. Tagore.)

Kæru ástvinir, Guð blessi ykkur öll. Blessuð sé minning Sólveigar Guðbjartsdóttur.

Drífa Gunnarsdóttir.

Guðrún og Viðar.