Hrefna Sigurðardóttir fæddist á Ósi í Breiðdal 27. mars 1915. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 4. nóvember síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Heydalakirkju 11. nóvember.

Það var hluti af barnæsku minni að fara austur í sveitina til afa og ömmu í Krossgerði. Lagt var af stað í upphafi hvers sumars í hið langa ferðalag frá Reykjavík til Berufjarðar, fyrir barnshugann var það óralöng leið og erfið á misjöfnum malarvegum, en það gleymdist um leið og við krakkarnir sáum loks ljósin í bænum. Við opnuðum hliðið fyrir bílinn og hlupum svo sjálf niður grundina til að verða fyrst til að fagna afa og ömmu.

Fyrstu árin mín í sveitinni handmjólkaði amma enn kýrnar í gamla fjósinu, en mjaltavélarnar komu eitthvað síðar. Fyrir litla barnsfingur var afrek að geta tosað einhverja dropa úr einum spena, hvað þá að geta mjólkað svona margar kýr í einu eins og hún amma. Þær hendur sem mjólkuðu svona sterklega og tóku um fullar skjólurnar voru merktar af mikilli vinnu en þótt sterk væri fannst mér þetta alltaf vera henni þung byrði og fannst hún alltaf hálfbrothætt við svona erfiði.

Í fjósinu með okkur voru allir þeir sem eygðu von um ylvolga mjólk og fannst okkur krökkunum skemmtilegast þegar kötturinn opnaði ginið og beið eftir að amma sprautaði upp í hann, það var fljótlegra en að lepja af diski. Þegar við vorum þar tvær einar fannst mér gaman að geta nælt mér í gamlar sögur úr huga hennar því mér fannst þær allar svo dramatískar og fólkið svo miklar hetjur. En mest um vert þótti mér að hún naut þess að láta hugann reika aftur í tíð. Þá færðist bros yfir andlit hennar og augun urðu svo falleg og pírð að varla sáust augasteinarnir, broshrukkurnar fengu sína dýpt og hún hló með öllu sínu hjarta svo líkaminn hnykkti við, á þeim stundum fannst mér amma mín fallegasta bóndakona í heimi.

Amma var hetja, hennar líf var svo sannarlega dramatískt, hún fæddi ellefu börn og kom þeim upp með sóma, það var hið mikla ríkidæmi þeirra hjóna. Hún mjólkaði fyrir íslenska þjóð langt fram á áttræðisaldur og hefði gert lengur ef hún hefði haft heilsu til.

Þau ár sem hún var á Hrafnistu var hún alltaf með hugann fyrir austan. Henni fannst ómögulegt að vera ekki að gera neitt og vildi helst komast heim. En nú er hún laus úr viðjum sjúkdóms síns og orðin frjáls ferða sinna. Hún heyrir örugglega niðinn frá Krossfossinum og heimilislegt kvabbið í fýlnum í klettunum, hún sér hillingarnar í Papey, Búlandstindinn við Leitishvarfið og austfjarðaþokuna læðast inn. Nú getur hún hlustað á þögnina á meðan hún rakar dreifar, labbað niður að sjó eða stoppað í sokka, hún er komin heim í Krossgerði.

Fanney Einarsdóttir.

Fanney Einarsdóttir.