Myndin er tekin á fyrsta starfsári Heilsuhælisins. Aftast stendur Sigurður Magnússon, fyrsti yfirlæknir spítalans, og hjúkrunarkonurnar fjórar. Hópurinn fyrir framan eru allir rólfærir sjúklingar Heilsuhælisins.
Myndin er tekin á fyrsta starfsári Heilsuhælisins. Aftast stendur Sigurður Magnússon, fyrsti yfirlæknir spítalans, og hjúkrunarkonurnar fjórar. Hópurinn fyrir framan eru allir rólfærir sjúklingar Heilsuhælisins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Berklaveiki var afar útbreidd á Íslandi um aldamótin 1900 og lækning við vágestinum virtist víðsfjarri. Ný von vaknaði hjá þjóðinni með stofnun berklahælis á Vífilsstöðum sem hóf starfsemi sína haustið 1910. Jóhanna K. Jóhannesdóttir fræddist um sögu spítalans hjá þeim Hrafnkeli Helgasyni, yfirlækni til 30 ára, og Þórarni Gíslasyni, núverandi yfirlækni.

BERKLAR hafa að öllum líkindum verið með íslensku þjóðinni allt frá landnámstíð en tóku ekki að breiðast út svo nemi fyrr en um aldamótin 1900 og eru breytingar á búháttum taldar ein aðalástæðan. Byggð þéttist, litlir þorpskjarnar mynduðust og með aukinni umgengi jukust líkurnar á smiti. Berklafaraldurinn var seint á ferðinni á Íslandi á miðað við nágrannalöndin og færðist hinn svo nefndi "hvíti dauði" í aukana hérlendis eftir því sem leið á nýja öld en minnkaði annars staðar. Fórnarlömbin voru aðallega ungt fólk í blóma lífsins og því voru djúp skörð höggvin í þjóðina og voru þær fjölskyldur fáar sem sluppu við sorgina. Sjúkdómstilfellum fjölgaði ört, smitleiðir voru með öllu óþekktar, fáfræði og ótti réði ríkjum.

Árin 1896-1900 voru 167-266 berklasjúklingar skráðir árlega á Íslandi en næstu tíu árin þar á eftir, 1900-1910, eru skráðir 204-495 berklaveikir ár hvert. Algengasta dánarorsök Reykvíkinga á árunum 1911-1925 voru berklar og ollu þeir fimmtungi allra dauðsfalla á landsvísu. Dánarhlutfall vegna berkla hérlendis var og eitt það hæsta í Evrópu allri.

Héraðslæknirinn í Reykjavík, Guðmundur Björnsson, var maður hugsjóna jafnt sem framkvæmda og ber heimildum saman um að hann hafi átt frumkvæðið að baráttu gegn berklaveiki þegar árið 1898 þegar hann þýddi og gaf út danskan bækling, "Um berklasótt". Útgáfan markaði tímamót þar sem þetta var í fyrsta sinn sem leitast var við að fræða almenning á Íslandi um útbreiðsluhætti berkla og varnir gegn þessum skæða sjúkdómi. Þar með var stigið stórt skref í baráttunni við hræðslu og fáfræði almennings sem áður hafði litið svo á að úrskurður um berklaveiki jafngilti dauðadómi. Almenningi hafði áður verið með öllu ókunnugt um smithættu og -leiðir sjúkdómsins og heilu fjölskyldurnar sýktust og létust. Fræðslurit Guðmundar vöktu vonir almennings um að með réttum viðbrögðum yrði hægt að takmarka útbreiðslu veikinnar og jafnvel að lækning við tæringunni væri í augsýn.

Næstu árin beitti Guðmundur sér fyrir því innan Oddfellowstúkunnar Ingólfs að koma upp félagsskap sem skyldi bera veg og vanda af því verkefni að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga. Málið féll í góðan jarðveg enda lét reglan líknarmál mjög til sín taka. 13. nóvember 1906 var stofnfundur sk.Heilsuhælisfélags. Klemenz Jónsson landritari var kosinn formaður, Björn Jónsson ritstjóri kjörinn ritari og Sighvatur Bjarnason bankastjóri valinn gjaldkeri félagsins. Félagið starfaði af krafti og setti á laggirnar deildir innan Heilsuhælisfélagsins víða um land og efndi til söfnunar til byggingar heilsuhælis. Þjóðin tók þátt í verkefninu og mikið fé safnaðist á skömmum tíma. Söfnunin barst m.a. út fyrir landsteinana þar sem jafnvel brottfluttir Íslendingar í Vesturheimi lögðu sitt af mörkunum til að gera drauminn að veruleika.

Innan tveggja ára frá félagsstofnun var hafist handa við frekari undirbúning verkefnisins og var hælinu valinn staður á Vífilsstöðum. Menn hugsuðu stórt - hælið skyldi verða stærsta sjúkrastofnun Íslands. Sumarið 1909 var hafist handa og hornsteinninn að nýbyggingunni lagður 31. maí sama ár.

Rögnvaldur Ólafsson var ráðinn arkitekt og byggingarmeistari hússins en Rögnvaldur hefur oft verið nefndur fyrsti arkitekt Íslands þótt hann lyki í raun aldrei námi þar sem hann var sjálfur berklaveikur. Tók húsbyggingin aðeins átján mánuði og var hælið tekið til starfa þegar 5. september 1910 með rúm fyrir 80 sjúklinga. Fullbúið öllum tækjum og húsgögnum kostaði húsið 300.000 krónur.

Þegar húsið var risið þótti ýmsum sem ráðist hefði verið í of miklar framkvæmdir og raddir efasemdarmanna sögðu hið nýja heilsuhæli allt óþarflega stórt og rekstrarkostnaður yðri óbærilegur. Þessar raddir þögnuðu fljótt þar sem hvert einasta sjúkrarúm var setið. Nýja heilsuhælið þótti svo stórt og glæsilegt að fólk gerði sér ferð út fyrir bæjarmörkin til að berja báknið augum - en þorði ekki mjög nálægt af ótta við berklasmit.

Hælið var síðar stækkað og sjúkrarúmum fjölgað og voru sjúklingar um og yfir 200 þegar mest var.

"Í dag fyllist brjóstið stolti þegar manni verður hugsað til dugnaðar þessara manna sem höfðu hugsjónirnar og kraftinn til að koma þessu húsi upp. Bláfátæk þjóð byggði stórt og byggði vel og dugnaður og atorka manna sem störfuðu hér eins og Helga Ingvarssonar yfirlæknis (yfirlæknir frá 1. janúar 1939-31. desember 1967) skiluðu gífurlegu dagsverki til samfélagsins," segir Þórarinn.

Allir gluggar opnir upp á gátt

Fyrsti yfirlæknir hælisins, Sigurður Magnússon, hafði lagt sérstaka stund á berklalækningar og kynnt sér mál þeim viðkomandi víða. Yfirhjúkrunarkonan var dönsk, dugnaðarforkur að nafni Karen Christensen sem starfaði á Vífilsstöðum fyrstu tvö starfsárin. Þrjár íslenskar hjúkrunarkonur voru einnig ráðnar til starfans, þær Sigríður Magnúsdóttir, Þuríður Jónsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir. Fyrsta íslenska yfirhjúkrunarkonan var Magdalena Guðjónsdóttir sem tók til starfa 1. september 1924.

Á upphafsárum heilsuhælisins þekktust enn engin lyf til lækningar berklum. Grundvallaratriði í meðferð sjúklingana voru útiloft, kjarngóð fæða og hvíld með hæfilegri hreyfingu. Sjúklingar og starfsmenn segjast aldrei muna til þess að gluggar hússins hafi nokkru sinni verið lokaðir heldur stóðu þeir allir ævinlega upp á gátt - að undanskildu árinu 1918 þegar öskufall úr Kötlugosi gerði slíkt illmögulegt. Þröskulda var hvergi að finna innanhúss þar sem þeir hömluðu loftstreymi og skrifuðu læknar upp á sérstaka útivist í sk. Leguskála sem var vestan við Hælið rétt eins og um lyfseðla væri að ræða. Þar sem hæfilegur kuldi var talinn herða sjúklingana var hverjum sjúklingi þannig "skömmtuð" útivera og var tekið inn í reikninginn hvort sjúklingurinn væri nógu heilsuhraustur til að bera sjálfur teppi eða poka með sér sem yfirbreiðslu eða þyrfti á aðstoð hjúkrunarkonu að halda.

Sérstök barnadeild var rekin við Hælið sem og skóli þar sem þau fengu ekki að ganga í skóla með heilbrigðum börnum vegna smithættu.

Heilsuhælisfélagið sá um rekstur Vífilsstaða til 1916, með nokkrum styrk úr landssjóði, en eftir þann tíma tók hið opinbera við öllum rekstri sjúkrahússins.

Gífurleg þrengsli voru á hælinu þegar mest var og aukarúm sett inn á allar stofur. Á sumrin var gripið til þess ráðs að láta sjúklinga gista í tjöldum úti í hrauninu. Fyrir siðsemissakir voru það aðeins karlsjúklingar sem gistu tjöldin og fengu mat og þjónustu frá Hælinu.

Gjörbreyting verður á allri meðferð berklasjúklinga þegar berklalyfin koma til sögunnar. Árið 1944 finnur danskur læknir upp lyfið PAS-streptomycin sem ölli straumhvörfum í berklalækningum. Hrafnkell segir yfirlækninn á berklahælinu hafa klökknað þegar hann lýsti fyrsta skiptinu sem hann gaf dauðvona sjúklingum sínum lyfið sem afstýrði áður vísum dauða. "Gömlu berklalæknarnir voru einstakir menn - mikil góðmenni með sérstakt fas enda hafði starfið mótað þá. Þeir þurftu árum saman að horfa hjálparvana upp á kornunga sjúklinga sína deyja og úrræði voru fá eða engin." Öflugasta lyfið í baráttunni, Isoniazid, kom svo árið 1952 og með réttri blöndu lyfjanna var fyrst hægt að lækna alla berkla.

Blásinn - brenndur - höggvinn

Löngu áður en lyfin komu til sögunnar var öðrum aðferðum beitt til að reyna að sigrast á sjúkdómnum. Í byrjun aldarinnar fann ítalskur vísindamaður, Forlanini, upp á sk. blásningu þar sem lofti var blásið inn í brjósthol sjúklings til að fá lungað til að falla saman. Þessir sjúklingar voru með berklaígerð og -holur á lunga. Aðferðin var árangursrík og batahorfur sjúklinga jukust. Aðferð þessi ruddi sér til rúms í Evrópu og var fyrst notuð á Heilsuhælinu árið 1912. "Fólk gekk oft mánuðum og jafnvel árum saman með þetta loftbrjóst, sem svo var kallað. Sjúklingar komu reglulega í eftirlit þar sem loftþrýstingur var mældur og fyllt á loftið eftir þörfum," sagði Hrafnkell og taldi ekki ósennilegt að blásningartækið væri enn til á Vífilsstöðum.

Blásningin reyndist ekki duga öllum sjúklingum þar sem stundum komu í ljós samvextir frá lunga yfir í brjóst þannig að lungað gat ekki fallið saman.

"Þessir samvextir voru oft einmitt þar sem berklaholan var og þá var siður að brenna. Brennslan var fólgin í því að samvextirnir voru brenndir með rafmagnsbrennslu. Höggning var svo notuð þegar allar aðrar aðferðir þraut, þegar ekki var hægt að nota blásningu, oftast vegna þess að sjúklingar höfðu fengið brjósthimnubólgu. Höggningin var mikil aðgerð þar sem efstu rifbeinin voru fjarlægð úr sjúklingnum - kannski sex, átta rifbein, og þá féll brjóstkassinn. Tilgangurinn og verkun höggningarinnar var því sú sama og hinna aðferðanna, þ.e. að berklaholan lokaðist."

Guðmundur Thoroddsen og Halldór Hansen sáu um þessar aðgerðir sunnanlands en síðar voru þær eingöngu framkvæmdar á Akureyri.

"Enn þann dag í dag verður fólk á vegi manns sem segir: "Ég var blásinn, brenndur og höggvinn" og það er nauðsynlegt fyrir t.d. unga læknanema að vita hvað þetta þýðir," segir Hrafnkell.

Dægrastytting sjúklinga og kynlegir kvistir

Sjúklingar dvöldust oft lengi á Heilsuhælinu á Vífilsstöðum. Þegar berklasjúklingur kvaddi heimilisfólk sitt var eins og um hinstu kveðju væri að ræða - fáir litu svo á að þeir ættu afturkvæmt heim af Hælinu. Sjúkdómsgreining jafngilti dauðadómi.

Berklaveiki lagðist eins og áður sagði þyngst á æskufólk og því var meðalaldur sjúklinga á Vífilsstöðum lágur og reyndi unga fólkið eftir megni að stytta sér stundir til að gera tilveruna ofurlítið skemmtilegri. Menningarlíf var með miklum ágætum, leikrit voru sett upp, spila- og taflklúbbar starfræktir auk þess sem hljóðfæraleikarar, söngfólk og upplesarar komu í heimsókn og skemmtu endurgjaldslaust. Vistmenn ráku fyrsta einkareknu útvarpsstöðina hér á landi og fengu nýjustu hljómplötur til spilunar. Með tilkomu Ríkisútvarpsins 1930 voru sett útvarpstæki með heyrnartólum við hvert rúm. Heilsuhælið átti kvikmyndavél og voru myndir fengnar að láni hjá bíóunum í Reykjavík og sýningar haldnar við og við. Tómstundir voru notaðar til léttrar handavinnu og bókakostur sjúklinga óspart notaður og mikið lesið. Þeir hraustari lögðu stund á róður og siglingar á vatninu. Sjúklingarnir hlóðu líka vörðu uppi í hlíðinni fyrir ofan Vífilsstaði og var hún ætíð nefnd Gunnhildur. Skýringarnar á nafngiftinni eru ekki einróma en var varðan notuð sem eins konar hreystipróf. Ef sjúklingurinn gat gengið óstuddur að Gunnhildi, var hann á batavegi.

Rómantíkinni var ekki heldur á kot vísað og var grunnurinn að ófáum hjónaböndum lagður á Hælinu.

Ýmsir skrifuðu bækur um vist sína á Vífilsstöðum og er sú þekktasta eflaust skáldsaga Kristmanns Guðmundssonar "Ármann og Vigdís". Þegar fyrrum berklasjúklingar vildu svo giftast eða kvænast voru brögð að því að þeir þyrftu vottorð upp á að þeir væru að fullu lausir við smit.

Meðal þekktra dvalargesta Vífilsstaða var Haukur pressari sem dvaldist á Heilsuhælinu árum saman og flestir eldri Reykvíkingar kannast við. Haukur fékk viðurnefnið þar sem hann gekk alltaf um borgina með straujárn undir handleggnum og bauðst til að pressa buxur nokkurra útvalinna borgarbúa.

"Hann var ekki eins og fólk er flest," segir Hrafnkell, brosir að minningunni og segir kankvís: "Það þótti mikill heiður ef Haukur pressaði fyrir mann. Ég held meira að segja að ég eigi ennþá buxur sem hann setti þvílíkt þverbrot í að ég hef aldrei getað farið í þær síðan, og svo átti hann það líka til að gleyma pressujárninu á buxunum í svolítinn tíma með afdrifaríkum afleiðingum."

Breyttir tímar - nýtt hlutverk

Með markvissum aðgerðum berklayfirlæknis ríkisins, starfsfólks hans auk umfangsmikilla rannsókna á heilsufari fólks minnkaði fjöldi nýskráðra sjúklinga og berklasjúklinga í heild. Sigurður Sigurðsson ferðaðist um landið allt til að skoða fólk og voru skoðunarferðir hans með varðskipunum víðfrægar. Gegnumlýsingar, röntgenmyndir og berklaprófun grunnskólabarna sýndu berklaveiki á frumstigi sem auðvelt var að lækna. Árangursrík lyfjameðferð og bættur aðbúnaður og húsakynni almennings leiddi smám saman til þess að ekki var lengur þörf á sérstöku berklasjúkrahúsi og var Heilsuhælinu fundið nýtt hlutverk og nýtt nafn - Vífilsstaðaspítali.

Upp úr 1970 fór að bera mikið á lungnasjúkdómum af öðrum toga. Áhrif stóraukinna reykinga þjóðarinnar á liðnum áratugum fóru að koma í ljós með síhækkandi tíðni lungnakrabbameins og annarra alvarlegra lungnasjúkdóma.

Í dag er starfsemi sjúkrahússins þríþætt. Öflug lungnalækningadeild er rekin við sjúkrahúsið þar sem fengist er við langvinna lungnasjúkdóma, langvinna teppusjúkdóma eins og lungnaþembu og berkjubólgu.

Greining ofnæmis og ofnæmissjúkdóma á vel búinni göngudeild er annar liður í starfinu. Loks má telja deild sem hefur umsjón með sjúklingum sem eiga við öndunartruflanir í svefni að stríða en rúmlega 700 sjúklingar eru með öndunarvélar vegna kæfisvefns og 70 til viðbótar með flóknari öndunarvélar vegna minnkaðrar öndunargetu.

"Það er viðamikil starfsemi í kringum þetta en einnig fáumst við við astma og lungnabólgu og þess lags sjúkdóma sem alltaf koma upp," segir Þórarinn en Vífilsstaðaspítali er í dag hluti af Landspítala Íslands - háskólasjúkrahúsi.

"Ef berklar væru sami vágestur í dag og þeir voru fyrir seinna stríð þá væru um 400-500 Íslendingar að falla í valinn af völdum þeirra ár hvert, megnið fólk í blóma lífsins," segir Þórarinn feginn því að raunin er önnur og öllu betri. Ísland er í dag í hópi landa með lægstu tíðni berklasmits.

Þórarinn segir níutíu ára starfsafmælið vera verðugt tækifæri til að geta þess mikla starfs sem unnið hefur verið á Vífilsstöðum og allra þeirra sem þar hafa dvalist eða starfað. "Spítalinn auglýsti fyrir nokkrum vikum eftir myndum og munum frá gamalli tíð og hefur margt skemmtilegt komið til okkar. Við fengum sendar myndir frá lífi þessa fólks sem reyndi að lifa lífinu af gleði í skugga erfiðs sjúkdóms og eru þær ómetanleg heimild um þennan tíma í íslensku þjóðlífi þegar hræðilegur sjúkdómur snerti flestar fjölskyldur landsins. Spítalinn verður opinn gestum á föstudag á milli 14 og 18 þar sem gefst færi á að skoða þessar minjar."