Þorsteinn frá Hamri
Þorsteinn frá Hamri
eftir Þorstein frá Hamri. Útgefandi Iðunn 2000. Prentvinnsla: Prentsmiðjan Oddi. 56 bls.

Það læðist í hjartað, líður um vitin: angurværð, sagði ég ungur forðum og lausmáll... Í seinni tíð forðast ég að nefna það nokkuð önnum kafinn að anda því frá mér á sterkan, kynlegan streng.

ÞORSTEINN frá Hamri hefur með skáldskap sínum skapað sér þann sess að hann er nú meðal virtustu skálda þjóðarinnar. Það telst því ávallt til viðburða á bókmenntasviðinu þegar hann sendir frá sér nýja bók. "Vetrarmyndin" er átjánda ljóðabók Þorsteins og sýnir glöggt að styrkur hans sem ljóðskálds er hinn sami þótt sjónarhorn hans hafi breyst nokkuð með árunum. Enda ber það einungis sköpunarferlinu sjálfu gott vitni þegar endurnýjun eða framþóun hugmynda á sér stað í skáldskap.

Í "Vetrarmyndinni" er þó ekki um neinar róttækar byltingar að ræða, heldur er fremur eins og Þorsteinn kanni nýja fleti á viðfangsefnum sem honum hafa áður verið hugleikin. Jafnframt er eins og skáldskapur hans færist frá ytri veruleika mannlegs lífs, nær sammannlegri reynslu hins innri manns.

Um þennan (skáldlega) þroska mannskepnunnar yrkir Þorsteinn í upphafi bókarinnar, í ljóðinu "Síðdegi" (bls. 5):

Það læðist í hjartað,

líður um vitin:

angurværð, sagði ég

ungur forðum og lausmáll...

Í seinni tíð forðast ég

að nefna það nokkuð

önnum kafinn

að anda því frá mér

á sterkan, kynlegan

streng.

Hér birtist ákaflega sterk mynd af þroskaferli mannsins sem á "síðdegi" lífs síns hefur náð taumhaldi á tungu sinni, veit enda betur en forðum að sumt er ekki hægt að færa í orð. Tjáning hans er nú samtvinnuð lífsandanum; í stað orða andar hann á kynlegan lífsstrenginn svo hljómur hans dýpkar í sömu mund og skilningur hans á tilvist sinni.

Strengurinn birtist aftur í myndmáli næsta ljóðs, "Vetrarmorgunn". Þar er hann myndhverfing fyrir hina óræðu tengingu á milli ósamræmanlegra væntinga þrárinnar, - þeirrar vonar sem býr í brjósti sérhvers manns - og hlutskiptis hans. Í ljóðinu kemur fram ósk um að aðgát skuli höfð í nærveru sálar (eins og Einar Benediktsson kaus að orða það) enda strengurinn viðkvæmur, - "nötrar við minnsta hljóð" (bls. 6). Lokalínur ljóðsins eru eins og fyrirmæli um viðmót okkar til samferðamanna og þess sem við getum lesið af gluggum (sálar) þeirra (bls. 7):

Og þá

skulum við

skrafa um það

hljótt

og af hlýju

En varla

má það vera meira

Þriðja ljóð bókarinnar "Næturþel" er einnig tilbrigði við þetta stef, þar sem maðurinn fer "línuvillt" á lífsleið sinni og týnir "þræðinum óvart".

Þekking og yfirsýn Þorsteins á tengslum okkar við fortíðina og sagnahefðina hefur ætíð verið mikilvægur undirtónn í verkum hans. Svo er einnig í þessari bók, en eins og hann bendir sjálfur á í athugasemdum tengjast ljóðin "Augnablikið", "Eða var það feigðin", "Afdrif", "Fótmál" og "Máninn líður" innbyrðis. Þau byggja á minnum úr "Álfareið" Heines og Jónasar Hallgrímssonar ásamt sögunni af djáknanum á Myrká.

Þessi ljóð hverfast um tilvist einstaklingsins í myndmáli þar sem mannsbarnið er staðsett á mörkum lífs og dauða. Í ljóðunum ríkir þó engin svartsýni, það er fremur eins og skáldið geri sér far um að horfast í augu við þá staðreynd að allt frá fyrsta andardrætti eru örlög okkar ráðin, jafnvel þótt við veljum okkur mismunandi leiðir til að fóta okkur á hálli lífsleiðinni. Í þessum ljóðum mætast andstæður ungdóms og elli, lífs og dauða, (tungl)birtu og myrkurs, öryggis og ógnar, í myndum þar sem við erum einungis leikendur í tálsýn tíma og rúms.

Ljóðið "Máninn líður" dregur minni og andstæður þessa myndmáls saman í hnotskurn, þar sem allir eru ferðbúnir í samsömun sem "Myrkármenn" að leiðarlokum (bls. 16):

Líkt og svipmót í loftinu

skjóti gneistum,

látbragð ættað

úr gleðivökunni forðum

sem að var stefnt

en varð engin:

hrímuð klöppin

í sældar og samveru stað!

Alltaf handan einhvers ...

Síkvikt merlar það samt

við okkur, ferðbúnum,

ætíð ferðbúnum

okkur, þessum

allra landa og stunda

Myrkármönnum.

Sameiginleg minning "Myrkármanna" felst í væntingum er nú heyra sögunni til, og birtist þeim einungis sem ljósleiftur úr öðrum heimi, - "handan einhvers ..."

Þótt víða bregði fyrir húmi, rökkri, síðdegi, vetri og myrkri í "Vetrarmyndinni" eru þær hefðbundnu vísanir ekki einungis tengdar ævikveldi einstaklingsins. Þær eru fremur settar fram sem tákn þroska og vísdóms, þar sem stutt er í ljósgeislann og lífið. Í ljóðinu "Stef um haustið, lögmálið og ljósið" segir til dæmis (bls. 35):

Vorgeisli hrökk

sem neisti í nóvembertundrið:

sértu skyggn

muntu sjá hvar eldrákin fleygar

dægrin dimm.

Bókinni "Vetrarmyndin" fylgir stilla þroskaðs innri manns sem þekkir bæði vonir og vá heimsins. Þar er hæglátt húm vetrarins ekkert annað en undanfari þess að við getum heilsað "opnum, albjörtum júní" ("Vetrarmyndin" bls. 47) þessa heims eða annars.

Þannig hefur Þorsteini frá Hamri enn á ný lánast að meitla saman margræð ljóð er við nánari lestur dýpka tón þess skáldlega skilnings sem lesandinn býr yfir, - svo vísað sé í myndmál Þorsteins sjálfs.

Fríða Björk Ingvarsdóttir