Ragnar Emilsson Í dag verður jarðsunginn Ragnar Emilsson, starfsmaður húsameistara ríkisins, en hann lést að morgni fimmtudags, 27. september sl., eftir stutta legu og vonlausa baráttu við klóharðan sjúkdóm. Ragnar fæddist 3. október 1923 í Kaupmannahöfn, sonur hinna valinkunnu sæmdarhjóna, Emils Jónssonar, ráðherra, og frú Guðfinnu Sigurðardóttur. Var hann elstur sex systkina.

Eftir stúdentspróf við Menntaskólann á Akureyri vorið 1944 hélt Ragnar til Svíþjóðar til þess að stunda nám í húsagerðarlist, fyrst í Stokkhólmi skamman tíma en síðan við Chalmers-tækniháskólann í Gautaborg.

Ragnar kvæntist árið 1948 Sigrúnu Jónsdóttur, vefnaðarlistakonu og kennara, sem þá var einnig viðnám í Gautaborg. Eignuðust Ragnar og Sigrún tvö börn. Þau eru: Sigurborg Ragnarsdóttir, kennari og fyrrum starfsmaður Sjónvarpsins. Hún býr nú í Washington í Bandaríkjunum og er gift Stefáni Karlssyni, lækni, sem starfar þarað erfðafræðirannsóknum við National Institutes of Health. Sigurborg og Stefán eiga tvo syni, Ragnar Karl og Jón Hall; Emil JónRagnarsson, læknir. Hann starfar nú við sjúkrahús í Reykjavík og er ókvæntur.

Sigrún átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi þegar hún og Ragnar giftust og lét Ragnar sér annt um þroska þeirra, nám og gengi.

Sigrún og Ragnar slitu samvistum árið 1983 en héldu samt góðu kunningjasambandi. Var Sigrún honum traust stoð og stytta í bana legunni.

Ragnar starfaði jafnan eftir að hann kom heim frá náminu í Svíþjóð hjá embætti húsameistara ríkisins í Reykjavík. Þar átti hann ríkan þátt í teikningu margra opinberra bygginga, m.a. Kópavogskirkju, þarsem smekkvísi hans og næmt listrænt auga komu að góðum notum.

Við Ragnar Emilsson kynntumst árið 1963 þegar að því dró að sá sem þessar línur ritar giftist stjúpdóttur hans, Svövu Sigurjónsdóttur. Það fór vel á með okkur Ragnari þessi 27 ár. Við áttum ýmis sameiginleg áhugamál (þ. á m. var skákin). Þá ferðuðumst við ósjaldan saman um landið, ekki síst til Víkur í Mýrdal þar sem fjölskyldan átti bæði sumarhús og marga vini. Naut Ragnar þess virkilega vel að koma þangað og slaka á við veiðiskap, kartöflurækt, hestamennsku o.fl. Þar og víðar málaði hann líka myndir á stundum, einkum vatnslitamyndir, sem margar hverjar eru besta stofuprýði.

Ragnar Emilsson var hæfileikamaður, ekki síst á listræna sviðinu, en jafnframt látlaus persóna og gerði ekki mikið úr sjálfum sér í orðræðum. Að lífsskoðun var hann einlægur og sannfærður jafnaðarmaður, alveg eins og faðir hans og móðir, og var alla ævi hliðhollur hagsmunum alþýðumannsins.

Það var gaman að hitta Ragnar. Kom þar ekki síst til kímni hans. Hann hafði alveg sérstakt skopskyn. Og hann hafði gaman af að hitta fólk, sagði skemmtilega fráog var þægilegur í framkomu.

Fyrir nokkrum árum veiktist Ragnar af erfiðum sjúkdómi sem þá tókst að lækna eða bægja frá í bili. En slík lækning mun reyna mikið á líkamann og veikja varnir hans. Enda fór það svo að í sumar vitjaði hans á ný skyldur, illvígur kvilli. Varð þá ekki við neitt ráðið. Einstaka sinnum bráði þó af honum í þessari viðureign sem átti eftirað verða hans dauðastríð. Áttum við þá skemmtilegar samræður um heima og geima, rétt eins og í gamladaga, í stuttri ágústheimsókn okkar Svövu til Íslands. En maðurinn með ljáinn krafðist síns. Meinið heltók Ragnar og var hann allur á örfáum vikum.

Það er í léttu samtali á kvöldstund sem Ragnar Emilsson stendur mér ljósast fyrir hugskotssjónum, með brosviprur á vörum og kímni í augnkrókum. Og ef við skyldum enn eiga eftir að hittast, þá hlakka ég til þess að vita hvaða kostulega sögu hann ætlar að segja mér næst.

New York, 3. október 1990, Andri Ísaksson