Einar Örn Birgis var fæddur 27. september 1973 í Reykjavík. Hann lést hinn 8. nóvember sl. Foreldrar hans eru hjónin Birgir Örn Birgis rekstrarstjóri og Aldís Einarsdóttir. Systkini Einars Arnar eru Guðrún Hulda, gift Kristjáni Þór Gunnarssyni, börn þeirra eru Helga, Sindri Þór, Aldís Eva og Karen Eva; Birgir Svanur, giftur Ragnheiði Hildi Ragnarsdóttur, börn þeirra eru Birgir Ragnar, Birgitta Ragnheiður og Sigríður Sara. Unnusta Einars Arnar er Guðlaug Harpa Gunnarsdóttir.

Einar Örn ólst upp í Fossvoginum. Allt frá barnsaldri tók hann virkan þátt í íþróttum, þá helst knattspyrnu, handbolta og körfubolta, lék m.a. með Víkingi, Haukum, Þrótti, Val og KR. Þá var hann atvinnumaður í knattspyrnu í Noregi í eitt ár. Einar Örn starfaði sem sölumaður hjá Ásbirni Ólafssyni áður en hann fór til Noregs og sem innkaupastjóri hjá Ágústi Ármann fyrr á þessu ári. Fyrir nokkrum mánuðum stofnaði hann fyrirtækið Gaps Collection hér á Íslandi og hafði nýverið opnað verslunina er hann lést 8. nóvember sl.

Útför Einars Arnar fer fram í dag, fimmtudaginn 23. nóvember, frá Hallgrímskirkju kl. 14.30 (ath. breyttan tíma).

Ég leita til þín, ljós sem aldrei dofnar, en lýsa mér um dimma vegi kann. Ég leita til þín, ást sem aldrei sofnar, í endurminningu um góðan mann. Ég leita eftir staðfestu að standa í styrk sem getur þerrað vota kinn. Ég leita eftir huggun þeirra handa sem harminn þunga getur sefað minn. Ég leita til þín, sorg sem kyrrðin sefar er söknuður mér býr við hjarta-streng. Ég leita til þín, von sem ekkert efar, í endurminningu um góðan dreng. Ég leita eftir sátt í sáru hjarta, er sorgartárum blæðir hyldjúp und. Ég bið þig, Drottinn, lát þú ljósið bjarta lýsa veginn hverja ögurstund.

Elsku ástin mín. Þú ert mér allt og án þín er ég ekkert. Við áttum framtíðina okkar saman en núna finnst mér ég ekki eiga neitt. Við vorum loksins búin að finna hvort annað og framtíðin brosti svo sannarlega við okkur.

Af hverju? Af hverju þú af öllum? Þú ert yndislegastur og fallegastur, bæði að innan og utan, og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að eiga þig í þennan tíma sem var allt of stuttur. Ég sakna þín. Ég sakna þess að sofna hjá þér og vakna og sjá þig úfinn og sætan. Manstu hvað við hlógum oft þegar við litum í spegil á morgnana og sögðum hvort við annað "flott greiðsla, ég myndi halda þessari í dag!" Svo töluðum við svo oft um hversu hárprúð börnin okkar yrðu, nöfnin á þeim og að sjálfsögðu hversu falleg þau yrðu.

Þegar ég hugsa um hversu fallega þú kvaddir mig um morguninn líður mér vel. Þegar ég hugsa um þig líður mér vel. En þetta er svo sárt, ástin mín, og ég sakna þín svo mikið. Ég reyni eins og ég get að halda aftur af reiðinni. Ég veit þú vilt að ég sé sterk og dugleg. Ég ætla að vera sterk og dugleg en þú verður að hjálpa mér. Vertu alltaf hjá mér. Mig langar svo að finna fyrir þér. Lofaðu mér því að koma til mín á hverju kvöldi og kyssa mig góða nótt.

Ljúfi! gef mér lítinn koss,

lítinn koss að munni þínum!

Vel ég mér hið vænsta hnoss, -

vinur! gef mér lítinn koss!

Ber ég handa báðum oss

blíða gjöf á vörum mínum.

Ljúfi! gef mér lítinn koss,

lítinn koss af munni þínum.

Kossi föstum kveð ég þig,

kyssi heitt mitt eftirlæti,

fæ mér nesti fram á stig, -

fyrst ég verð að kveðja þig.

Vertu sæll! og mundu mig,

minn í allri hryggð og kæti!

Kossi föstum kveð ég þig,

kyssi fast mitt eftirlæti.

(Adelbert von Chamisso, þýð. Jónas Hallgrímsson.)

Ég elska þig, ástin mín, og hlakka til að hitta þig aftur.

Þín,

Guðlaug Harpa.

Elsku Einar Örn frændi. Nú ert þú farinn til Guðs og orðinn engill, og við horfum alltaf upp í himininn og sjáum stjörnurnar sem minna okkur alltaf á þig. Við hlökkum til að sjá þig aftur, þegar við komum öll til þín og Guðs, taktu frá pláss fyrir okkur nálægt þér, elsku Einar okkar.

Við skulum ekki gráta

Og ekki tala ljótt,

Þá verðum við svo stór

Og vöxum svo fljótt.

Við skum lesa bænirnar,

Þá sofum við svo rótt,

Guð og allir englarnir

Þeir vaka hverja nótt.

(Úr þjóðsögum)

Með ástar- og saknaðarkveðju, þín systrabörn,

Sindri Þór, Aldís Eva og Karen Eva.

Undanfarinn hálfan mánuð finnst mér ég hafa verið að horfa á lélega bíómynd. Njörvaður niður í stól og augunum haldið opnum. sama hversu viljinn er sterkur er mér fyrirmunað að yfirgefa bíósalinn. Þetta er raunveruleikinn og hann verður að horfast í augu við, sama hversu sár hann er. Allt frá því að ég kynntist þér fyrst fyrir nálægt tveimur áratugum varstu á kafi í íþróttum. Það var alveg sama hvaða íþróttagrein þú komst nálægt, alls staðar hafðir þú mikla náttúrulega hæfileika. Áhugamálin okkar voru mikið til þau sömu þrátt fyrir aldursmun.

Minningar ánægjulegra samverustunda hrannast upp. Íþróttir aðaláhugamálið en við horfðum á kappleiki saman, fórum í veiði, útreiðartúr, á sjókött og margt fleira. Síðast en ekki síst fjölskylduboðin þar sem umræðuefnið var allt milli himins og jarðar.

Þú hafðir einstaklega þægilega nærveru. Þetta skynjuðu börnin og er erfitt að fletta fjölskyldualbúminu öðruvísi en eitthvað frændsystkinanna sé með á mynd. Þau munu sakna þín mikið. Það er óbærilegur sársauki sem fylgir þeirri hugsun að við munum ekki framar njóta þess að hafa þig hjá okkur í þessum heimi en þú verður alltaf í hjarta okkar. Okkur sem fengum að njóta samvista með þér, gafst þú svo mikið með persónutöfrum þínum.

Ég bið Guð um að hugga tengdaforeldra mína, þína yndislegu unnustu Gullu, systkini, aðra aðstandendur og vini í þessari miklu sorg.

Þinn mágur,

Kristján Þór.

Bjartur, brosfagur frændi minn, Einar Örn, er dáinn.

Reiði, harmur og sorg eru ríkjandi í huga mér. Mig langaði svo innilega að skrifa huggunarorð til frænda míns Birgis Arnar, Aldísar, systkina Einars Arnar, unnustu og fjölskyldunnar en orðin tóm og auð blöð eru uppskera síðustu daga. Leitaði ég því til vinar míns og hagyrðingsins Sigurjóns Ara Sigurjónssonar, sem gaf mér eftirfarandi ljóð í minningu Einars Arnar Birgissonar.

Ég leita til þín, ljós sem aldrei dofnar,

en lýsa mér um dimma vegi kann.

Ég leita til þín, ást sem aldrei sofnar,

í endurminningu um góðan mann.

Ég leita eftir staðfestu að standa

í styrk sem getur þerrað vota kinn.

Ég leita eftir huggun þeirra handa

sem harminn þunga getur sefað minn.

Ég leita til þín, sorg sem kyrrðin sefar

er söknuður mér býr við hjarta-streng.

Ég leita til þín, von sem ekkert efar,

í endurminningu um góðan dreng.

Ég leita eftir sátt í sáru hjarta,

er sorgartárum blæðir hyldjúp und.

Ég bið þig, Drottinn, lát þú ljósið bjarta

lýsa veginn hverja ögurstund.

Ég bið þess að ljósið bjarta og endurminningin um góðan dreng, Einar Örn, muni lýsa veginn.

Guðrún Sverrisdóttir.

"Þín augu mild mér brosa".

Þessi fallega ljóðlína er sönn lýsing á Einari Erni frænda mínum í hvert sinn er við hittumst.

Ég bið guð og góða krafta að vernda og styrkja foreldra hans, unnustu, systkini og aðra ástvini í okkar miklu sorg.

Þín augu mild mér brosa

á myrkri stund

og minning þín rís hægt

úr tímans djúpi

sem hönd er strýkur mjúk

um föla kinn

þín minning björt.

(Ingibjörg Haraldsdóttir.) Margrét Birgisdóttir

og fjölskylda.

Glæsilegur ungur maður, kær vinur, er fallinn í valinn. Það er svo stutt síðan við glöddumst með honum við opnun tískuvöruverslunar á Laugavegi 7 með hið heimsþekkta vörumerki GAP sem hann hafði fengið umboð fyrir. Hann tók á móti gestum sínum brosandi að vanda, svo glaður og grunlaus um þá vá sem steðjaði að honum.

Einar var 10 ára þegar hann tengdist fjölskyldu minni. Systir hans Guðrún Hulda giftist syni okkar Kristjáni Þór. Kristján átti einnig bræður á líkum aldri, syni okkar Arnar og Júlíus, og með þá fóru þau iðulega með á kappleiki eða buðu þeim heim til sín. Minnisstæðar eru einnig sumarbústaðaferðirnar sem við fórum árlega saman tvisvar og oft þrisvar sinnum á sumri. Það voru gleðilegar stundir og þar kynntumst við eðliskostum Einars vel, ljúfmennskunni, glaðværðinni, kappinu, heiðarleikanum. Þar voru settar upp allskonar keppnir, með boltum, pílum og endað á Trivial Pursuit á kvöldin. Aldrei nokkurn tíma var deilt þótt við hefðum sett reglur um mínusa á þann sem giskaði oftar en tíu sinnum án þess að geta rétta svarið. Einar hefði talið upp allar höfuðborgir heimsins til að fá rétta svarið hefði hann ekki vitað það þrátt fyrir mínusana. Þannig var kapp hans.

Svo liggja leiðir þeirra aftur saman í keppni þar sem synir okkar Sigurjón og Júlíus léku með Einari knattspyrnu í Víkingi. Síðan fylgdumst við einnig áhugasöm með sigrum hans í KR. Síðasta sumar gekk Einar svo til liðs við HK í Kópavogi þar sem Júlíus lék fyrir og sáum við því flesta leiki þeirra, m.a. austur á Reyðarfirði þar sem Einar skoraði sína seinustu þrennu.

Að kveðja hinstu kveðju er sá taktur tilverunnar sem er hvað erfiðastur. Þriðjudaginn 7. nóvember hitti ég Einar í verslun hans og við kvöddumst eins og venjulega með "sjáumst". Þótt það hafi verið síðustu kveðjuorðin hérna megin trúi ég að við eigum eftir að hittast hinum megin.

Elsku Alla, Birgir, Gulla, Guddý, Biddi og fjölskyldur, ég vildi geta sefað sorgir ykkar en veit að þar sem þið eruð trúuð mun Guð gefa ykkur styrk eins og hingað til. Fjölskylda mín blessar minningu Einars Arnar, elskulegs félaga.

Helga Kristjánsdóttir

og fjölskylda.

Það var eitt kvöld að mér heyrðist

hálfvegis barið.Ég hlustaði um stund og tók af kertinu

skarið.Ég kallaði fram en kvöldgolan veitti mér

svarið.Hér kvaddi lífið sér dyra en nú er það

farið.(Jón Helgason.)

Elsku Einar minn!

Bros þitt var svo bjart.

Augu þín sem stjörnur.

Hjarta þitt svo hlýtt.

Ég var kennarinn þinn.

Aldrei var neitt svo vont að þú fyndir ekki einhverja jákvæða lausn á vandanum. Svo varstu svo góður við mig. Þú sýndir mér svo mikla hlýju. Ég vona bara að mér hafi tekist að sýna þér það sama. Þú áttir þátt í því að mér fannst gaman að vera kennarinn þinn. Það gerðu einnig vinir þínir. Þú hafðir mikil jákvæð áhrif á þá. Og hún Sólveig mín sendir þér hinstu kveðjur frá New York en þið lékuð ykkur oft saman í Fossvoginum. Í dag felli ég tár. En á morgun ætla ég að hugsa um allar ánægjustundirnar sem við áttum saman. Og Guð einn veit að þótt þú sért horfinn héðan munt þú alltaf lifa í sál minni, elsku vinurinn minn.

Æskan leikur ærslagjörn

um það vil ég skrifa.

Stöðugt munt þú Einar Örn

í okkar huga lifa.

Sit ég hér með særðan streng

sorgina að meta.

Minningin um mætan dreng

mun ei dáið geta.

(Arnór Þórðarson.)

Vonandi hittumst við heil á nýjum ströndum.

Ólöf Rafnsdóttir kennari.

Þegar dauðinn leggur ungt fólk að velli breytist líf ættingja og vina sem misst hafa hluta úr eigin lífi. Fyrir þá sem eldri eru blandast missinum tilfinning um að eðli hlutanna hafi verið snúið við. Örlög Einars Arnar fylla alla sem hann þekktu ekki aðeins söknuði heldur einnig máttleysi. Þetta er svo óraunverulegt og sárt. Grundvallarspurningar um lífið sækja á huga: Hvers vegna? Hvers

vegna? Það er svo sannarlega erfitt að sætta sig við orðinn hlut.

Allt er gangur til grafar, segir máltækið, og má það til sanns vegar færa en ganga Einars Arnar var allt of stutt, hann átti svo margt ógert.

Við minnumst þess að í stórfjölskylduboði síðastliðið sumar sagði Einar Örn okkur frá því að sér hefði tekist að fá umboð fyrir þekkt bandarísk fatamerki og ynni hann að stofnun verslunar. Ánægja hans var fölskvalaus við opnunina, mikil vinna að skila árangri, búðin glæsileg og unnustan, ættingjar og fjölmargir vinir samfögnuðu honum. Nýtt ævintýri var að hefjast og draumur að rætast. Sex dögum síðar var þessi ljúflingur allur.

Í bandarísku orðtæki segir að það sé mikilvægara að gefa árunum líf en lífinu ár og vissulega átti Einar Örn viðburðaríka ævi. Við, sem fylgdumst með honum frá fæðingu, munum hversu snemma beygðist krókurinn. Hann var smápolli farinn að spila fótbolta og íþróttir skipuðu stóran sess í lífi hans, eins og margra í fjölskyldunni, því góð íþrótt er gulli betri. Við fylgdumst með glæstum ferlinum sem steig honum þó aldrei til höfuðs. Hann var til fyrirmyndar á vellinum og utan: Reglusamur, glaðvær og hjálpsamur svo af bar. Hann var snyrtimenni, fallegur maður og drengur góður. Það var því ekki að furða að fólk laðaðist að honum því á viðmóti má merkja manninn. Vinahópurinn var fjölmennur og til hans teljast börn okkar. Hversu vinamargur Einar Örn var kom t.d. í ljós í þeirri óeigingjörnu leit sem átti sér stað eftir hvarf hans.

Einar Örn sýndi og sannaði á stuttri ævi að hann var í senn drengskapar- og baráttumaður. Það fundum við oft, t.d. þegar hann heimsótti okkur til Bonn í Þýskalandi.

Ævintýri Einars Arnar var ekki nema rétt hafið þegar klippt var á lífsþráð þessa mikla öðlings. Mestur harmur er kveðinn að foreldrum hans, unnustunni Guðlaugu Hörpu Gunnarsdóttur og systkinum og sendum við þeim innilegustu samúðarkveðjur okkar. Megi góður Guð styrkja þau í sorginni.

Einar Örn lifir áfram í minningum okkar sem áttum með honum ánægju- og gleðistundir.

Guð blessi minningu Einars Arnar Birgissonar.

Anna Birgis.

Hjálmar W. Hannesson.

Hvernig má þetta vera?

Getur verið að Guði hafi vantað góða engla?

Þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör.

Hvað hittir maður oft á lífsleiðinni manneskju sem snertir öll skynfærin, manni þykir strax vænt um þó maður hafi í raun ekki hugmynd um, af hverju?

Hversu margir eru sannir í sínu, þora að sýna tilfinningar og einlægni. Einar Örn kom þannig inn í mitt líf og er mér ómetanlegt

hvílíkur gullmoli hann var.

Einar Örn Birgisson var samferðamaður minn og vinur, maður sem enginn gat talað illa um, maður sem geislaði af heilbrigði og kæti. Hann var mikil tilfinningavera, það nægði okkur tveimur t.d. að horfast í augu, við vissum hvað við áttum sameiginlegt.

Ég minnist heiðarlegs og fallegs manns sem bar utan á sér góðmennsku, ég minnist samtala okkur um knattspyrnu, vonir hans og væntingar og núna síðast um drauminn hans. Búðina nýju sem hann lagði allan sinn kraft og metnað í. Loksins voru langþráðir draumar orðnir að veruleika, draumurinn um búðina, nýju íbúðina og yndislega unnustu.

Allt var svo fallegt, og þá hvað?

Eftir situr unnustan unga og fólkið hans allt með allar spurningarnar sem aldrei fást svör við.

Guð minn góður, viltu passa þau og senda alla englana þína til þeirra og gefa þeim styrk.

Að lokum þakka ég Einari Erni stutta samfylgd, yndislegt hlýtt viðmót, heiðarlegt bros og öll fallegu orðin í minn garð.

Mér er illt í hjartanu þegar ég bið Guð um blessun til handa Gullu, Aldísi og Birgi , Gúddý og Bidda og fjölskyldum þeirra, ættingjum öllum og vinum.

Guð blessi ykkur öll.

Hér er genginn fallegasti og heiðarlegasti maður sem ég hef kynnst.

Valdís Gunnarsdóttir.

Það kom mér ekki á óvart eftir kynni mín af Aldísi og Birgi að þau ættu son eins og Einar Örn. Kurteis fallegur drengur sem vildi öðrum vel.

Einar var glæsilegur, íþróttahetja, en umfram annað blíður og hjálpsamur.

Við Birgir heimsóttum Einar í húsnæði verslunar hans við Laugaveg stuttu áður en verslunin var opnuð. Var augljóst hversu innilegt og náið samband þeirra feðganna var og unnu þeir saman löngum stundum að undirbúningi verslunarinnar áður en hún var opnuð. Eftirvæntingin var mikil.

Einar er allur og er mikið skarð fyrir skildi. Þjóðin er slegin þegar sá sem helst gat orðið öðrum fyrirmynd er frá henni tekinn. Vinafjöld Einars er þess órækur vitnisburður.

Harmur er kveðinn að þeim stóra hópi vina. Mestur er þó harmur fjölskyldu Einars. Fjölskyldu sem hefur vakið aðdáun íslensku þjóðarinnar með dugnaði sínum og hugrekki undangengna daga. Hugur minn dvelur hjá þessu fólki, foreldrum einars, unnustu og systkinum sem svo mikið hafa misst.

Ég bið Guð að vernda þau og leiða þau heil í gegnum sorgina. Einnig alla þá sem þekktu Einar og elskuðu og vona að minningin um Einar verði ljós sem lýsir okkur á dimmum dögum.

Jón Gunnar.

Kveðja frá Knattspyrnufélagi Reykjavíkur

Árið 1999 verður lengi í minnum haft hjá öllum KR-ingum og Vesturbæingum. Eftir 31 árs bið tókst meistaraflokki KR í knattspyrnu karla loksins að vinna sigur á Íslandsmótinu.

Einn þeirra er þar lögðu hönd á plóginn var Einar Örn Birgisson, sem nú hefur svo fyrirvaralaust verið hrifinn á brott úr þessum heimi.

Einar Örn gekk til liðs við KR síðla árs 1998, er hann kom heim frá Noregi þar sem hann hafði um eins árs skeið leikið með norska fyrstu deildar liðinu Lyn frá Ósló.

Einar Örn féll strax vel inn í leikmannahóp KR og ávann sér vinsældir og virðingu félaga sinna.

Hann var mjög hæfileikaríkur íþróttamaður. Einkum lágu allar boltaíþróttir vel fyrir honum. Sem unglingur skaraði hann fram úr í handknattleik, körfuknattleik og knattspyrnu og óhætt er að fullyrða að það hefði verið sama hvaða grein hann hefði lagt fyrir sig, hann hefði alls staðar komist í fremstu röð.

Hann valdi knattspyrnuna sem aðalgrein og varð afreksmaður í íþrótt sinni, sem tvímælalaust reis hæst er hann ásamt félögum sínum í KR hrósaði sigri á Íslandsmótinu og bikarkeppni KSÍ sumarið 1999.

Einar Örn var þó ekki einungis frábær íþóttamaður, heldur var hann einnig drengur góður, hvers manns hugljúfi og glaður á góðri stund og það er þannig sem minningin um hann mun geymast í hugum vina hans í Vesturbænum.

Að leiðarlokum þakka KR-ingar Einari Erni fyrir samveruna og er hann kvaddur með virðingu og söknuði.

Sárastur er þó söknuður hans nánustu, foreldra, systkina og unnustu og eru þeim og öðrum ástvinum sendar innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Einars Arnar Birgissonar.

Guðmundur Pétursson.

Elsku Einar. Með miklu þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þér og eiga þig sem samferðamann í lífinu, langar okkur að kveðja þig með þessum brotum úr ljóði Tómasar Guðmundssonar:

Og því varð allt svo hljótt við helfregn

þína,sem hefði klökkur gígjustrengur brostið.

Og enn ég veit margt hjarta, harmi lostið,

sem hugsar til þín alla daga sína.

Enn meðan árin þreyta hjörtu hinna,

sem horfðu eftir þér í sárum trega,

þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,

þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

(Tómas Guðm.)Hvíldu í friði, elsku vinur.

Elsku Gulla, Alla, Birgir, Gúddý, Krissi, Biddi, Ragnheiður og börn,

guð styrki ykkur í þessari miklu sorg.

Carola, Jón Viðar, Andrea Ida, Arnar og Þorsteinn Hængur.

Elsku Einar minn.

Hvernig á maður að geta trúað að þetta gæti hent mann eins og þig? Ekki hefði mig órað fyrir því, að þetta væri í hinsta sinn sem ég sæi þig í þessari jarðvist, við opnun búðarinnar fyrir tveimur vikum.

Á þessari sorgarstund og síðustu daga hef ég hugsað til baka og upp koma ótal minningar. Öll vitum við að þú varst hár og myndarlegur maður og hvers manns yndi. Þú starfaðir með mér í Módel 79 í mörg ár og þar hófst vinskapur okkar. Að fá þig í heimsókn, á skrifstofuna eða heim, voru alltaf gleðistundir. Það var svo mikil gleði í kringum þig og hvað ég gat hlegið og bullað með þér.

Árið 1996 var ákveðið að þú færir fyrir hönd Íslands í keppnina Herra Skandinavía, sem haldin var í Finnlandi. Þar stóðst þú þig með mikilli prýði, varst sjálfum þér og landi til sóma.

Kæri vinur, mér þótti ofboðslega vænt um þig. Takk fyrir að fá að kynnast þér og þinni fjölskyldu. Takk fyrir allar gleðistundirnar, þær verða aldrei frá mér teknar. Ég vildi að það væru fleiri þér líkir. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Kæra fjölskylda og Gulla mín.

Sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður Guð styðja ykkur og styrkja. Megi minning um góðan dreng leiða okkur í gegnum sorgina.

Vér reynum harm að hylja

og hjarta djúpstæð tár,

en það er þungt að skilja

að þú sért orðinn nár.

Þú gekkst frá okkur glaður

með góðleiks bros um kinn

og hugur bar þig hraður

þú hraustur æskumaður,

en þá í síðasta sinn.

En lokað er ei leiðum

það ljómar bak við ský,

á morgunhimni heiðum

rís heilög sól á ný.

Þær innstu vonir ölum

að eftir hinsta blund

vér duft úr jarðar dölum

í drottins himnasölum

þá eigum endurfund.

(J.B.P.) Þín vinkona

Jóna Lár.

Við erum harmi slegnir. Sorgmæddir og reiðir. Einar hefur verið tekinn frá okkur og það verður erfitt að lifa með því. Það var ekki kominn tími til að kveðja.

Eftir standa óteljandi minningar um tveggja áratuga vináttu. Undanfarna daga höfum við skoðað myndir í huganum allt frá því við kynntumst í Fossvoginum. Við sjáum árin þegar við vorum litlir strákar, hjóluðum og spiluðum fótbolta og körfu, horfðum á vídeí og vorum úti þótt það væri kominn háttatími. Árin þegar við vorum enn litlir strákar en héldum að við værum eitthvað annað og fórum í partí án þess að vita til hvers þau væru. Árin í Víkingi. Árin í Réttó. Áramótin hjá Árna Óla þar sem Einar var alltaf með nýja hárgreiðslu. Við munum rúntinn um bæinn. Lífið um helgar, þegar Einar kjaftaði okkur inn á skemmtistaðina. Við sjáum hann neita að sofa í tjaldi, neita að taka lyftu og hringja oft á dag í mömmu sína. Við sjáum Einar hlæjandi að okkur og okkur hlæjandi að Einari og með honum í tuttugu ár eða svo.

Stundirnar án Einars voru aldrei eins og stundirnar með honum. Hann breytti andrúmsloftinu með nærveru sinni. Jákvæður og léttur. Skemmtilega stríðinn og næstum brögðóttur. Spilaði stundum með okkur þangað til við gátum ekki annað en grátið úr hlátri. En Einari stóð ekki á sama. Hann var óvenjulega tilfinninganæmur, sem gerði hann að einstökum vini. Bæði gaf og þáði. Hið stóra skarð, sem Einar skilur eftir í vinahópnum, munum við reyna að fylla af minningum um hann og allt sem við gerðum saman.

Það kemur samt ekkert í staðinn. Við vildum ekki kveðja Einar svona snemma. Við drukkum hans skál á Kaffi List fyrir þremur vikum, fögnuðum með honum nýjum áfanga og ræddum framtíðina. En nú, svo stuttu síðar, kveðjum við með miklum söknuði. Við gerum það í nafni vináttubanda, sem eru bundin með rembihnút og svo fast að þau munu aldrei slitna. Einar verður alltaf með okkur.

Gullu, Aldísi og Birgi, Gúddí og Bidda og öllum sem eiga um sárt að binda vottum við dýpstu samúð okkar og biðjum að þau fái styrk af minningunum um þennan einstaka dreng.

Æskuvinirnir úr Fossvoginum.

Elsku Einar Örn minn. Takk fyrir allar góðu stundirnar og minningarnar sem þú gafst mér.

Við vorum um þriggja ára gamlir þegar við kynntumst. Við áttum það sammerkt í upphafi að vera skildir út undan af eldri bræðrum okkar. Það varð því úr að við hófum að leika okkur saman. Nú um það bil 25 árum síðar er komið að lokum þessa leiks okkar.

Það væri hægt að skrifa heila bók um allt það sem við brölluðum saman frá því í barnæsku hvort sem það var með Fossvogsvinahópnum, í starfi eða í íþróttum. Það sem tengdi okkur sterkum böndum var að í hvert skipti sem við hittumst þá gleymdum við áhyggjum hversdagslífsins og nutum líðandi stundar. Alltaf varstu fróðleiksfús og hafðir mikinn áhuga á því sem á daga manns hafði drifið. Við nutum vinskapar hvor annars og oft nægði okkur bara að vera nálægt hvor öðrum. Stundum var þögnin ein okkar talmál. Þú varst einstakur vinur.

Við ólumst upp í sama hverfi, gengum í sömu skólana og æfðum báðir með hverfisfélaginu í handbolta, fótbolta og borðtennis. Þú varst náttúrubarn í íþróttum. Þú hafðir náðargáfu þegar íþróttir voru annars vegar og áttir ekki langt að sækja þessa hæfileika. Þú varst mikill keppnismaður. Innan vallar hlífðum við ekki hvor öðrum og var keppnisskapið kannski fullmikið en við höfðum samt alltaf jafn gaman af, þrátt fyrir að aðrir viðstaddir ættu stundum fótum sínum fjör að launa.

Alltaf héldum við vinskapinn. Skyndilega ertu farinn frá mér þegar við áttum svo margt eftir ógert. Það er einmanalegt án þín þegar öll ævin er framundan og við rétt nýbúnir að finna okkur þann vettvang sem við vildum byggja framtíðina á.

Hjartahlýja, léttleiki, brosmildi, tilfinninganæmi og traust voru þínir bestu kostir. Ekki get ég látið það ógert að geta þess hve yndislega fjölskyldu þú átt. Alltaf studdi hún þig. Gladdist þegar vel gekk og stóð við bakið á þér ef á móti blés. Fjölskyldan veitti þér öryggi og hlýju. Vinirnir nutu þessarar hlýju í hvívetna og aldrei var kvatt án þess að fá bros eða kveðjukoss frá mömmu þinni.

Það var stoltur vinur, sem kom í opnunarhóf nýju búðarinnar fyrir þremur vikum. Þar stóðuð þið Gulla þín, umvafin fjölskyldu þinni og vinum. Ég man ég faðmaði þig og sagði þér hve stoltur ég væri af þér. Þetta var okkar síðasta stund saman. Þú brostir því þú hafðir fundið fjölina í lífinu og varst hamingjusamur. Þú hafðir allt til að bera til að njóta gæfu í framtíðinni. Nú hefur þú verið tekinn í burtu í blóma lífsins - þegar lífið brosti við ykkur Gullu. Sú von að eiga eftir að hitta þig aftur slær eilítið á mikinn söknuð og trega.

Elsku Gulla, Aldís, Birgir, Gúddí, Biddi og aðrir ástvinir. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð og megi minning um góðan dreng ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð.

Þinn vinur,

Þór.

Undanfarna daga hafa minningarnar hellst yfir, minningar um strák sem tókst á snilldarlegan hátt að skemmta sér og öðrum við ólíklegustu tækifæri. Í mínum huga ertu alltaf bara strákur því þannig kynntist ég þér og ég er ennþá bara stelpa. Ég man húmorinn svo vel og man ekki þær stundir sem við ekki hlógum saman þegar við hittumst. Einhvern veginn tókst þér alltaf að gera létt grín að mér eða sjálfum þér og ég gekk glöð í burtu. Ég man góðar stundir í Dalalandinu og Huldulandinu þar sem súkkulaðikökur voru bakaðar, pítsur búnar til og brauð borðað með roastbeef og sérstökum lauk frá matvöruversluninni í Grímsbæ, sem við fengum pakkaðan inn í pappír. Ég man líka forvitnilegar umræður sem pabbi þinn og mamma voru dregin inn í við ýmis tækifæri. Þú varst stundum krúttlega klaufskur á þeim tíma þegar við vorum að kynnast því þú áttir það til að detta á ögurstundu, annaðhvort í hálku eða um stóla og steina sem virtust ætla sér að fella þig. Man hvernig þér tókst að fá leigubílstjóra, afgreiðsludömur og litla krakka til að spjalla við þig um hina og þessa hluti, á meðan þú brostir út í annað. Ég hugsa til baka og á tæra minningu um þig. Þótt samskipti okkar hafi ekki verið mikil síðustu árin voru tilviljanakenndir endurfundir okkar alltaf einlægir og ánægjulegir. Ég er því svo fegin að hafa séð þig, heyrt í þér og fengið að smella kossi á kinn þína stuttu áður en þú varst tekinn burt. Ég man spékoppana þína og vona að aðrir fái að njóta þess augnakonfekts þar sem þú nú ert.

Einar Örn mótaðist og lifði innan um hlýja og góða fjölskyldu og ég veit að nú verndar hann þá sem honum eru kærastir eins og hann ávallt gerði.

Elsku Aldís, Birgir og fjölskylda,

hugur minn er hjá ykkur í sorginni og söknuðinum og sendi ég ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sá sem vill losna við alla sorg og söknuð yrði að kaupa það því dýra verði að elska ekkert í heiminum.

(Sigurður Nordal)

Margrét Stefánsdóttir.

Það er ekki alltaf magnið sem skiptir máli, heldur gæðin.

Þannig var vinskap okkar háttað. Það var einhvern veginn

frá fyrstu kynnum þessi dýpt og einlægni gagnvart okkur Soffíu

og því sem við vorum að gera sem gerði það að verkum að þú áttir alltaf sérstakan stað í okkar huga, þrátt fyrir að oft liði langt á milli þess sem við hittumst. Síðan þegar ég kynntist foreldrum

þínum áttaði ég mig á því að þessi eiginleiki var ekki langsóttur. Þótt ekki væri beinlínis innangengt á milli heimila okkar í Dalalandinu voruð þið aldrei langt undan og það var mjög notalegt að vita af ykkur þarna uppi.

Það var svo dæmigert fyrir ykkur öll, að þegar við Soffía eignuðumst okkar fyrsta barn og giftum okkur síðar, að einhverjar alfallegustu kveðjurnar skyldu koma úr Dalalandinu í bæði skiptin.

Mér er minnisstætt hvað það var auðvelt að ræða við þig um lífið og tilveruna og hvernig allt andlitið komst á flug þegar eitthvað spennandi var fram undan. Það var þér svo eðlislægt að koma auga á það bjarta, bæði í þínu eigin lífi og annarra og það, ásamt húmornum og meðfæddum leikarahæfileikum, gerði það að verkum að það tók sig upp gamalt bros hjá ólíklegustu mönnum þegar þú komst á flug.

Ég vona að þú haldir uppteknum hætti á nýjum stað og kveð þig með söknuði.

Elsku Alla og Birgir, Gúddý, Birgir, Guðlaug og fjölskyldur.

Við vottum ykkur okkar bestu samúðarkveðjur og aðdáun á styrk ykkar og samheldni á þessum erfiðu tímum.

Haukur og Soffía.

Kveðja frá Þrótti

Sumarið 1996 fengum við Þróttarar mikinn liðsstyrk. Þar var kominn Einar Örn Birgisson, glaðvær og geðþekktur piltur em átti heldur betur eftir að lífga upp á félagið.

Einar fór reyndar rólega af stað fyrra sumarið, sem hann lék með okkur, en það átti eftir að breytast því sumarið 1997 átti hann án efa sitt besta heila keppnistímabil á ferlinum og erum við Þróttarar stoltir yfir því að það hafi gerst hjá okkur.

Einar átti stóran þátt í því að við komumst upp um deild það árið, skoraði grimmt og vann geysilega vel fyrir liðið. Enda vakti frammistaða hans það mikla athygli að hann fékk tækifæri til að spreyta sig í atvinnumennsku í kjölfarið. Þótt Einar væri hættur að leika með Þrótti var hann samt aldrei langt undan því vinahópurinn, sem hann eignaðist í félaginu var stór, þar af nokkrir af hans bestu vinum. Hjá okkur Þrótturum situr ekki bara eftir minningin um góðan fótboltamann. Við eigum líka fallegar minningar um fínan dreng sem gerði góðan hóp betri. Við vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúðarkveðjur

Þú varst mjög góður og blíður maður, Einar, og svona gæti ég lengi talið, ég hef ekki þekkt þig lengi. En þegar ég hitti þig þá komstu mér alltaf til að brosa. En svo þegar ég fékk þær fréttir að þú værir týndur byrjaði ég strax að biðja fyrir þér og vona.Ég vonaðist til að þú myndir finnast heill á húfi fyrir þann 16. nóv. vegna þess þá væri afmælisdagurinn minn, ég vildi að þú myndir finnast bara sem fyrst. Þann 16. nóv var loks búið að finna þig og ég bjóst við því að þú værir vel á þig kominn og það væri allt í lagi með þig. En því miður varð ekki svo. Því miður fór það á verri veginn. En núna ert þú alltaf þar sem er friður og ríkir birta að eilífu. Ég vona að Guð taki vel á móti þér og setji þig undir sinn verndarvæng og að Guð veri með og styrkir þá alla sem þurfa þess. Mér var gefið þetta ljóð í gjöf og kveð þig með því, Einar.

Gráttu ekki af því að ég er dáin

ég er innra með þér alltaf.

Þú hefur röddina

hún er í þér

hana getur þú alltaf heyrt

þegar þú vilt.

Þú hefur andlitið

líkamann.

Ég er í þér.

Þú getur séð mig fyrir þér

þegar þú vilt.

Allt sem er eftir

af mér

er innra með þér.

Þannig erum við alltaf saman.

(Barbo Lindgren, þýð. Vilborg Dagbjartsdóttir.)Með kærri samúðarkveðju,

Snædís Góa.

Kæri vinur, undarleg er sú tilfinning að finnast maður hafa alla hluti á valdi sínu einn daginn og þann næsta vera kominn á vit örlaganna þar sem mennirnir eru leiksoppur einhvers æðra valds sem svo erfitt er að skilja.

Ég sá þig fyrst þar sem þú slóst björtum ljóma á umhverfið svo allt annað fölnaði. Ég minnist návistar þinnar sem var svo einstök, hjarthlý og einlæg. Góður vinur og traustur. Hlustaðir vel á þá sem áttu í vanda og varst þeim mikill stuðningur. Og fjölskyldu þinni varstu náinn svo og leið þér best í nálægð þeirra. Börn systkina þinna gáfu þér mikla gleði sem og þú þeim. Fegurð þín kom jafnt innan frá sem utan, brosið svo blítt og augun glampandi.

Það væri auðveldlega hægt að skrifa margar síður um hugmyndir þínar og persónuleika. Svo mörg eru minnisstæðu atriðin. Ég brosi þegar ég hugsa til þess dags er þú seldir Subaru-inn. Þá komstu mér á óvart með því að binda fyrir augu mín og leiða mig að nýja bílnum (sem reyndar var uppítökubíll), þú losaðir klútinn frá augunum og á hlaðinu stóð þessi glæsilegi Skodi, vafinn rauðum borða, með stórri slaufu á toppnum og korti þar sem þú ætlaðir mér bílinn. Það er mér yndisleg minning hversu eðlilegur þú varst og áttir auðvelt með að sjá húmorinn í hversdagleikanum. Hvernig hver dagur hafði sinn ljóma. Sá ljómi lifir áfram um ókomin ár. Þegar ég hugsa til þín líður mér vel því þú varst góð sál og þér var leikur einn að láta öðrum líða vel. Ég trúi því og vona að þú sért enn meðal okkar þó að við sjáum þig ekki. Vona að þú styrkir fjölskyldu þína sem þér þótti svo vænt um.

Ég mun ávallt geyma minningu þína í hjarta mínu.

Lára Guðrún.

Í byrjun febrúar réðst Einar Örn til starfa hjá fyrirtæki okkar, Ágúst Ármann ehf., sem deildarstjóri herradeildar. Áður hafði hann unnið hjá okkur um tíma í sportvöruversluninni Maraþon í Kringlunni. Það var því auðveld ákvörðun að velja hann í þetta veigamikla starf þar sem við þekktum hann og hans starfshætti í gegnum verslunina.

Það tekur tíma að setja sig inn í öll mál sem deildarstjóri, svo sem að kynnast okkar birgjum erlendis, lagerhaldi og síðan en ekki síst öllum okkar ágætu viðskiptavinum um land allt. Einnig er grundvallaratriði að fylgjast með tískunni á hverjum tíma. Einar Örn beitti sér í að ná tökum á öllum þessum málum og fundum við að hann var afar námfús og metnaðarfullur að ná tökum á verkefninu.

Þó svo að hann hafi aðeins starfað innan við hálft ár hjá fyrirtækinu fór hann í þrjár ferðir utan sem fulltrúi fyrirtækisins. Þeir erlendu birgjar sem kynntust honum hrifust af framkomu hans og áhuga á viðskiptum. Eftir eina ferðina var hann búinn að fá umboð fyrir öll norðurlöndin fyrir fyrirtækið og var mjög áhugasamur um að við seldum ekki aðeins á Íslandi heldur til hinna Norðurlandanna þar sem hann setti Noreg á oddinn. Hann sótti fast fram að marki viðskiptanna eins og í knattspyrnunni. Ef dvöl hans hefði verið lengri við fyrirtækið er aldrei að vita hvers mörg mörk hefðu verið skoruð.

Meðal starfsmanna og viðskiptavina var Einar Örn vinsæll og hvers manns hugljúfi, hann hafði góða nærveru, léttur og geðprúður.

Það þarf kjark, áræðni og trú á sjálfan sig og framtíðina að opna tískuvöruverslun í dag í þeirri miklu samkeppni sem nú ríkir á markaðnum. Einnig mikinn dugnað að ná GAP-umboðinu því vitað er að margir, stórir sem smáir í íslensku viðskiptalífi, hafa reynt að ná því umboði til sín á undanförnum árum.

Öll okkar kynni af þessum ljúfa dreng voru til fyrirmyndar og viljum við votta unnustu, foreldrum, systkinum og ættingjum öllum okkar dýpstu samúð.

Eigendur og starfsfólk

Ágústar Ármanns og

Ármann Reykjavík.

Guðlaug Harpa.