Vilborg Davíðsdóttir
Vilborg Davíðsdóttir
SÖGUSVIÐ Galdurs, nýjustu skáldsögu Vilborgar Davíðsdóttur rithöfundar, er Ísland á fyrri hluta 15. aldar.

SÖGUSVIÐ Galdurs, nýjustu skáldsögu Vilborgar Davíðsdóttur rithöfundar, er Ísland á fyrri hluta 15. aldar. Sagan er byggð á sögulegum staðreyndum og eiga persónur hennar sér fyrirmyndir í heimildum, en þar fara fremstar í flokki Ragnfríður Gautadóttir og Þorkell Guðbjartsson prestur að ógleymdum John Williamsson Craxton Hólabiskupi. Galdur - skáldsaga er fjórða bók Vilborgar, fyrstu tvær voru unglingasögur frá víkingatíð, Við Urðarbrunn árið 1993 og Nornadómur 1994. Fyrsta saga hennar fyrir fullorðna, Eldfórnin, kom síðan út árið 1997 og nú lítur önnur skáldsaga hennar fyrir fullorðna dagsins ljós. Í Galdri er sjónum beint að lífi alþýðufólks og höfðingjastétt, átakamiklum og ástríðufullum samskiptum þeirra í millum, einkum Ragnfríðar og Þorkels á órólegum og reyfarakenndum tímum í Íslandssögunni, þegar barist er um völd innan kirkjunnar og viðskipti við Englendinga leiða af sér vopnaskak og morð. Vilborg leggur þunga áherslu á trúverðugleikann og vann í því skyni mikla heimildavinnu til að skapa persónum sínum eins raunverulegt umhverfi og unnt var og fékk sagnfræðinga til að lesa yfir kafla í sögunni. "Lára Magnúsardóttir sem vinnur að doktorsritgerð um bannfæringar á Íslandi og Gunnar F. Guðmundsson, sagnfræðingur og kaþólikki, komu með gagnlegar ábendingar og áttu drjúgan þátt í því að fullnægja knýjandi þörf minni fyrir að fara rétt með hlutina," segir hún. Höfundur byggir m.a. á bréfabók Johns Craxtons biskups og Íslenska fornbréfasafninu. "Þorkels Guðbjartssonar er víða getið í báðum þessum heimildum fyrir allskyns uppákomur," segir Vilborg. "Hann var skrautleg persóna og jafnframt einn valdamesti maður á Norðurlandi á þessum ævintýralega tíma, fyrri hluta 15. aldar. Hans er líka getið í þjóðsögunum þar sem hann er sagður höfundur Gráskinnu, eins mesta galdrarits Íslands." Leiðir Þorkels og Ragnfríðar liggja saman í raunveruleikanum með ófögrum hætti. Er það í raun eina skiptið sem Ragnfríður kemur fram í heimildum. "Í bréfi frá haustinu 1431 í bréfabók Craxtons er Þorkatli stefnt fyrir biskup heim að Hólum fyrir ýmsar alvarlegar sakir. Hann er þar m.a. sakaður um stuld á reka úr ensku skipi, að hafa riðið um héruð með vopnuðu liði og um samsæri með leikmönnum gegn sjálfum biskupinum. Kveikjan að ástar- og átakasögu hans og Ragnfríðar er þessi ásökun sem er hin sjötta af átta í stefnubréfinu: "Þú tókst og fangaðir sem ræningi Ragnfríði Gautadóttur, vora frændkonu heima á Hólum og byrgðir hana með sínum syni tólf vetra gömlum, bæði saman að mestu klæðlaus í miklu frosti og kulda og þá þau komu út sáu menn hana bæði bláa og blóðuga ... og hún skeindist af þínum hnífi sem þú hafðir á þér í ykkar sameign og þú vildir henni þrúgað hafa." Ég fann engar frekari heimildir um Ragnfríði né nokkurn henni tengdan en aðeins rúmu ári síðar er Þorkell greinilega kominn í náðina á Hólum aftur. Við lestur þessara lína sannfærðist ég um að ekki væri allt sem sýndist og hér hlytu að hafa legið að baki miklar tilfinningar og ástríður. Vegna þessarar takmörkuðu vitneskju um Ragnfríði gat ég leyft mér að gefa henni sjálfstætt líf og nýta skáldskaparfrelsið til að spinna þá sögu sem gæti hafa legið að baki þessum atburðum. Það er ákveðin ögrun fólgin í því að skapa trúverðuga ástarsögu Ragnfríðar og Þorkels, sem tengd er órofa böndum við pólitískt ástand í landinu og steypa skáldsagnafléttunni inn í þann bakgrunn sem unninn er beint upp úr heimildunum."

Vilborg segir miklar ranghugmyndir ríkjandi um Ísland á miðöldum. ,,Fólk stendur í þeirri trú að miðaldamenn hafi upp til hópa lifað við sult og seyru og búið í andlegu og tilfinningalegu myrkri, ekki þvegið sér nema í mesta lagi upp úr keytu, verið fáfróðir og heimskir og velt sér upp úr skít, og helsta afþreyingin hafi verið að telja á sér lýs og flær. Þessar hugmyndir hafa orðið til bæði í skólastofunum fyrr á tíð, þar sem Íslandssögukennslan fólst aðallega í utanbókarlærdómi um ártöl á hafísaárum og plágum og stórubólum, sem og í afar myrkum kvikmyndum um fortíð Íslendinga. Þar birtist alþýða manna óhrein að utan sem innan, klædd í strigaræfla og tennurnar brunnar og svartar. Fornleifarannsóknir sýna hins vegar að norrænt fólk á miðöldum klæddi sig samkvæmt sömu litríku tískunni og fólk á meginlandi Evrópu og tannskemmdir þekktust ekki hér á landi fyrr en á 17. öld. Við höfum þá heldur engar forsendur til að ætla að andlegt líf miðaldafólks hafi verið rýrara en okkar nútímafólks. 15. öldin var nefnilega um margt blómatími á Íslandi, hér var uppsveifla í efnahagslífinu, næg atvinna, árferði var betra en á öldinni á undan og yfirstéttin sótti sér menntun til evrópskra háskóla. Dans, leikir, söngur og hljóðfæraleikur var í hávegum hafður allt þar til öll slík ,,lausung" var bönnuð við siðaskiptin. Vitaskuld var gríðarlegur stéttamunur ríkjandi og siðalögmál kirkjunnar giltu um allt mögulegt. Hins vegar sýna heimildir að þeim var nú ekki fylgt út í ystu æsar. Þorkell Guðbjartsson var til að mynda mikill kvennamaður og á að hafa átt tugi barna í lausaleik þrátt fyrir skírlífsheit sín sem kaþólskur prestur. Munurinn á veröldinni árið 1431 og árið 2000 er kannski mestur sá að hömlur á tilfinningar og hegðun voru aðrar og meiri, og kirkjan og trúin höfðu áhrif á allt daglegt líf, ytri umgjörð lífsins var önnur. En manneskjan er alltaf söm við sig hið innra, sama á hvaða öld hún lifir. Við þráum öll að elska og vera elskuð og við erum gráðug og breysk og við eigum það til að bregðast þeim sem við ættum síst að bregðast," segir Vilborg Davíðsdóttir.

Ragnfríður snéri sér hægt við og horfðist í augu við síra Jón Pálsson Maríuskáld og fyrrum geistlegan ráðsmann Hólastóls. Hann hallaði sér fram á makka hestsins, fremur feitlaginn maður og kringluleitur, rjóður í vöngum eftir harða reiðina. Hann bar járnhatt á höfði, spenntan með grannri gjörð sem hvarf nær í undirhökuna, og var meinlítill að sjá, þrátt fyrir öll herklæðin.

Hræðslan bráði af henni, hún mátti vita að menn myndu seint meiða varnarlausa konu hvernig svo sem þeir létu hver við annan og hún fór hjá sér að hafa látið þá sjá á sér ótta.

"Því skyldu þeir fela sig, hér er í dag sungin messa eins og presturinn má fullvel vita," svaraði hún þykkjufullt og reyndi þannig að draga yfir vandræði sín. "Og þá klæðast vígðir menn prestskrúða sínum en ekki harðneskjum líkt og stríðsmenn væru," bætti hún við, kjarkaðri.

Hann hló við, hláturinn þurr og án kímni. "Hermenn Krists hafa fyrr þurft að verjast andskotum sínum með járni," sagði hann. "Og kallaðu nú eftir nafna mínum." "Kallaðu á hann sjálfur, herra," ansaði hún snúðugt og vissi ekki hvaðan sér kom allur þessi þótti.