Höfundur: William Shakespeare. Þýðandi: Helgi Hálfdanarson. Leikstjóri: Þorgeir Tryggvason. Leikarar: Anna Dröfn Sigurjónsdóttir, Birgitta Birgisdóttir, Einar Þór Samúelsson, Helgi Róbert Þórisson, Hrund Ólafsdóttir, Hulda B. Hákonardóttir, Hulda Dögg Proppé, Hörður Sigurðarson, Júlíus Freyr Theodórsson og Skúli Rúnar Hilmarsson. Leikmynd og búningar: Þorgeir Tryggvason og hópurinn. Lýsing og hljóð: Alexander Ólafsson og Runólfur Einarsson. Félagsheimili Kópavogs, 26. nóvember.
LEIKFÉLAG Kópavogs ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og sýnir um þessar mundir Líku líkt (Measure for measure) eftir William Shakespeare í Félagsheimili Kópavogs. Þetta verk er eitt af svokölluðum kómedíum Shakespeares, gleðileikur með sterkum siðrænum undirtóni. Eins og oft er um að ræða í uppsetningum á leikritum Shakespeares er verkið nokkuð stytt og persónum hefur verið fækkað en styttingin hér er mjög vel úr garði gerð; hvergi hriktir í stoðum leikfléttunnar og boðskapur verksins er ljós. Ekki er getið um það í leikskrá hver ber ábyrgð á styttingunni en reikna má með að leikstjórinn, Þorgeir Tryggvason, hafi komið þar við sögu. Íslensk þýðing verksins er eftir Helga Hálfdanarson.

Það er einnig leikstjórinn og leikhópurinn sem hefur sniðið sýningunni umgjörð. Hér ræður einfaldleikinn ríkjum, sviðið er autt utan tveggja lítilla bekkja og leikmunir örfáir. Hins vegar er leikrýmið notað á útsjónarsaman hátt og eru innkomur á sviðið frá þremur stöðum og tröppur og svalir brjóta leikrýmið upp á skemmtilegan hátt. Búningar eru að sama skapi einfaldir og kannski er verið að ljá verkinu ákveðið tímaleysi með einfaldleika þeirra (t.d. eru karlmenn í gráleitum jakkafötum). Þó er brugðið aðeins á leik með búninga skækjunnar og melludólgsins, þar er litagleði og glingur haft með.

Það er ekki á allra færi að læra utan að og segja fram texta Shakespeares þannig að sómi sé að. Það má því segja þeim leikhópi áhugamanna sem hér er á ferðinni til hróss að textameðferð var í flestu tilliti vönduð. Framsögn var skýr og textinn skilaði sér mjög vel til áhorfenda. Það er hins vegar kannski aðeins á færi lærðra leikara að samhæfa erfiðan texta og túlkunarríkan leik, enda skorti nokkuð á túlkun ýmissa leikara hér, sérstaklega á dramatískari augnablikum verksins.

En margir gerðu mjög vel og má þar til dæmis nefna Hörð Sigurðarson í hlutverki hertogans og (dulbúna) munksins, þar fór vel saman túlkun og texti. Helgi Róbert Þórisson átti mjög fína spretti í hlutverki skúrksins og melludólgsins Lúsíó Pompa, hann lék af krafti og góðri tilfinningu fyrir hinu kómíska. Einar Þór Samúelsson átti sömuleiðis ágæta taka í hlutverki Olnboga lögregluvarðstjóra. Skúli Rúnar Hilmarsson léði Angeló ráðherra þungt yfirbragð eins og hæfði. Birgitta Birgisdóttir fór vel með texta ungnunnunnar Ísabellu en nokkuð skorti á tilfinningu í leik hennar enda hér um stórt dramatískt hlutverk að ræða. Hrund Ólafsdóttir (í hlutverki fógetans), Hulda B. Hákonardóttir (í hlutverki hórumömmunnar Tilgerðar og hinnar sviknu unnustu Angelós), Júlíus Freyr Theodórsson (í hlutverki Kládíós), Hulda Dögg Proppé (í hlutverki unnustu Kládíós) og Anna Dröfn Sigurjónsdóttir (í hlutverki skækju) skiluðu sínu ágætlega.

Eins og ætíð í skopleikjum Shakespeares leysist flétta verksins farsællega í lokin og hinn alvaldi og hjartagóði hertogi leysti úr öllum flækjum fagmannlega og fyrirsjáanleg voru að leikslokum fjögur brúðkaup og ein stöðuhækkun.

Þótt verk Shakespeares séu alltaf öðru hverju á sviði íslenskra leikhúsa eru þau svo mörg að fæstum gefst tækifæri til að sjá nema brot af höfundarverkinu öllu. Það er því alveg ástæða til þess að hvetja unnendur þessa meistara leiklistarinnar til að bregða sér í Kópavoginn á þessa sýningu Leikfélags Kópavogs. Það er gaman að hlusta á snjallan textann og fylgjast með vel fléttaðri atburðarás leiksins. Og leikhópurinn kemst vel frá þessu verkefni undir styrkri stjórn Þorgeirs Tryggvasonar.

Soffía Auður Birgisdóttir