Búið er að gera upp fimm svefnskála í Rockville, en þar dvelja nú að jafnaði 35-40 einstaklingar í endurhæfingu.
Búið er að gera upp fimm svefnskála í Rockville, en þar dvelja nú að jafnaði 35-40 einstaklingar í endurhæfingu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BYRGIÐ, kristilegt líknarfélag, hefur nú í tvö ár unnið að uppbyggingu endurhæfingarsambýlis fyrir áfengis- og fíkniefnanotendur í Rockville, yfirgefinni ratsjárstöð Bandaríkjahers á Miðnesheiði, en þar dvelja nú að jafnaði 35-40 skjólstæðingar í...
BYRGIÐ, kristilegt líknarfélag, hefur nú í tvö ár unnið að uppbyggingu endurhæfingarsambýlis fyrir áfengis- og fíkniefnanotendur í Rockville, yfirgefinni ratsjárstöð Bandaríkjahers á Miðnesheiði, en þar dvelja nú að jafnaði 35-40 skjólstæðingar í langtímameðferðum. Stór hluti þeirra er heimilislausir einstaklingar sem búið hafa á götunni árum saman, og er endurhæfingarsambýlið oft á tíðum þeirra eina úrræði, að sögn Guðmundar Jónssonar, forstöðumanns Byrgisins.

Bandaríski herinn yfirgaf ratsjárstöðina á Miðnesheiði fyrir fimm árum og lét þá eftir sig margvíslegar byggingar sem stóðu auðar í þrjú ár, þar til Byrgismenn hófust handa við endurbætur. Húsin voru skilin eftir eftirlitslaus án kyndingar og hafa því talsvert látið á sjá, auk þess að margvísleg skemmdarverk hafa verið unnin inni í húsunum.

Guðmundur segir að upphaflega hafi menn talið að ekki þyrfti að gera mikið fyrir húsin, en annað hafi komið í ljós. "Hér var allt rafmagnskerfið ónýtt og allar pípulagnir ónýtar og nánast öll hús ofnalaus, því búið var að fara með þá alla í burtu. Þetta þurftum við allt að endurnýja. Núna í tvö ár höfum við því verið í stöðugri uppbyggingu og allt frá tíu upp í þrjátíu manns verið hér að störfum. Við höfum tekið það inn sem lið í meðferðinni að leyfa fólki að vinna við að gera húsin upp, og það vill gera það og vera með í að mála og annað."

Kostnaður við endurbætur er kominn upp í 40-50 milljónir og reikna Byrgismenn með því að bæta þurfi við 100-150 milljónum til að koma öllum húsunum í nothæft ástand. Búið er að gera upp skrifstofuhúsnæði, 5 svefnskála og verið er að ljúka við endurgerð á fyrsta flokks mötuneyti með góðum samkomusal. Þá eru eftir um 14 hús á svæðinu. Þar af má m.a. nefna 8 svefnskála, verkstæði og íþróttahús með körfuboltavelli, fullkominni lyftingaaðstöðu, skvassvelli og gufubaði, en íþróttahúsið er nokkuð illa farið eftir skemmdarverk og frostavetur.

Að sögn Guðmundar þolir húsið vart einn vetur í viðbót án kyndingar og segir það mikinn skaða ef ekki verður hægt að gera íþróttahúsið upp.

Hann bendir jafnframt á að með endurgerð húsanna í Rockville sé verið að bjarga miklum verðmætum frá glötun, því verðmætið í byggingunum sé talsvert meira en felst í þeirri upphæð sem lögð hefur verið í endurbæturnar hingað til.

Uppbyggingin hefur fyrst og fremst verið fjármögnuð með styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og segir Guðmundur að Byrginu hafi borist fjöldi gjafa. Ríkið hefur ekki lagt fram styrk í endurbætur fram að þessu, en Guðmundur segir að í aukafjárlögum næsta árs sé gert ráð fyrir 9 milljónum í Rockville, auk þess sem Byrgið hafi fengið á þessu ári 5 milljónir í styrk til að vega upp tap af rekstri meðferðarheimila Byrgisins.

Fljótlega verður hægt að bæta við fleiri einstaklingum og er reiknað með að um 70 manns muni dvelja í Rockville á næsta ári, auk starfsfólks. Stefnt er að því að gera öll húsin nothæf, þannig að hægt verði að taka allt að 150-160 einstaklinga í endurhæfingu í Rockville.

Langflestir heimilislausir þegar þeir koma í meðferð

Starfsemin í Rockville sker sig úr starfsemi annarra meðferðarstofnana að því leyti að um langtíma meðferðarúrræði er að ræða, þar sem skjólstæðingar greiða fyrir dvöl sína sjálfir af félagslegum bótum sínum og stunda meðferðardagskrá og fá starfsþjálfun í vernduðu umhverfi.

"Fólk sem hér er í meðferð er með 56-63 þúsund krónur á mánuði frá hinu opinbera, sem eru annaðhvort örorkubætur eða félagslegar bætur, og þeir greiða fyrir vistina hér 38.000 krónur á mánuði. Þá á fólkið eftir um 20.000 krónur og lifir af því með glans, slík er nægjusemin hérna hjá fólkinu," segir Guðmundur.

Alls voru 86% heimilislaus af þeimsem komu í meðferð í Rockville á tímabilinu frá 1. október 1999 til 1. október 2000. Á þessu tímabili komu 92 einstaklingar í meðferð, þar af 84 í langtímaendurhæfingu, en 36% þeirra eiga við geðræn vandamál að stríða. Miðað við þann skjólstæðingahóp sem Byrgið sinnir verður meðferðarárangur að teljast nokkuð góður, en á fyrrgreindu tímabili voru 33% skjólstæðinga allsgáðir eftir meðferð og rúmlega helmingur þeirra kominn í vinnu annars staðar.

Auk reksturs endurhæfingarsambýlisins í Rockville sér Byrgið um rekstur á meðferðarheimili við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, sem er undir stjórn Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi landlæknis. Þá starfrækir Byrgið 15-17 manna áfangaheimili við Vesturgötu í Hafnarfirði.