2. desember 2000 | Jólablað | 524 orð

Bernskujól Snorra

Á þessum tíma voru heimilin margmenn, fjölmennar og fastbyggðar stofnanir. Er haustvertíð lauk, venjulega um veturnætur, hófst tóskaparvinna, sem stóð óslitið fram til jóla. Var þá tætt og unnið svo kallað smáband, en það voru sokkar og vettlingar.
Á þessum tíma voru heimilin margmenn, fjölmennar og fastbyggðar stofnanir. Er haustvertíð lauk, venjulega um veturnætur, hófst tóskaparvinna, sem stóð óslitið fram til jóla. Var þá tætt og unnið svo kallað smáband, en það voru sokkar og vettlingar. Sokkarnir voru heilsokkar og hálfsokkar og vettlingar stórir. Var þetta allt prjónað í höndum úr tvinnuðu bandi, hvítu eða gráu. Lengd heilsokka að framleist var lengd handleggs fullorðins manns, frá fingrabroddi í öxl, en lengd hálfsokka að olnboga. Allur var þessi tóskapur þæfður og klæddur á fótlaga fjalir (sokkatré) meðan hann þornaði. (...)

Föst venja mátti það heita að fólkið fengi sér hvíld í rökkrinu og legði sig þá til svefns. Þá gátu unglingar skotizt út sér til skemmtunar á skíði eða skauta. En jafnvel á þessum stundum laumuðust sumir afsíðis með prjónana sína svo lítið bæri á, og það stundum ungmennin, þegar ekki var því betra útiveður.

Með þessum prjónaskap öllum og tóskap var haustullin gerð verðmeiri. Og fyrir þetta prjónles allt var keypt til jólanna. Því að það var föst og ófrávíkjanleg venja, að kaupa aldrei "upp á skuld" fyrir jólin. Það var talið óráðsíufólk sem það gerði, enda möguleikarnir sennilega litlir til þess að slíkt væri hægt í þá daga. En að kaupa fyrir "smábandið" til jólanna þótti sjálfsagt, enda til þess ætlazt frá upphafi. Og það mátti telja víst, að þau heimili, sem mikið tættu, gætu líka veitt sér meira af munaði um jólin.

Kaupstaðarferðin var svo eins konar kóróna á þessa annasömu daga. Sá viðburður var svo stórfelldur að óhugsandi var að gleyma honum. Um hann var byrjað að tala snemma á þessari smábandsvertíð, hver mundi fara af heimilinu og með hvaða báti, því að þá voru til Böggvisstaðabátur, Grundarbátur, Hamarsbátur, Holtsbátur, Yngvarsbátur, Hólsbátur, o.s.frv. Voru formenn á vertíðum á þessum bátum bændur úr sveitinni, og fengu þá lánaða til kaustaðaferða, ef þeir áttu þá ekki sjálfir. Og réðust þá til þeirra nágrannar í þessar ferðir.

Svo var það svo sem 10 dögum fyrir jól að raðað var niður í koffortin sokkum og vettlingum og kaupstaðarferðin ákveðin. Venjulegast fór einn maður frá hverjum bæ, en tveir þar sem tvíbýli var. Sumir skrifuðu hjá sér það sem kaupa átti, en aðrir lögðu allt á minnið. Var ótrúlegt minni, sem sumir menn voru þá gæddir, enda margir lítt skrifandi og urðu því að treysta á minnið, sem þeim brást heldur ekki.(...)

Fyrir kom að kaupstaðarferðin tók ekki meira en svo sem þrjú dægur, eða ekki það, en venjulega lengur. Og stundum urðu þetta hrakningsferðir.

En heima biðu menn í spenningi, einkum börnin sem hlökkuðu mjög til þess að sendimaðurinn kæmi úr kaupstaðnum. Og er heim fréttist að báturinn væri lentur á Sandinum var ekki beðið boðanna að senda hest og sleða, ef slíkt færi var, eftir jólavarningnum. Varla á ég eftirminnilegri stund í minni mínu frá þessum árum en þá, er koffortin voru opnuð heima á baðstofupallinum og þessum dýrmæta kaupstaðavarningi var útdeilt úr hendi sendimannsins, sem þá stundina a.m.k. var hreinn og beinn dýrlingur og hetja í mínum augum. Og þótt maður fengi ekki sjálfur meira úr koffortinu en spil og kerti, var það ærið nóg, og tekið í móti með fögnuði.

Snorri Sigfússon. Ferðin frá Brekku. 1968.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.