Ritstjórar: Linda Norman Skugge, Belinda Olsson og Brita Zilg. Þýðendur: Hugrún R. Hjaltadóttir og Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir. Útgefandi: Forlagið

PÍKUTORFAN virkar nokkuð einkennilegt heiti á bók og í fljótu bragði mætti ætla að höfundar hennar hefðu valið nafnið til þess eins að ögra - en svo er þó ekki, því heiti bókarinnar er sótt í hinn pólitíska veruleika í Svíþjóð, eða beint upp í formann sænska Alþýðusambandsins, Stig Malm, sem árið 1992 kallaði félag sósíaldemókratískra kvenna "helvítis píkutorfu."

Píkutorfan hefur að geyma tæplega tuttugu greinar eftir konur á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára - alveg stórmerkilegar greinar þar sem komið er við á flestum þeim sviðum samfélagsins sem konur takast á við í sínu daglega lífi. Það er við hæfi að hefja frásagnirnar á kynhegðun, því eins og segir í annarri frásögn sem ber heitið "Það eru ekki til neinar druslur," þá hafa konur "aldrei verið eins mikið hvattar til að ögra og sýna kynþokkann eins og í dag" (bls. 108). Og hver hefur ekki tekið eftir því síðastliðin tvö misserin hversu skjóllitlar flíkur hafa verið í tísku. Svo tekið sé dæmi, þá hafa undirkjólar verið í tísku sem helsti samkvæmisfatnaður ungra kvenna á þessum tíma. En í þessari fyrstu frásögn um kynhegðun lýsir höfundurinn, Linna Johansson þeim kynferðislega veruleika sem ungar stúlkur búa við í dag - og hann snýst ekki bara um "að sofa eða sofa ekki hjá," heldur eru kröfurnar sem gerðar eru til þeirra öllu fremur komnar úr heimi klámiðnaðarins, því eins og höfundur frásagnar sem ber heitið "Það sem enginn þorir að tala um," þá eru "ungir strákar dregnir á tálar. Þeir lifa í kynlífsrigningu sem fellur á þá frá öllum kimum samfélagsins" (bls. 82).

Ein af afleiðingunum er sú að áður en barnung stúlka tekur afstöðu til þess hvort hún ætlar sér að hafa kynmök, gæti hún þurft að gera það upp við sig hvort hún er til í að hafa endaþarmsmök. Þau skilaboð sem ungir drengir fá úr kynlífsrigningunni er hreinlega að þeir eigi "rétt" þegar stelpur eru annars vegar, rétt á munngælum, rétt á endaþarmsmökum og svo framvegis. Skilaboðin sem ungar stúlkur fá eru þau að þær séu ekki mikils virði ef þær taka ekki þátt í leiknum. Og það á hinum viðkvæma aldri þegar bæði kynin eru að byrja að finna þörfina á snertingu frá hinu kyninu og viðurkenningu frá því. Það er bara hlaupið yfir það yndislega, langdregna sakleysi sem felst í því að horfast í augu, kyssast og knúsast.

Það þarf varla feminískt foreldri til að taka andköf yfir þeim kynferðislega veruleika sem unglingar búa við í dag, þar sem nektardansstaðir og kynlífstækjabúðir eru við aðalverslunargöturnar, klámrit eru seld á bensínstöðvum - og í bókabúðum í næstu hillu við skólabækur. Í frásögn sem ber heitið "Mínir svokölluðu vinir," eftir Lindu Norman Skugge, segir: "Nú geri ég mér grein fyrir því að vinkonu minni þegar ég var sextán, sem hafði verið með fjörutíu strákum, leið örugglega ekkert sérlega vel og var ekki eins sterk og hún gaf í skyn. Ég man að hún hékk stanslaust hjá skólahjúkrunarfræðingnum til að fá verkjatöflur og hún var alltaf með magapínu. Þá sá ég ekkert samband þar á milli en núna sé ég það greinilega" (bls. 137).

Linda segir ennfremur: "Stelpur læra að keppa hver við aðra - um stráka," og bendir á að strákar séu aðalumræðuefni stelpna frá unga aldri - og að það sé stutt af umhverfinu. Hún segir frá eigin reynslu sem er alveg tvímælalaust reynsla fjölmargra kvenna um óheilindi og baknag og segir: "Ef við stelpurnar erum alltaf uppteknar af því að fara á bak við hver aðra og allur tími okkar fer í að tala illa hver um aðra breytist aldrei neitt. Við þroskumst ekkert sjálfar né komumst áfram í samfélaginu, því við verjum dýrmætum kröftum okkar í það eitt að baktala og rífa hver aðra niður" (bls.138). Greinarnar í bókinni eru mjög fjölbreyttar og þótt ljóst sé að oft séu átökin á milli kynjanna (þótt það sé ekki einhlítt), fjallar bókin fyrst og fremst um sjálfsmat og sjálfsvirðingu ungra kvenna sem hefur áhrif á val á vinum, ákvörðun um kynhegðun, átröskun, íþróttaiðkun, skopskyn, svo eitthvað sé nefnt. Og líklega er þeim veruleika sem ungar konur búa við í borgarsamfélagi í dag, hvergi betur lýst en í grein sem ber yfirskriftina: "Takk fyrir Guð, að ég er lesbía." Getur verið að við búum við svo magnaða samfélagslega heilalömun á tímum "frelsis" til að selja hvers kyns kynlíf og hvers kyns megrunarmeðul og aðferðir til að sjá til þess að konur taki sem minnst pláss í heiminum að dætur okkar finni ekki sitt frelsi annars staðar en í örmum annarra kvenna?

Eftir nærri þriggja áratuga jafnréttisbaráttu kvenna hefði maður haldið að þær ungu konur sem skrifa Píkutorfuna byggju við annan veruleika en þær lýsa í bókinni. En það er ljóst að eftir því sem miðar í jafnréttisátt, verða aðferðirnar til að draga úr sjálfsmati og sjálfsvirðingu kvenna sterkari, harðari, illskeyttari. En það ber að hafa í huga, að afleiðingarnar bitna ekki bara á stúlkum, heldur einnig þeim ungu drengjum sem standa í miðri kynlífsrigningunni og læra um hvers kyns "gróteskar" kynlífsathafnir, löngu áður en þeir sjálfir reyna fyrsta kossinn.

Það er síður en svo að Píkutorfan sé stríðsöxi á vígvelli kynjanna. Hún lýsir því fyrst og fremst hvað það er sem mótar hvern einstakling og þar er bæði farið í saumana á persónulegri mótun og samfélagslegri mótun. Frásagnirnar eru allar áhugaverðar og nógu vel skrifaðar til að afhjúpa hina ýmsu þætti þess nútímasamfélags sem ungt fólk býr við. Þeir foreldrar sem hafa eitthvert vit í kollinum ættu að gefa unglingsdætrum sínum þessa bók - og ættu jafnframt að lesa hana sjálfir. Það gengur ekki lengur að andskotast í femínistum, benda á þær öðrum til varnaðar og kenna þeim um allt sem aflaga fer í samfélaginu. Það væri öllu nær að andskotast í klámiðnaðinum, megrunar- og fegrunariðnaðinum og þeirri kröfu sem enginn ber ábyrgð á að konur láti lítið fyrir sér fara í heiminum (þ.e. séu þvengmjóar) og ef þær þurfi endilega að taka pláss, þá líti þær að minnsta kosti vel út og séu ungar. Það gæti dregið úr dauðsföllum af völdum átröskunar (en samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni hafa þau lengi vel verið fleiri á ári í heiminum en dauðsföll af völdum eyðni). Það gæti dregið úr óttanum við að eldast en sá ótti grefur undan sjálfsmati og sjálfsvirðingu kvenna og magnar upp tilfinningu tilgangsleysis og vonleysis. Eða hefur einhver athugað hvort sá ótti á einhvern þátt í aukinni sjálfsmorðstíðni kvenna? Eins og segir í Píkutorfunni: "Það eina sem femínistar eiga sameiginlegt er að vilja að stelpur njóti sömu virðingar og strákar, lifi við sömu skilyrði og fái sömu möguleika í lífinu." Ef það gerir femínista hættulega, hljóta flestir foreldrar líka að vera hættulegir, því líklega eru vandfundnir þeir foreldrar sem vilja alls ekki að dætur þeirra njóti sömu virðingar og strákar, lifi við sömu skilyrði og fái sömu möguleika í lífinu.

Píkutorfan er einstök bók, skrifuð af miklu innsæi og þroska og á töluvert erindi við okkur öll. Og þótt heiti hennar sé gróft og bókarkápan sérlega fráhrindandi, ætti enginn að láta það aftra sér frá því að kanna þann veruleika sem við höfum búið ungu fólki í dag. Þýðingin er ágætlega unnin og málfar yfirleitt gott og það er ekki hægt annað en óska Forlaginu til hamingu með að "þora" að gefa bókina út og þeim ungu konum úr femínistahreyfingunni "Bríeti," sem unnu að þýðingunni og útgáfunni, að hafa átt frumkvæðið að því.

Súsanna Svavarsdóttir