TANNSTEINAR hafa fengið glænýja merkingu og geta nú átt við djásn sem fest er á tennurnar til skrauts. Skartrófur ýmsar í Skandinavíu kváðu hafa tekið þessu nýja innleggi í skrautpúkk samtímans feginshendi og nefna sumir "æði" á Norðurlöndum í því sambandi.
Ásgeir Reynisson, gullsmiður í Gull- og silfursmiðjunni Ernu, flytur inn tannskart frá sænsku fyrirtæki og segir um að ræða 2-5 millimetra djásn, ýmist upphleypt eða ekki, með demanti eða án og úr 22-24 karata gulli.
Fjölskyldufyrirtækið Gull- og silfursmiðjan Erna er með heimasíðu og segir Ásgeir að umræddur framleiðandi ytra hafi sett sig í samband við forráðamenn hennar. Sennilega hafi Svíarnir haft uppi á þeim á netinu. Tannskartið er handgert og ýmist með 1 eða 2 punkta demöntum á gullsmiðamáli, sem þýðir að þeir muni vera 0,01 eða 0,02 karöt.
Holskefla á næsta leiti?
"Við byrjuðum með þetta í upphafi ársins og höfum aðallega selt til tannlækna. Þeir eru þónokkuð margir í Reykjavík og á suðvesturhorninu. Ég hafði reiknað með að fólk myndi frekar snúa sér til gullsmiðanna. En það hefur bara farið beint til tannlæknisins."Ásgeir, sem prófaði að smíða "Íslandskort" úr gulli til þess að festa á tennur, segir tanndjásnin hafa farið hljótt til þessa enda ekki verið mikið auglýst. "Skriðan getur þó farið af stað hvenær sem er. Svíarnir segjast til að mynda vart hafa undan við að framleiða fyrir Bandaríkjamarkað," segir hann.
Tinna Kristín Snæland, einn þeirra tannlækna sem fengist hafa við að koma tannskartinu fyrir, segir það ekki fara illa með glerung tannanna, sé tannhirða almennt góð. Tinna Kristín festi demant í gullumgjörð á hægri augntönn Guðlaugar Óskar Sigurðardóttur, nemanda í Menntaskólanum í Reykjavík, í votta viðurvist en þegar rétta djásnið er fundið er næsta skref að velja viðeigandi tönn. "Spurningin er sú hvort skreytingin eigi að vera mjög áberandi eða ekki. Í þessu tilfelli er hægri augnframtönnin besti kosturinn."
Tönnin er undirbúin eins og um plastfyllingu sé að ræða, segir tannlæknirinn. Fyrst er hún hreinsuð með grófum steini, þá böðuð í fosfór-sýru sem ýfir glerunginn. Síðan er fosfórinn skolaður af og tönnin pensluð með plastefni sem festir djásnið.
Valkostirnir eru af ýmsu tagi; hjarta, spaði, tígull, lauf. Stjörnur, höfrungar, bílar, kjölfestur, hestshausar, fiðrildi, sporðdrekar, vogir og skeifur. Eða bara @-merkið fyrir tölvuunnendur, tákn ofurmennisins fyrir kraftakarla og "Íslandskort" fyrir skrautfugla, aflvana af ættjarðarást. Og svo framvegis.