"Margrét hefur vit á að ganga troðna slóð með undarlegum formerkjum og sýnir með því bæði dug og þor," segir Arnar Eggert um tökulagaplötu söngkonunnar Margrétar Eirar.
"Margrét hefur vit á að ganga troðna slóð með undarlegum formerkjum og sýnir með því bæði dug og þor," segir Arnar Eggert um tökulagaplötu söngkonunnar Margrétar Eirar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Eir, samnefndur frumburður söngkonunnar Margrétar Eirar. Margrét syngur en með henni eru þeir Kristján Eldjárn (gítar), Karl Olgeirsson (Rhodes), Jón Rafnsson (kontrabassi) og Birgir Baldursson (trommur). Lög og textar eru eftir ýmsa erlenda höfunda. Upptökum stýrði Kristján Eldjárn. 58,17 mín. Margrét Eir gefur sjálf út.

TÖKULAGA- eður ábreiðudiskar (e. cover) eru óvenjumargir í ár. Tökulag er lag sem flutt hefur verið áður og nýtur almennra vinsælda og þótt seinna skilyrðið sé svo sem engin regla eru þetta jafnan svokölluð staðallög (e. standards), lög sem hafa verið flutt margsinnis í gegnum árin af fjölda listamanna.

Tökulagadiskarnir í ár eru eins mismunandi og þeir eru margir. Hin níu ára Jóhanna Guðrún "velur" t.d. að syngja lög sem eru löðrandi í nýjabrumi á meðan öldungarnir í Vinabandinu renna sér í gegnum gömul og rammíslensk dægurlög. Einnig eiga Diddú, hinn kornungi Grímur Helgi, Páll Rósinkranz og Strákarnir á Borginni, þeir Helgi Björnsson og Bergþór Pálsson, viðlíka plötur um þessi jól.

Þetta er að mörgu leyti vafasöm þróun því að hver er nú tilgangurinn? Það er jú búið að syngja lögin áður er það ekki? Þótt hljómsveitir eigi það til að renna sér í gegnum uppháldslögin sín í góðu gríni á hljómleikum finnst manni eins og sé verið að bera í bakkafullan lækinn með útgáfu á plötum þar sem öll lögin eru fengin annars staðar frá en úr smiðju sjálfs "listamannsins". Kaldhæðnar tungur hafa nefnt svona útgáfur "karaoke"-diska, og það ekki að ósekju.

Margrét Eir ræðst á háa, lága og óþekkta garða hér og fer sannarlega um víðan völl. Tema plötunnar er ástin með áherslu á hryggbrotin sem henni geta fylgt og til að gefa mynd af flórunni er hér t.d. útgáfa af "God Only Knows" Beach Boys, af mörgum talið besta popplag allra tíma, og einnig er að finna jafn ólík lög og sýruþjóðsönginn "Nights In White Satin" (Moody Blues) og fremur óþekkt og nýlegt lag eftir Paul Weller, "You Do Something To Me", sem er að finna á plötu hans Stanley Road frá 1995. Hið angurværa meistaraverk Neils Youngs "Only Love Can Break Your Heart" er hér einnig svo og lagið "True Colors", sem er hvað þekktast í flutningi sönghnátunnar knáu Cyndi Lauper.

Plata Margrétar er um margt undarlegt tökulagaverk. Margir gera þá kröfu að úr því að endilega þurfi að krukka í gömul meistarastykki þá verði a.m.k. gerð tilraun til túlkunar, að búa til eitthvað nýtt. Margrét og félagar eru greinilega fylgjandi þessu og umbreyta og snúa upprunalegu útgáfunum á ýmsa lund, í flestum tilfellum með fínum árangri.

Lögin eru mörg hver vel svöl og einkanlega eru spilamennska og útsetningarnar sem að henni lýtur flott. Hljóðfæraleikurinn er hæfilega hrár og mjög lifandi, hér er hvorki gerilsneytt né dauðhreinsað. Platan er heilsteypt, lágstemmd og naumhyggjuleg, líður þægilega áfram og það er stíll yfir hljómnum, sem er hlýr og góður.

Margrét heldur nokkuð aftur af sér í söngnum. Í ljósi sönghæfileika þeirra sem hún býr yfir hefði alveg eins verið líklegt að hún myndi þenja röddina eins og henni væri unnt. Hér er ekki um nein slík tónstigahlaup að ræða enda kallar eðli plötunnar ekki á það. Röddin er róleg og ljúf, líður varlega áfram í takt við tónlistina. Smekklega af hendi leyst en þó er röddin fullsviplaus á stundum og oftast bætir hún litlu við í túlkun, ólíkt hljómsveitinni.

Ramminn sem Margrét og félagar settu sér við gerð plötunnar er það sem er best heppnað hér. Helsti gallinn er að einstök lög takast afar mismunandi vel. "Your Ghost" (Kristin Hersh), "Live To Tell" (Madonna) og "True Colors" eru til dæmis frábær en "God Only Knows", "Only Love Can Break Your Heart" og "You Do Something To Me" virka alls ekki.

Þótt hugmyndafræðin hér sé, eins og áður segir, vafasöm er platan sem slík vel heppnuð. Margrét hefur vit á að ganga troðna slóð með undarlegum formerkjum og sýnir með því bæði dug og þor; það hefði léttilega verið hægt að spila lögin óbreytt inn, aðferð sem hefði líkast til verið markaðsvænni. Það má því segja að Margréti "takist" ágæta vel upp með þessari tökuplötu sinni.

Arnar Eggert Thoroddsen