Jón Valur Jensson
Jón Valur Jensson
Sú notun neyðargetnaðarvarnar, segir Jón Valur Jensson, sem Reynir Tómas og Sóley mæla með stríðir gegn lögum.

ANDMÆLA verður málflutningi Reynis T. Geirssonar í Mbl. 25/10 og Sóleyjar Bender 11/11. Bæði boða "neyðargetnaðarvörn" (NGV) sem úrræði í takmörkun barneigna, en fara með rangt mál í ofurkappi við að koma þessum pillum á framfæri.

Hér verður sýnt fram á að forsendur þeirra eru óvísindalegar og að sú notkun NGV sem þau mæla með stríðir gegn fóstureyðingalögum nr. 25/1975.

Hvenær hófst líf okkar?

Meginforsenda RTG og SB er að getnaður verði við festingu "frjóvgaðs eggs" í slímhúð legs (sem á sér stað undir lok 1. viku eftir frjóvgun).

Enn er það frumatriði fósturvísisfræðinnar (embryology) að líf okkar byrjar við frjóvgun þegar egg og sæði sameinast. Hvort um sig hefur 23 litninga. Hvorugt þróast til að verða mannleg vera, heldur eru hlutar mannlegrar veru. En eftir frjóvgun er orðin til mennsk vera (human being), lífkerfi með 46 litningum, sem einkennir hvern einstakling af mannkyni. Þessi vera fer þá þegar að framleiða sér-mannleg prótín og enzým, stýrir vexti sínum og þróun sem mannleg vera, er þá þegar nýr, lifandi, mennskur einstaklingur, karl- eða kvenkyns (dr. Dianne Irving, byggt á sérfræðiritum: Larsen: Human Embryology 1997, O'Rahilly & Müller: Human Embryology and Teratology 1994, Moore & Persaud: The Developing Human 1998, Carlson: Human Embryology and Developmental Biology 1994).

Í höfuðriti, Essentials of Human Embryology e. Moore, segir: "Mannleg þróun byrjar eftir sameiningu kynfrumu karls (sæðis) og konu (eggs) í ferli sem þekkt er sem frjóvgun (getnaður)." Oxford Concise Medical Dictionary: "Getnaður: Upphaf þungunar, þegar kynfruma karls (sæði) frjóvgar kynfrumu konu (egg) í eggjastokk." "Okfruman er byrjun á nýju, mannlegu lífi (þ.e. fósturvísi). Hugtakið "frjóvgað egg" á við um þroskað egg sem frjóvgast af sæði; um leið og frjóvgun er afstaðin, verður eggið að okfrumu"; eftir það er í raun ekki rétt að tala um "egg" (O'Rahilly & Müller, 16, Moore & Persaud, 2), þótt sumir noti það villandi hugtak. Okfruma er einnar frumu fósturvísir (unicellular embryo) sem skiptist og þroskast hratt næstu daga og vikur og er orðinn 150 frumur, er hann festir sig að eigin frumkvæði í slímhúð legs.

Sú skoðun, að getnaður verði við festinguna (5-7 daga fósturvísir) og fyrr sé rangt að tala um fósturvísi og mannlegt líf, er goðsögn, ekki frá fósturvísisfræðingum komin, heldur guðfræðingnum McCormick og froskaþróunarlíffræðingnum Grobstein í ritum frá 1979. Ýmsir hafa hent þetta á lofti til að réttlæta framleiðslu á pillum sem ekki aðeins hindra egglos og getnað, heldur binda enda á líf fósturvísis. Til að fegra athæfið tala lyfjafyrirtæki og t.d. Planned Parenthood um "neyðargetnaðarvörn" þegar átt er við allt sem NGV kemur til leiðar fram að legfestingu. Því miður sverja Reynir og Sóley sig í þennan hóp, en þau breyta ekki vísindalegum staðreyndum og væri sæmst að halda sig við sannleikann.

Notkun NGV er lagabrot

Út frá gefnum falsforsendum um getnað afneita RTG og SB því að NGV sé fóstureyðing.

Fæðu- og lyfjastofnun Bandaríkjanna segir áhrif NGV þrenns konar: hindrun eggloss, torveldun á flutningi eggs/sæðis um eggjaleiðara [hvort tveggja afstýrir getnaði] og hindrun festingar í legvegg [sem eyðir fósturvísi].

Egg sem losnar í konu lifir 12-24 klst.; þótt sæði geti lifað 5 daga unz það nær eggi eða deyr, veldur þetta því að mjög oft er notkun NGV áhrifalaus, þar eð konan er ekki frjó. Gerum ráð fyrir að hún sé nýorðin eða nær orðin frjó. Þá er talið að þegar NGV hindrar þungun gerist það í 57% tilvika með hindrun legfestingar fósturvísis, en sé NGV tekin strax á fyrstu 24 klst. eftir kynmök, hindrist festing í 43% tilvika. Málsvarar NGV vilja leyna áhrifum hennar á fósturvísa sem þegar eru orðnir til, en jafnvel Planned Parenthood viðurkennir að sumar gerðir NGV hindri oftar festingu fósturvísis en að afstýra frjóvgun. Schering, framleiðandi NGV PC4, segir "aðalmarkmið hennar að hindra festingu frjóvgaðs eggs [sic] í legvegg".

Niðurstaða: þegar NGV virkar er hún oft getnaðarvörn, en oft veldur hún fósturláti: stór hluti þessara "varna" felst í því að útrýma fósturvísi. Þar er um fóstureyðingu að ræða skv. ótvíræðum skilningi laganna frá 1975 sem ná til slíkra tilfella frá getnaði. Lögin gefa enga heimild til fóstureyðingar nema með umsögn 2ja lækna eða læknis og félagsráðgjafa, einnig á læknir að annast hana á sjúkrahúsi. Því er ljóst að nú er að því stefnt að brjóta lög Alþingis.

Fráleit átylla vegna fósturláta

Reynir gerir lítið úr þýðingu þess, sem hann játar, að NGV getur komið í veg fyrir legfestingu, en með því er fósturvísi útrýmt. Rök hans eru þau að það gerist "við mjög margar náttúrulegar frjóvganir" að hið "frjóvgaða egg" (sic!) leysist upp og hverfi með tíðablóði. Hann hnykkir á: "Meirihluti náttúrulegra frjóvgana verður aldrei að barni og þetta er alveg sambærilegt."

Svar: Rannsókn sýnir (Lancet 1983) að 8% fósturvísa heilbrigðra kvenna farast á fyrstu 2 vikum eftir frjóvgun (ekki 29% eins og talið var í könnun frá 1942-59, hvað þá "meirihluti"). þá má benda á að víða um lönd er barnadauði af náttúrlegum ástæðum skæðari en 8%, en það gefur engum rétt til að skerða hár á höfði barna; og eins þótt "náttúran leyfi það" að öll deyjum við, þá gefur það ekki öðrum mönnum rétt yfir lífi okkar. Eins geta náttúrleg afföll af fósturvísum ekki gefið neina heimild til að veitast að lífi þeirra.

Lögbrotum andmælt - Læknar haldi læknaeið

7/10 hefur Mbl. eftir heilbrigðisráðherra: "Hún segir að um næstu áramót komi sk. NGV-pilla á markað sem verði gerð mjög aðgengileg í heilsugæzlunni, m.a. með því að hún verði ekki lyfseðilsskyld." SB segir Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir (FUKOB, útibú Planned Parenthood) veita ráðgjöf í miðbæ Rvíkur þar sem stúlkur geti "fengið lyfið án tafar", m.ö.o. án lyfseðils. það er lögbrot. Sala NGV án lyfseðils eða viðtals við lækni er að auki áhættusöm, NGV er fjarri því að vera eftirkastalaus eða henta hverri sem er með vissa sjúkdómasögu að baki.

Ég lýsi áform ráðherrans og athafnir FUKOB lögleysu, eins og ljóst er af lögunum frá 1975.

Læknum ber að halda eiðstaf Alþjóðasamtaka lækna. Þar segir: "Ég heiti því að virða mannslíf öllu framar, allt frá getnaði þess."

Höfundur er guðfræðingur.