20. desember 2000 | Menningarlíf | 423 orð | 1 mynd

Messa eftir Victor Urbancic á plötu

Pétur Urbancic og Úlrik Ólason.
Pétur Urbancic og Úlrik Ólason.
KRISTS konungs hátíð er titill nýútkominnar geislaplötu með Krists konungs messu eftir dr. Victor Urbancic í flutningi Úlriks Ólasonar organista og Kórs Kristskirkju. Messuna samdi Victor Urbancic á árunum 1945-46 og tileinkaði Kristskirkju í Landakoti.
KRISTS konungs hátíð er titill nýútkominnar geislaplötu með Krists konungs messu eftir dr. Victor Urbancic í flutningi Úlriks Ólasonar organista og Kórs Kristskirkju.

Messuna samdi Victor Urbancic á árunum 1945-46 og tileinkaði Kristskirkju í Landakoti. Ætlaði hann messuna til flutnings við hátíðarmessur í kirkjunni en sjálfur var Urbancic orgelleikari og kórstjóri við kirkjuna frá árinu 1938 til dauðadags 1958. Að sögn Péturs Urbancic, sonar tónskáldsins, sem hefur sungið með kórnum um langt árabil, tók faðir hans sérstaklega mið af getu og stærð þess kórs sem þá söng við messur í Kristskirkju.

"Nú er orgelið orðið eins og það á að vera"

"Þá var ekki komið í kirkjuna orgelið sem þar er núna," segir organistinn, Úlrik Ólason. Reyndar var það einmitt Victor Urbancic sem átti frumkvæði að smíði og lagði drög að hönnun og gerð þess pípuorgels sem nú er í Kristskirkju og var vígt fyrir réttum fimmtíu árum. Þar sem orgelið var orðið slitið eftir nærri hálfrar aldar notkun var það tekið niður og flutt til Danmerkur, þar sem allir slitfletir þess voru endurnýjaðir hjá orgelsmiðjunni Frobenius og sønner, sem sá upprunalega um smíði hljóðfærisins. Orgelið var sett aftur upp í kirkjunni fyrir rúmu ári eftir viðgerðina. "Nú er orgelið orðið eins og það á að vera," segir Úlrik ánægður. Sjálfur hefur hann verið organisti og kórstjóri í Kristskirkju í þrettán ár eða allt frá árinu 1987. Hins vegar segir hann að Pétur hafi sungið í kórnum eins lengi og elstu menn muna. Sjálfur kveðst Pétur ekki muna upp á hár hvenær hann fór að syngja með kórnum. Hann hafi verið kórdrengur í kirkjunni fyrstu árin og það hafi ekki verið fyrr en hann hætti því, einhvern tímann milli tektar og tvítugs, sem hann byrjaði í kórnum og hefur verið viðloðandi hann síðan.

Ein þekktasta tónsmíð Urbancic

Messan er í hefðbundnu formi klassískrar messu í kaþólskum sið og samanstendur af hinum sex föstu þáttum hennar: Kyrie, Gloria, Credo, Sanctus, Benedictus og Agnus Dei. Messan er í þremur röddum; tveimur kvenröddum og einni karlarödd. Auk messunnar er á diskinum hinn gregoríanski messusöngur sem tilheyrir hátíð Krists konungs, sem er síðasti sunnudagur kirkjuársins, séra Jakob Rolland les guðspjall og í lokin er orgelverk eftir César Franck; Choral nr. 3 í a-moll.

Þetta er í fyrsta sinn sem Krists konungs messa er hljóðrituð og gefin út á diski en hún hefur margoft verið flutt við hátíðarmessur í Kristskirkju, auk þess sem hún var flutt á minningartónleikum um Victor Urbancic í Þjóðleikhúsinu. Að sögn Péturs mun messan vera ein þekktasta tónsmíð föður hans.

Allur ágóði af sölu geisladisksins rennur í orgelsjóð Kristskirkju.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.