Páll Torfi hefur ólæknandi ást á suðrænni tónlist.
Páll Torfi hefur ólæknandi ást á suðrænni tónlist.
Páll Torfi var tíu ára gutti þegar hann lærði fyrstu gítarhljómana og spænk-mexíkanskan ásláttarstíl og framtíðin var ráðin... að hálfu leyti.

TIMBÚKTÚ heitir hressileg plata í suðrænum sveiflu, þar sem höfundur laganna er gítarleikarinn og læknirninn Páll Torfi Önundarson. Hann hefur oft látið til sín taka í íslenskum tónlistarheiminum, og á sínum tíma var hann í hinni rómuðu sveit Diabolus in Musica. Í fyrra gaf hann út plötu með hljómsveitinni sinni Six Pack Latino, og nú hefur hann aftur fengið valda tónlistamenn til liðs við sig.

Lagið sem hvarf

"Timbúktú er nú eitt af aðallögunum sem við vorum alltaf að spila í gamla daga með Diabolus in Musica. Fyrir mistök lenti það á safndiski áður en við gáfum út Hanastél á Jónsmessunótt, þannig að fólki fannst ekki hægt að setja það strax aftur á plötu, og það eiginlega hvarf. Það er nú önnur góð skýring á því hvarfi, sem var að ég var látinn syngja lagið sjálfur," segir Páll og hlær.

"Nú syngur Egill Ólafsson það, en við vorum kórfélagar í Hamrahlíðarkórnum. Hann var ætíð betri söngvari en ég, það má hann eiga."

Klassísku lögin Pétur Jónatanson og Sautján stig og sól, sem margir þekkja svo vel, prýða einnig nýju plötuna. "Þessi þrjú lög hafa lifað nokkurn veginn allan tímann þannig að þegar við höfum verið að spila þau á uppákomum þá tekur salurinn alltaf undir. Mér finnst það dálítið merkilegt."

"Ég hef fengið þau viðbrögð frá mörgum konum að Pétur Jónatansson sé uppáhaldslagið þeirra, en ég hef aldrei heyrt neinn karlmann segja það. Hins vegar eru margir karlmenn sem halda að lagið sé um sig. Þeir taka til sín textann, en ég ætla ekki að nefna nein nöfn!" segir Páll sposkur. "En þegar kom að upptökum reyndist það erfiðasta lagið, því að allir (nema ég) hafa svo fast ákveðnar skoðanir á því hvernig lagið eigi að hljóma."

Önnur lög á diskinum hefur Páll samið á undanförnum 25 árum.

"Lagið Tangó í myrkri var samið í Hamrahlíðinni og var hluti af svítu, og er hér í þeirri mynd sem ég hugsaði því upphaflega; nokkurs konar tangó, reyndar svolítið óræður í myrkrinu en breytist í all taktvissan," segir Páll dularfullur. "Lagið Habanera sem er svo kúbanskari tangó, nær rúmbunni."

- Hvað veitir mestan innblástur?

"Það hefur áhrif að vera í samspili og fá yfir sig alls konar tónlist frá hinum. Líka að vera staddur t.d í Tyrklandi en þaðan kom hugmyndin að Mambo alla Turca. Það eru yfirleitt hljómar og ryþmi sem starta lagi og laglínan felst í hljómunum. Hún getur einnig falist í orðum, því það getur falist hljómfall í orðum. Það er eitt lag á plötunni sem heitir Mónika, það var af því að nafnið Monica Lewinski söng í hausnum á mér eins og öllum heiminum," segir læknirinn lagelski að lokum.