Guðmundur Jónsson
Guðmundur Jónsson
Guðmundur Jónsson fæddist í Hafnarfirði 19. nóvember 1958. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Víghólaskóla í Kópavogi og einnig lauk hann prófum frá Iðnskólanum í Reykjavík í múrverki og er einnig sem kjötiðnaðarmaður. Hann hefur starfað við múrverk og kjötafgreiðslu og sem kokkur á sjó. Nú er hann forstöðumaður Byrgisins. Guðmundur er kvæntur Helgu Haraldsdóttur húsmóður og skrifstofumanni og eiga þau þrjú börn.
Guðmundur Jónsson fæddist í Hafnarfirði 19. nóvember 1958. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Víghólaskóla í Kópavogi og einnig lauk hann prófum frá Iðnskólanum í Reykjavík í múrverki og er einnig sem kjötiðnaðarmaður. Hann hefur starfað við múrverk og kjötafgreiðslu og sem kokkur á sjó. Nú er hann forstöðumaður Byrgisins. Guðmundur er kvæntur Helgu Haraldsdóttur húsmóður og skrifstofumanni og eiga þau þrjú börn.

Byrgið, kristilegt líknarfélag, verður með bifreið sem kallast lífbíllinn á ferli um hátíðarnar. Að sögn Guðmundar Jónssonar, forstöðumanns Byrgisins, verður í í þessum bíl veitt ráðgjöf varðandi vandamál tengd áfengi og vímuefnaneyslu. Hann var spurður hvers vegna þessi bíll væri gerður út á þessum tíma?

"Það er tvímælalaus þörf fyrir þetta. Milli 80 og 100 einstaklingar eru á ferli á götum Reykjavíkur sem eiga ekki í nein hús að venda og stór hluti þessa hóps eru unglingar. Þetta fólk á ekki pláss í meðferð yfir hátíðarnar, kemst ekki inn, það er allt fullt alls staðar. Við ætlum að sinna þessu fólki."

-Í hverju er aðstoð ykkar fólgin fyrir utan ráðgjöf?

"Við gefum þeim sem til okkar leita heita súpu og brauð og einnig erum við með hlýjan fatnað."

-Er það svo að þetta fólk sé útigangsfólk?

"Að stórum hluta er það svo. Sumir hafa kannski húsaskjól en engan mat. Vegna þessa verðum við líka með jólahlaðborð á jóladag í húsnæði okkar í Lækjargötu 32 í Hafnarfirði. Þangað geta allir komið klukkan 16 og fengið mat og notið tónlistarflutnings."

-Er óvenjulega margt fólk sem er svona ástatt fyrir núna?

"Já, það ber öllum saman um það sem koma að hjálparstarfi fyrir þessi jóla að það sé óvenjulega margt fólk sem á hvergi höfði sínu að halla. Líka má geta þess að þeir sem nóg hafa eru gjafmildari en oft áður."

-Eruð þið með úthlutun á fatnaði eða peningum fyrir jólin?

"Við vorum með úthlutun á fatnaði og mat. Við erum ekki með neina opinbera styrki til slíkrar starsfemi, aðeins til uppbyggingarinnar í Rockville."

-Hvað fer fram þar?

"Þar er langtíma meðferðarúrræði fyrir alkóhólista og vímuefnaneytendur."

-Hvenær hófst ykkar starf?

"Það hófst opinberlega 1. desember 1996. Á þessum tíma hefur neyslan orðið "harðari" og meiri og þörfin því fyrir meðferðarúrræði hefur aukist. Ég hef ekki séð hlutina batna, heldur versna ár frá ári."

-Eftir hvaða kerfi hjálpið þið fólki?

"Við störfum samkvæmt tólf spora kerfi AA-samtakanna. Allt prógramm hjá okkur miðast við Orð Guðs og þann kærleiksboðskap sem þar er að finna - ef þú hjálpar öðrum ert þú um leið að hjálpa sjálfum þér. Biblían er ein mesta mannræktarbók sem nokkurn tíma hefur verið gefin út."

-Hvað eruð þið með marga í meðferð?

"Núna eru hjá okkur sjötíu manns. Karlmenn eru í örlitlum meirihluta. Það er allt fullt hjá okkur og við getum ekki tekið við fleirum fyrr en eftir áramóta, þó munum við sinna neyðartilvikum og höfum auglýst sérstakan neyðarsíma: 565-5300. Bíllinn er liður í þessari neyðarhjálp."

-Hvaða fólk verður á vakt í lífbílnum?

"Allir sem starfa í bílnum yfir jólahátíðina eru sjálfboðaliðar og fyrrverandi neytendur áfengis eða vímuefna sem hafa notið meðferðar í Byrginu á sl. fjórum árum. Lífbíllinn og 8 aðrir bílar voru sérmerktir Byrginu á útihátíðum í sumar og þar vorum við með viðlíka hjálparstarf sem mæltist vel fyrir bæði hjá gestum og mótshöldurum."

-Hvernig gengur fólki að aðlagast samfélaginu eftir meðferðina?

"Mjög vel. Skýrsla okkar fyrir síðasta ár sýnir að 38% þeirra sem hjá okkur hafa verið ná árangri og fjölmargir af þeim eru nú í atvinnu, en höfðu ekki atvinnu áður."

-Eruð þið með ráðgjöf fyrir þá sem eru að fóta sig á nýjan leik í samfélaginu eftir að hafa ánetjast vímuefnum alvarlega?

"Já, við erum með samkomuhald á hverju föstudagskvöldi þar sem við hittumst og eigum saman góða kvöldstund. Oft eru um 130 manns á kvöldunum hjá okkur, bæði þeir sem innan Byrgisins eru og þeir sem hafa verið þar. Einnig erum við með viðtöl við fyrrverandi Byrgisfólk og svo aftur aðstandendur þess. Þá eru fjölskylduviðtöl veitt."

-Eru allir tilbúnir að koma í meðferð þar sem trúin hefur svo miklu hlutverki að gegna?

"Öllum sem koma til meðferðar í Byrginu er gert ljóst út á hvað meðferðin gengur og í sárafáum tilvikum veit ég til að fólk hafi yfirgefið meðferðina vegna þess að prógrammið væri trúarlegs eðlis. Við sjáum ár frá ári að fólk hungrar í að reyna þessa meðferð þegar allt annað hefur þrotið."

-Hafið þið samstarf við aðra meðferðaraðila?

"Já, við höfum samskipti við Vog og áfengisdeild Landspítalans og áfangaheimili Krossgatna enda væri þetta vonlaust nema menn störfuðu saman. Þetta er því ekki eins og að starfa í viðskiptum - hugsjónin verður að vera til staðar og leiðarljós í starfinu.