Tryggvi Sigurbjarnarson rafmagnsverkfræðingur og Jón Norðfjörð rafvirkjameistari lentu í einni mestu raflínuviðgerð Íslandssögunnar.
Tryggvi Sigurbjarnarson rafmagnsverkfræðingur og Jón Norðfjörð rafvirkjameistari lentu í einni mestu raflínuviðgerð Íslandssögunnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ofsaveður með þrumum og eldingum gekk yfir Suðurland 20. desember 1972. Kviknaði í tveimur bæjum í Rangárvallasýslu, bát rak á land á Stokkseyri. Eldingu sló niður í Búrfellslínu og eldingavarar við Búrfellsvirkjun eyðilögðust.

Ofsaveður með þrumum og eldingum gekk yfir Suðurland 20. desember 1972. Kviknaði í tveimur bæjum í Rangárvallasýslu, bát rak á land á Stokkseyri. Eldingu sló niður í Búrfellslínu og eldingavarar við Búrfellsvirkjun eyðilögðust. Við það sló Sogsvirkjun út og nær öll Reykjavík varð rafmagnslaus.

Daginn eftir gekk enn ofsaveður yfir landið. Kirkjan á Möðruvöllum í Eyjafirði fauk af grunni og þök fóru af mörgum húsum í Reykjavík. Í veðurhamnum að kvöldi 21. desember hrundi 60 metra háspennumastur við bakka Hvítár, Grímsnesmegin, og Búrfellslína 1 slitnaði. Þessi háspennulína var þá sú eina sem flutti rafmagn frá Búrfellsvirkjun og olli bilunin alvarlegum rafmagnsskorti, ekki síst fyrir álverið í Straumsvík, sem varð fyrir miklu tjóni. Grípa varð til rafmagnsskömmtunar í Reykjavík. Jaðraði við neyðarástand vegna óveðurs og rafmagnsleysis, að því er fram kom í fréttum.

Alvarlegt ástand

Tryggvi Sigurbjarnarson rafmagnsverkfræðingur var stöðvarstjóri í Sogsvirkjun og hafði umsjón með háspennulínum Landsvirkjunar. Jón Norðfjörð rafvirkjameistari var þá línumaður og eftirlitsmaður hjá Landsvirkjun. Þeir unnu ásamt um þrjátíu öðrum í þrjá sólarhringa samfleytt við að koma straumi á Búrfellslínu.

Tryggvi segir að um leið og línan slitnaði hafi hún slegið út. "Álverið datt út. Varastöðin fyrir álverið, sem er í Kapelluhrauni, annaði ekki nema hluta af orkuþörfinni. Það var svo lítið varaafl að það þurfti að skammta rafmagn til verksmiðjunnar. Það lá fyrir að ef ekki tækist að koma Búrfellslínunni inn fyrir ákveðinn tíma myndi storkna í kerunum og álverið var því í mikilli hættu."

Tryggvi segir að hvassviðrið sem felldi þennan háa turn hafi verið ótrúlegt. "Þetta var óskaplega hart veður og mikil hrina, en engin ísing. Um leið og línan datt út kom útkall og farið var að leita að biluninni. Hún fannst fljótlega. Það vildi svo vel til að daginn eftir lygndi og varð tiltölulega gott veður. Einnig var verið að reisa Búrfellslínu 2, ekki langt frá, og við gátum fengið tæki og menn sem voru að vinna í henni."

Það komu tveir vinnuflokkar til að gera við línuna, einn frá Landsvirkjun sem Jón Aðils stjórnaði og annar frá Guðmundi Bjarnasyni verktaka. Samkvæmt fréttum Morgunblaðsins frá þessum tíma komu einnig við sögu starfsmenn Landhelgisgæslunnar. Alls voru um 30 manns að störfum á vettvangi þegar flest var.

Jón fór strax að undirbúa uppsetningu nýrrar línu í turninum sem stóð uppi austan árinnar. Hann naut aðstoðar Trausta Hjaltasonar við það verk. "Ég þurfti að fara upp í turninn til að hengja upp vírana. Þá var svo mikil ísing á honum að ég þurfti að brjóta hana af með hamri til að komast upp."

Mesti vandinn var að koma taug yfir ána svo hægt væri að draga þrjá nýja háspennuvíra yfir. Vegna hlýindanna var mikill jakaburður í ánni sem gerði mönnum erfitt fyrir. "Við reyndum að róa yfir á litlum bátum, en það gekk ekki. Svo fengum við utanborðsvélar, en gallinn var sá að leðjan úr jökulvatninu fór í mótorana og stíflaði þá. Við bræddum úr þremur mótorum," segir Tryggvi.

Þyrlur gátu ekki flogið

Tvær þyrlur voru fengnar á vettvang, ein frá Landhelgisgæslunni og önnur frá Varnarliðinu. Þær lentu báðar um hádegisbil á Þorláksmessu. Meðan lögð voru á ráðin um hvernig best yrði að haga verkum skall á mjög dimm hrímþoka og þyrlurnar komu að engum notum.

Þá var ákveðið að senda þrjá menn á báti yfir á vesturbakkann að sækja kaðal sem nota átti til að draga svokallaðan forvír yfir ána. Forvírinn yrði svo notaður til að draga háspennuvírana yfir.

Haf háspennulínanna yfir Hvítá sem mastrið bar var 730 metrar. Kaðallinn var hafður 300 metrum lengri en hafið á milli bakka. Straumþunginn og ísrekið í ánni tóku svo mikið í kaðalinn að hann náði ekki yfir og stoppuðu þremenningarnir á eiði í ánni með kaðalendann. Landhelgisgæslumenn skutu þá af línubyssu yfir á eiðið og dugði sú lína til að ná kaðlinum yfir.

Straumur fyrir jól

Síðdegis á Þorláksmessu var farið að strengja fyrsta forvírinn yfir ána.

"Við settum upp staurasamstæðu til bráðabirgða í staðinn fyrir mastrið sem hrundi," segir Jón. "Rafmagnið komst á klukkan hálfsex á aðfangadag, hálftíma fyrir jól. Þetta var heilmikil törn. Við unnum baki brotnu nótt og dag í þrjá sólarhringa. Það voru eldingar og læti þegar við vorum að vinna við þetta og mikið rafmagn í loftinu. Ég var með tæplega fimm metra langan stiga sem hengdur var í arminn á staurnum og fékk oft rafstuð vegna spennunnar í loftinu. Ég man að við þurftum að skilja einn fasann eftir í hjóli fram yfir áramótin, gátum ekki tengt hann inn. Ég treysti ekki búnaðinum því vírinn var orðinn svo þungur."

Þeir Tryggvi og Jón töldu þetta með verstu tilvikum sem þeir lentu í varðandi línuslit. Að minnsta kosti var þetta langöflugasta línan sem hafði slitnað og mest í húfi að viðgerð tækist í tíma. Heilt álver í veði. En var nokkur líkamsorka eftir til að halda jól þegar slagnum lauk?

"Það var allt í lagi. Maður var svo hraustur í þá daga," segir Jón.

Tíðar rafmagnsbilanir

Jón Norðfjörð vann í 20 ár hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur áður en hann fór til Landsvirkjunar, þar sem hann starfaði í 29 ár. Hann segir að lengi vel hafi Sogslína eitt, sem flytur 66 kV, verið eina raflínan til Reykjavíkur. Á árunum 1945-50 hafi oft verið rafmagnslaust í Reykjavík.

"Sogslína 1 bilaði oft, var alltaf að lenda í brotum. Ef gerði óveður með ísingu þá slitnaði línan og brotnuðu staurar. Það var ekki svo sjaldan sem maður þurfti að þramma alla Mosfellsheiðina, jafnvel í klofsnjó, með þunga stauraskó um hálsinn og þungt verkfærabelti, að leita að biluninni. Maður var kannski með kaffibrúsa og eina brauðsneið í nesti. En þá var maður ungur og frískur," segir Jón og hlær.

Hann gekk með línunni vestan frá Mosfellsdal og annar gekk austan frá Sogsvirkjun. Þeir mættust síðan í Grafningnum þar sem línubíll beið eftir þeim. "Einu sinni eftir áramót, rétt fyrir 1950, fann ég bilun við Jórukleif. Þá hafði brotnað svokallað A-mastur, sem er eins konar lykilmastur og notað til að strekkja línuna. Það var alveg kubbað í sundur, ekki nema svosem eins metra bútar af staurunum sem stóðu upp úr. Það var alveg rosalegt að lenda í þessu." Jón segist oft hafa komist í hann krappan og oft verið kalt. "Okkur var sigað út í hvaða veður sem var til að finna bilunina sem fyrst."

Þegar Sogslína 2 var byggð 1953 batnaði ástandið mikið, að sögn Jóns. Það var 130 kV lína og jók mjög rekstraröryggi raforkukerfisins í Reykjavík. Jón vann bæði við að reisa möstrin og strengja vírinn í Sogslínu 2.

Slitrótt jólahald

Jón segist oft hafa misst af jólunum vegna vinnunnar. "Meðan ég var hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur var ég oft kallaður út í viðgerðir á jólunum, ekki síst á meðan stór hluti af bænum fékk rafmagn um loftlínur. Rafmagnið fór um jarðstreng í miðbænum en öll úthverfin að kalla voru með loftlínur. Þetta voru eilífar viðgerðir og útköll."

Vinna við rafvirkjun er hættustarf og oft mátti litlu muna hjá Jóni. "Ég var verkstjóri við byggingu línunnar milli Írafoss og Steingrímsstöðvar 1959. Við vorum að draga út vír og kaðallinn sem við notuðum fór á milli hjólsins og grindarinnar sem hékk neðan í einangraranum. Þetta var í 20 metra hæð yfir jörðu. Kaðallinn var alveg fastur og ég varð að losa hann. Einangrarinn var þriggja metra hár og festur í grindina efst í staurnum. Ég fór niður á einangrarann og ætlaði að fikra mig eftir skálunum að kaðlinum en einangrarinn var þá svo illa festur að það húrraði allt til jarðar. Einangrarinn, línan og allt draslið. Ég losaði mig við einangrarann í fallinu, svo hann lenti ekki á mér. Ég slapp þokkalega, en sneri mig illa á vinstri ökkla og hef aldrei náð mér fullkomlega. Maður lét þetta ekkert aftra sér, lá í hálfan mánuð í veikindafríi heima."

Hnefaleikakappi

Einu sinni var verið að flytja hús á stórum vagni vestur í bæ. Þegar kom að gatnamótum Hringbrautar og Framnesvegar þurfti að lyfta luktarlínu yfir mæninn. Jón fikraði sig á kaðli upp eftir snarbröttu þakinu, sem var glerhált vegna ísingar. Kaðalfestingin gaf sig þegar hann var að komast á mæninn. Jón skautaði af stað aftur á bak niður eftir þakinu. "Rétt áður en ég kom að rennunni spyrnti ég mér frá og það kom í veg fyrir að ég lenti á höfðinu. Þetta var tíu metra fall niður á götu. Ég lenti jafnfætis við hliðina á verkstjóranum. Það var svartamyrkur og hann hafði ekki séð hvað var að gerast á þakinu, svo honum brá mikið þegar ég lenti," segir Jón. "Það bjargaði mér að ég var íþróttamaður, kattliðugur og í góðu formi. Daginn eftir tók ég þátt í Íslandsmóti í hnefaleikum og vann. Ég var þrisvar sinnum Íslandsmeistari og oft félagsmeistari."

Jón telur að það hafi verið mistök að banna þessa íþróttagrein 1956. Hnefaleikar séu hin besta líkamsrækt, í þeim þjálfi menn þol, líkamsstyrk, fimi, árvekni og viðbragðsflýti. Sú þjálfun hafi komið honum vel í erfiðu starfi við að laga raflínur.