Mikil þáttaskil urðu í sögu Morgunblaðsins um áramótin, þegar Matthías Johannessen lét af starfi ritstjóra Morgunblaðsins eftir að hafa gegnt því í rúmlega 41 ár en hann kom fyrst til starfa á blaðinu árið 1951.

Mikil þáttaskil urðu í sögu Morgunblaðsins um áramótin, þegar Matthías Johannessen lét af starfi ritstjóra Morgunblaðsins eftir að hafa gegnt því í rúmlega 41 ár en hann kom fyrst til starfa á blaðinu árið 1951. Á þessum fjórum áratugum hefur Matthías Johannessen verið lífið og sálin í Morgunblaðinu. Hann hefur ekki einungis mótað blaðið sjálft, efni þess og hugmyndir heldur alið upp margar kynslóðir blaðamanna, sem bera nú uppi ritstjórn blaðsins.

Sjálfur starfaði Matthías fyrstu ár sín á Morgunblaðinu undir handarjaðri Valtýs Stefánssonar, sem var ráðinn ritstjóri að blaðinu árið 1924 og gegndi því til dauðadags, árið 1963. Sameiginlegur starfstími Valtýs og Matthíasar sem ritstjóra Morgunblaðsins nær yfir 76 ár af 87 ára sögu blaðsins og má fullyrða að slíkt samhengi í sögu fyrirtækis sé sjaldgæft.

Valtýr Stefánsson byggði Morgunblaðið upp í að verða stórveldi á íslenzkan mælikvarða á blaðamarkaðnum. Matthías tók við arfleifð Valtýs og skilar nú sameiginlegri arfleifð þeirra beggja í hendur gamalla og nýrra samstarfsmanna sinna á Morgunblaðinu á þann veg, að staða blaðsins hefur aldrei verið sterkari.

Í ritstjóratíð Matthíasar Johannessens hefur Morgunblaðið orðið eitt helzta vígi þeirra, sem barizt hafa fyrir varðveizlu og eflingu íslenzkrar tungu og menningar. Sársauki hans yfir vondri meðferð íslenzks máls á síðum Morgunblaðsins hefur rist djúpt og orðið sterk aðvörun til starfsmanna ritstjórnar um að vanda vinnubrögð sín.

Á dimmum dögum kalda stríðsins átti Matthías Johannessen manna mestan þátt í að opna Morgunblaðið fyrir skáldum og rithöfundum, sem voru ekki allir tilbúnir til að láta draga sig í dilka. Kalda stríðið var ekki síður háð á vettvangi menningarlífsins en stjórnmálanna. Þegar Morgunblaðið birtist sem öflugur málsvari frjálsrar menningar beindu andstæðingarnir ekki sízt spjótum sínum að hinum unga ritstjóra, sem hafði rekið fleyg í raðir þeirra. Það voru erfiðir tímar fyrir skáld, sem um skeið var ekki dæmdur af verkum sínum heldur á pólitískum forsendum.

Samt var það svo við lok kalda stríðsins, þegar yngri samstarfsmenn Matthíasar höfðu tilhneigingu til að láta kné fylgja kviði, að hann hvatti til umburðarlyndis og sátta gagnvart þeim, sem höfðu hvað harðast vegið að honum sjálfum á vettvangi menningarlífsins.

Þegar ljóst var orðið um og upp úr miðjum viðreisnaráratugnum, að ritstjórar Morgunblaðsins stefndu að því að rjúfa þau nánu tengsl, sem skapazt höfðu á milli blaðsins og Sjálfstæðisflokksins við allt aðrar og erfiðari aðstæður, töldu einstaka blaðamenn Morgunblaðsins á þeim tíma, að þetta verk væri hægt að vinna á einni nóttu. Það var mikill misskilningur.

Slík tengsl voru ekkert séríslenzkt fyrirbæri. Á flestum dagblöðum í nálægum löndum var á svipuðum tíma unnið að áþekkum breytingum í samskiptum dagblaða og stjórnmálaflokka.

Nú heyra þessi ágreiningsefni sögunni til og samskipti Morgunblaðsins við alla stjórnmálaflokka í eðlilegum farvegi.

Átökin á milli kommúnista og lýðræðissinna mótuðu Morgunblaðið mjög í ritstjóratíð Matthíasar Johannessens. Þau voru hörð og miskunnarlaus. Morgunblaðið stóð dyggan vörð um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin. Og stóð fast gegn kröfum um, að Ísland gengi úr Atlantshafsbandalaginu og segði varnarsamningnum upp, þegar verst gekk í þorskastríðunum. Þá var Morgunblaðið skrifað þvert á almenningsálitið í landinu.

Matthías Johannessen er höfundur að stefnu Morgunblaðsins í fiskveiðistjórnarmálum. Fljótlega eftir að kvótakerfið kom til sögunnar fór hann að tala við samstarfsmenn sína um þá vankanta á kerfinu, sem síðar urðu almennt viðurkenndir. Hann mætti litlum skilningi innan ritstjórnarinnar í fyrstu en síðar komu aðrir til sögunnar og tóku þátt í þeirri baráttu, sem hann hafði hafið.

Í ritstjóratíð Matthíasar Johannessens hefur Morgunblaðið orðið blað fólksins í landinu. Hann hefur verið óþreytandi í að hvetja blaðamenn Morgunblaðsins til þess að tala við alþýðu manna í stað þess að leita stöðugt á sömu mið og aðrir fjölmiðlar og hampa þeim, sem hafa nánast gert það að atvinnu sinni, að vera í sviðsljósi fjölmiðlanna.

Sjálfur sýndi hann þennan áhuga í verki með ógleymanlegum viðtölum, sem hann skrifaði fyrr á árum við alþýðufólk og listamenn, samtöl, sem eru merkileg heimild um mannlíf á Íslandi fram eftir tuttugustu öldinni.

Matthías Johannessen lagði áherzlu á það í ritstjórastarfi sínu, að Morgunblaðið ætti að vera jákvætt blað en ekki neikvætt. Að blaðið ætti að byggja upp en ekki rífa niður. Að blaðið ætti að vera opið en ekki lokað. Að blaðið ætti að sýna umburðarlyndi og virðingu gagnvart fólki en ekki vega fólk með orðum. Í þessari jákvæðu afstöðu gagnvart umhverfi sínu felst ekki sízt velgengni Morgunblaðsins.

Samstarfsfólki sínu á Morgunblaðinu hefur Matthías sýnt meira tilfinningalegt örlæti en hægt er að gera kröfu um til nokkurs manns. Þeir eru ófáir blaðamenn Morgunblaðsins, sem á undanförnum áratugum hafa fundið, að þeim leið betur eftir samtöl við Matthías á erfiðum stundum í lífi þeirra. Á slíkum tímum hafa þeir sótt kjark í samtöl við Matthías til þess að takast á við þá erfiðleika, sem að flestum steðja einhvern tíma á lífsleiðinni.

Þessi persónulegu samskipti ásamt hugmyndaauðgi Matthíasar og stundum hreinni snilld í meðferð daglegra viðfangsefna, hafa skapað það jákvæða andrúm á ritstjórn Morgunblaðsins, sem er ein mikilvægasta arfleifð Matthíasar.

Í brjósti samstarfsmanna Matthíasar Johannessens og þá ekki sízt þeirra, sem átt hafa við hann nánast samstarf á liðnum áratugum, býr djúpur söknuður á þessum tímamótum.

En jafnframt fylgja honum hlýjar óskir um, að hann geti nú í fyrsta sinn í hálfa öld notið þess frelsis að einbeita sér að skáldskap og öðrum ritstörfum.