Leikstjóri: Erik Fleming. Handrit: Matthew Flynn. Aðalhlutverk: Judge Reinhold og Alex D. Linz. (90 mín) Bandaríkin, 1999. Myndform. Leyfð öllum aldurshópum.

Menn skyldu gæta þess hvers þeir óska sér, og þá lexíu lærir Kathy eftir að hún breytir hrekkjóttum bróður sínum í svín. Þegar Kathy hefur tapað allri þolinmæði gagnvart litla bróður sínum, ná formælingar hennar athygli fornra galdrasteina sem barnapían geymir í herbergi sínu. Áður en hún veit hefur George litli breyst í forvitinn grís og eru þá góð ráð dýr. Eina vonin um að breyta George aftur í strák án þess að foreldrarnir fái að vita neitt, er að aka til Mexíkó þar sem göldrótt amma barnapíunnar býr. Segja má að þessi mynd sé hvorki góð né slæm. Söguefnið er nokkuð skondið og spennandi á köflum, ekki síst þegar George villist inn til brjálaðs slátrara í mexíkósku þorpi.

Heiða Jóhannsdóttir