"Það er algjör vitleysa að reykja, þú brennir peninga með því að kveikja," söng Ruth. Heyrirðu það, Leo!
"Það er algjör vitleysa að reykja, þú brennir peninga með því að kveikja," söng Ruth. Heyrirðu það, Leo!
NIÐURSTÖÐUR nýrrar rannsóknar í Bandaríkjunum sýna fram á að með því að reykja svo tíðlega í kvikmyndum hvetja Hollywoodstjörnur ungt fólk óbeint til að byrja að reykja.

NIÐURSTÖÐUR nýrrar rannsóknar í Bandaríkjunum sýna fram á að með því að reykja svo tíðlega í kvikmyndum hvetja Hollywoodstjörnur ungt fólk óbeint til að byrja að reykja.

Þrátt fyrir að kvikmyndaframleiðendum sé nú meinað með lögum að þiggja styrki frá tóbaksframleiðendum gegn því að auglýsa tóbaksvörur í myndum sjást engin merki þess að neysla tóbaks í kvikmyndum sé á undanhaldi, samkvæmt rannsókn sem birt er í breska læknaritinu The Lancet. Í rannsókninni var fylgst grannt með tóbaksreykingum í öllum myndum sem skipuðu 25 efstu sæti aðsóknarlistans bandaríska á árunum 1988-1997 - alls 250 myndum.

Og tölulegar niðurstöður reyndust sláandi: Tóbaksnotkun var sýnileg í 85% af myndunum 250 og sérstök tóbakstegund kom skýrt fram í 28% tilvika. Gilti þar einu hvort um var að ræða bannaðar myndir eða ekki og tóbakstegundir voru sýnilegar í næstum því jafnmörgum barna- og unglingamyndum og fullorðinsmyndum. Nokkrar myndir eru tíndar til þar sem ákveðnar tóbakstegundir eru áberandi, þ.ám. Ghostbuster II, Home Alone 2, Honey I Shrunk the Kids og Kindergarten Cop, Men In Black og The Nutty Professor.

Í rannsókninni var einnig athugað hvort dregið hefði úr tóbaksreykingum í kvikmyndum síðan bann á beinum tóbaksauglýsingum tók gildi 1989 en það reyndist ekki vera. Þvert á móti virðist tóbaksnotkunin hafa aukist stórlega í bandarískum bíómyndum síðustu árin og sérstaklega áherslan á ákveðnar tegundir.

Því er dregin sú ögrandi ályktun í niðurstöðum rannsóknarinnar að tóbaksframleiðendur séu enn á einhvern hátt að setja fé í kvikmyndaiðnaðinn í Hollywood. Lokaniðurstaðan er sú, líkt og í öðrum sambærilegum rannsóknum, að tóbaksdýrkunin í Hollywood og tíðar reykingar helstu Hollywoodstjarnanna á borð við Juliu Roberts og Brad Pitt geti ekki annað en haft neikvæð áhrif á baráttuna gegn tóbaksnotkun helstu aðdáenda þeirra, ungs fólks.