Thaksin Shinawatra greiðir atkvæði á kjörstað í Bangkok.
Thaksin Shinawatra greiðir atkvæði á kjörstað í Bangkok.
FLOKKI Thaksins Shinawatra, vinsæls auðjöfurs í Taílandi, var spáð stórsigri í þingkosningum sem fram fóru í gær.

FLOKKI Thaksins Shinawatra, vinsæls auðjöfurs í Taílandi, var spáð stórsigri í þingkosningum sem fram fóru í gær. Flest benti því til þess að Thaksin yrði næsti forsætisráðherra landsins þótt svo kunni að fara að hann verði sviptur embættinu síðar vegna ásakana um spillingu.

Samkvæmt útgönguspám taílenskra sjónvarpsstöðva fékk flokkur Thaksins, Thai Rak Thai (Taílendingar elska Taílendinga) um 200 þingsæti af 500 í neðri deild þingsins. Demókrataflokknum, undir forystu Chuans Leekpai forsætisráðherra, var spáð 100 þingsætum.

"Ég vil þakka taílensku þjóðinni fyrir að veita mér og flokki mínum umboð til að stjórna landinu," sagði Thaksin og lofaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að blása lífi í efnahag landsins.

Ákærður fyrir lögbrot

Ef marka má útgönguspárnar þarf Thaksin aðeins að tryggja sér stuðning eins eða tveggja flokka til að mynda nýja ríkisstjórn og taka við embætti forsætisráðherra. Hugsanlegt er þó að hann verði ekki lengi við völd því eftirlitsnefnd á vegum þingsins hefur ákært hann fyrir að brjóta lög með því að leyna hluta auðæfa sinna þegar hann var aðstoðarforsætisráðherra á síðasta áratug. Thaksin neitar sakargiftunum en komist stjórnlagadómstóll landsins að þeirri niðurstöðu að hann hafi gerst sekur um lögbrot verður honum bannað að gegna opinberu embætti í fimm ár. Hugsanlegt er því að hann verði sviptur forsætisráðherraembættinu og það gæti leitt til stjórnlagakreppu í landinu. Nokkrir stjórnmálaskýrendur hafa jafnvel varað við því að herinn kunni þá að taka völdin í sínar hendur eins og hann gerði fyrir tæpum áratug.

Bangkok. Reuters.