GETUR glergólf verið ógn við vinnuumhverfi, velsæmi og virðuleika? Starfskona vinnueftirlitsins í Berlín komst að þeirri niðurstöðu að svo væri eftir að hafa skoðað nýbyggt bókasafn í Neuköln-hverfinu í borginni.

GETUR glergólf verið ógn við vinnuumhverfi, velsæmi og virðuleika? Starfskona vinnueftirlitsins í Berlín komst að þeirri niðurstöðu að svo væri eftir að hafa skoðað nýbyggt bókasafn í Neuköln-hverfinu í borginni. Þar var lagt fimm fermetra glergólf og krafðist konan þess að byrgt yrði fyrir það svo að ekki væri unnt að horfa upp undir pilsfald kvenna sem gengju hjá.

Starfsfólkið, einnig konur, brást ókvæða við þessari kröfu en allt kom fyrir ekki. Röksemdir arkitekts hússins, sem reyndar er einnig kona, um fagurfræðilegt gildi gólfsins gegnsæja fengu ekki heldur hljómgrunn.

Eftirlitsmaðurinn krafðist þess að starfsmannaráðið ásamt fulltrúum allra verkalýðsfélaganna og vinnuveitenda Berlínarborgar kæmu saman til þess að ræða hvort glergólfið mætti vera áfram í húsinu. Fram að þeim fundi var ekki leyfilegt að nota það.

Þetta stranga eftirlit með siðgæðinu byggði vinnueftirlitið á vinnulögum frá 1896 sem enn eru í gildi og kveða á um að vinnuveitendum beri skylda til þess að fylgjast með velsæmi á vinnustað. En tímarnir breytast og mennirnir með. Starfsmannaráðið samþykkti einróma að ekki ætti að fjarlægja glergólfið og hefur það verið tekið í notkun á nýjan leik.