Anna Agnarsdóttir
Anna Agnarsdóttir
Anna Agnarsdóttir fæddist 14. maí 1947 í Reykjavík. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967 og lauk doktorsprófi í sagnfræði frá London School of Economics and Political Science 1989. Hún hefur starfað við kennslu og er nú dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Anna er gift Ragnari Árnasyni prófessor í hagfræði. Hún á tvær dætur og eina stjúpdóttur.
Anna Agnarsdóttir fæddist 14. maí 1947 í Reykjavík. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967 og lauk doktorsprófi í sagnfræði frá London School of Economics and Political Science 1989. Hún hefur starfað við kennslu og er nú dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Anna er gift Ragnari Árnasyni prófessor í hagfræði. Hún á tvær dætur og eina stjúpdóttur.

Sagnfræðingafélag Íslands stendur á næstunni fyrir nýrri fyrirlestraröð. Tíu fyrirlestrar verða haldnir í hádeginu annan hvern þriðjudag í Norræna húsinu milli klukkan 12.00 og 13.00. Nú á vormisseri er efni fyrirlestranna: Hvað er heimild? Fyrsta fyrirlesturinn flytur Anna Agnarsdóttir dósent þann 9. janúar n.k. En um hvað skyldi hún fjalla?

"Ég nefni minn fyrirlestur "Sannleiksgildi heimilda" og hann er hugsaður sem inngangur að þessari fyrirlestraröð. Ég kenni heimildafræðihlutann í aðferðafræðinámi sagnfræðinema við H.Í."

-Eru heimildir, sem sagnfræðingar vinna úr, yfirleitt traustar?

"Heimildagildi er mjög mismunandi og það er starf sagnfræðingsins að meta áreiðanleik þeirra heimilda sem þeir nota. Dæmi um traustar heimildir eru t.d. norrænar rústir í Nýfundnalandi og gripir sem hafa fundist þar sem sanna að norræn byggð hafi verið þar. Það er enginn sem efast lengur um að norrænir menn hafi komið til Vínlands. Dæmi um ótrausta heimild er t.d. einn rómverskur koparpeningur, hann sannar í sjálfu sér ekki mjög mikið. Dæmi um tiltölulega traustar ritheimildir eru t.d. prófskírteini en dæmi um ritheimildir sem sagnfræðingur þarf virkilega að rýna í eru sjálfsævisögur, t.d. stjórnmálamanna."

-Hver er hin fullkomna sagnfræðilega heimild?

"Ég tel að það sé afar erfitt að finna slíka heimild."

-Er erfitt að finna sannleikann í fortíðinni?

"Það er augljóslega auðveldara að komast að því sem er nálægt okkur í tíma. Það er t.d. mjög erfitt að slá því föstu að papar hafi komið til Íslands meðan engar minjar þeirra finnast á landinu. Við höfum fyrst og fremst ritheimildir um dvöl þeirra hér. Hins vegar eru líkindarök sem alla vega sannfæra mig um að það sé mjög líklegt að þeir hafi verið hér. En því nær sem dregur nútímanum þá ætti að vera hægara að slá ýmsu föstu. Við erum ekki í nokkrum vafa um hverjir eru ráðherrar landsins, en það er mjög mikilvægt að sagnfræðingar vinni úr margvíslegum heimildum og óháðum. Ein heimild segir manni ekki mikið, hún þarf staðfestingu annars staðar frá."

-Hvað með sannleiksgildi Íslendingasagna?

"Ég rannsaka ekki miðaldir en ég tel að Íslendingasögurnar hafi heimildagildi sem samtímaheimildir, þ.e. þær segja sagnfræðingnum heilmargt um samtíð höfundar."

-Er nýjum upplýsingum sagnfræðinga almennt trú að?

"Kristnihátíðin var haldin núna árið 2000 en Ólafía Einarsdóttir prófessor í sagnfræði við Kaupmannahafnarháskóla hefur leitt gild rök að því að kristni hafi verið lögtekin árið 999. Fólk vill almennt að það séu einhverjir fastir punktar í sögunni og oft gengur treglega að breyta viðteknum skoðunum, en rannsóknir sagnfræðinga eru alltaf að leiða eitthvað nýtt í ljós. Mikil gróska er núna í rannsóknum sagnfræðinga."

-Hvað hefur þér komið mest á óvart í sagnfræðirannsóknum nútímans?

"Kosningar Bandaríkjaforseta um daginn. Þetta voru ótrúlegar kosningar fyrir sagnfræðing að fylgjast með. Svo má nefna opinbera ævisögu Ronalds Reagans, þar sem heimildir voru hreinlega skáldaðar. Þetta þótti mjög sérkennilegt."

-Er algengt að heimildir séu falsaðar?

"Nei, það er nefnilega svo erfitt að falsa heimildir í dag þar sem sérfræðiþekkingin er orðin svo mikil. Það komst t.d. mjög fljótlega upp um eina frægustu fölsun síðustu aldar, dagbækur Hitlers. Hins vegar finnst mér furðulegt að það sé ekki enn komin endanleg niðurstaða sem allir geta samþykkt, hvort Vínlandskortið fræga sé falsað eður ei."

-Hverjir fleiri verða með fyrirlestra á næstunni?

"Næstur verður Friðrik Skúlason ættfræðingur sem fjallar um ættfræði og gagnagrunna. Svo er fyrirlestur Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar mannfræðings: Auga, skynjun og heimild. Orri Vésteinsson fornleifafræðingur fjallar um fornleifar og samtímann. Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur spyr spurningarinnar: Er eitthvað á minnið að treysta? Már Jónsson sagnfræðingur fjallar um efnið: "Heimildir sem heimildir um heimildir." Jón Jónsson sagn- og þjóðfræðingur talar um söguna til sýnis og sölu. Róbert Haraldsson heimspekingur ræðir um sannleik og heimild og spyr hvort þetta séu einstök vandamál eða almennt klúður? Kristjana Kristinsdóttir fjallar um skjalasöfn í Þjóðskjalasafni Íslands. Loks talar Matthías Viðar Sæmundsson íslenskufræðingur um efnið: Lykt, bragð og óhljóð í heimildum.