ÞEGAR bilun kom upp í tækjabúnaði vegna Cantat 3-sæstrengsins á föstudagskvöld lá allt netsamband Landssímans vestur um haf niðri en langflest millilandasímtöl fóru um gervihnött. Sambandið komst á eftir tæpa tvo tíma.

ÞEGAR bilun kom upp í tækjabúnaði vegna Cantat 3-sæstrengsins á föstudagskvöld lá allt netsamband Landssímans vestur um haf niðri en langflest millilandasímtöl fóru um gervihnött. Sambandið komst á eftir tæpa tvo tíma. Orsök bilunarinnar liggur ekki nákvæmlega fyrir en talið er að magnari í legg frá Eyjum og út í sæstrenginn hafi bilað. Þar til varanleg viðgerð fer fram er sambandið leitt framhjá þessum magnara.

Þrátt fyrir bilunina urðu engar rekstrartruflanir hjá Íslandssíma sem leiddi öll sín fjarskipti vestur um haf, bæði símtöl og netsamband, um Bretland og þaðan vestur. Aðspurður sagði Bergþór Halldórsson, framkvæmdastjóri fjarskiptasviðs Landssímans, að varaleiðin fyrir netsamband, kæmi upp bilun í Cantat 3, væri gervihnattasamband. Slíkur flutningur tæki ákveðinn tíma og kæmi ekki til nema strengurinn væri slitinn eða bilunin varanleg um nokkurn tíma.

"Viðmiðið hjá okkur er að við flytjum netsambandið yfir á gervihnött eftir um það bil fjóra tíma. Okkur hefur þó ekki alltaf tekist að halda því þar sem fleiri koma að sæstrengnum en við, allt frá Evrópu til Ameríku. Við vorum búnir að kalla út þá menn sem þurftu að vinna við breytinguna yfir á gervihnött. Þar sem bilunin var við Ísland sáum við aftur á móti að viðgerð gæti tekið skamman tíma enda var sambandið komið á innan tveggja tíma," sagði Bergþór.