Starfsmenn slysarannsóknadeildar Volvo í Svíþjóð.
Starfsmenn slysarannsóknadeildar Volvo í Svíþjóð.
Umferðarrannsóknadeild Volvo fagnar nú 30 ára afmæli sínu. Deildin hefur á þessum þremur áratugum rannsakað árekstra fólksbíla í því skyni að auka öryggi eigin framleiðslu.

Umferðarrannsóknadeild Volvo fagnar nú 30 ára afmæli sínu. Deildin hefur á þessum þremur áratugum rannsakað árekstra fólksbíla í því skyni að auka öryggi eigin framleiðslu.

Volvo segir að reynslan úr raunveruleikanum sé ómetanleg í rannsóknarstarfinu en hún sé þó aðeins brot af því starfi sem unnið sé innan deildarinnar.

Deildinni var formlega ýtt úr vör í lok árs 1970 í beinu framhaldi af viðamikilli könnun um umferðaröryggismál í Svíþjóð sem Volvo vann árunum 1966 og 1967. Yfirstjórn fyrirtækisins sá kosti þess að samtvinna þekkingu sem varð til við rannsóknir á raunverulegum umferðarslysum við sína eigin vöruþróun. Sjónum var einkum beint að tveimur meginþáttum strax frá upphafi, þ.e. nákvæmri rannsókn á umferðarslysum á slysavettvangi og gagnasöfnun og -skoðun með upplýsingum frá eigin tryggingafélagi, Volvia.

Náið samstarf við sjúkrastofnanir

Upp úr slíku starfi þróaði Volvo m.a. SIPS-hliðarárekstravörnina sem frumkynnt var í Volvo 850. Síðan hefur komið á markað WHIPS-vörnin sem vinnur gegn hálshnykkjum, sem eru einhver algengustu meiðsli í bílslysum og auk þess viðamikill búnaður sem miðar að aukinni vörn barna í bílum. Rannsóknardeild Volvo vinnur í nánu samráði við björgunarsveitir sem koma á slysstað og gera deildinni aðvart ef Volvo-bifreið á í hlut. Á slysstað safna rannsóknarmennirnir öllum viðeigandi gögnum sem lúta m.a. að smáatriðum slyssins og afleiðingum þess. Læknir er starfandi innan rannsóknadeildarinnar og safnar gögnum í samvinnu við sjúkrastofnanir um meiðsli farþega. Rannsóknardeildin hefur komið á nánu og árangursríku samstarfi við öll helstu sjúkrahús í landinu.

Rannsakað um 28 þúsund slys

Rannsóknardeildin vinnur síðan að enn frekari gagnaöflun með tjónadeild Volvia tryggingafélagsins sem starfandi er um alla Svíþjóð.

Í þau þrjátíu ár sem rannsóknadeildin hefur verið starfandi hefur hún rannsakað um 28 þúsund slys þar sem í hlut hafa átt yfir 40 þúsund manns. Með nákvæmri skoðun á gögnum sem deildin hefur safnað hefur reynst unnt að ákvarða með nokkurri vissu hvaða meiðsli tilteknar gerðir árekstra valda.

Öllum upplýsingunum er síðan miðlað til verkfræðinga Volvo og þeirra hlutverk er að bæta öryggisbúnað bílanna og þróa nýjar varnir gegn algengustu og þar með mikilvægustu orsökum meiðsla sem verða í árekstrum.