Veitingastaðurinn Sandwich & friend hefur getið sér gott orð fyrir  samlokurnar sem hann býður upp á.
Veitingastaðurinn Sandwich & friend hefur getið sér gott orð fyrir samlokurnar sem hann býður upp á.
Þeir sem eru sælkerar og til í að panta mat með húmorísku ívafi eða fá sér samloku sem heitir í höfuðið á þeim geta heimsótt öðruvísi veitingahús sem Margrét Hlöðversdóttir mælir með í Barcelona.

Það er varla nema fyrir sælkera með stóru essi að leyfa sér þann munað að sitja heila kvöldstund á veitingahúsinu Espaisucre og raða í sig á annan tug fjölbreyttra og gómsætra eftirrétta. Þeir segja að þetta sé eina veitingahúsið í Barcelona sem sérhæfi sig eingöngu í eftirréttum og þetta eru ekki bara venjulegum eftirréttir, heldur framreiddir og bornir fram á mjög frumlegan máta.

Ódýrar samlokur

Rétt handan við hornið er ný tískubóla unga fólksins í Ribeira hverfinu, Sandwich & friends, þar sem hægt er að gæða sér á ódýrum samlokum í þægilegu og smart umhverfi og hægt að merkja sér samlokurnar, þannig að í annað skipti þurfi maður ekki annað en að segja nafnið sitt til að fá sömu samloku og síðast. Allt miðast að því að umhverfið og þjónustan séu sem persónulegust.

Töfrandi súkkulaðifondú

Rétt hjá, í einni af þessum margra alda gömlu byggingum í örmjórri götu, er að finna pínulítinn Fondú-veitingastað, La Carassa, sem býður upp á töfrandi gott súkkulaðifondú innan um gamla antikmuni og til að fanga athygli þjónsins þarf ekki annað en að klingja í gamalli kúabjöllu sem hefur verið komið fyrir á borðum.

Það eru ekki kúabjöllur á borðum veitingahúsanna Seproniana og Coses de Menjar en þar ber hins vegar fyrir augu listaverk úr gömlum antíkgöfflum, eins og servíettuhringirnir og ljósakrónurnar, að ekki sé minnst á listaverkið úr brotnu diskunum, svo lengi mætti telja. Staðirnir hafa ekki bara til að bera skapandi hönnun frá hólfi til gólfs, heldur ber útlit réttanna þess líka merki að þarna vinni fólk sem hafi gaman af því sem það er að gera og leyfi frumkraftinum að njóta sín. Þarna er hægt að fá hefðbundinn spænskan mat með húmorísku ívafi, eins og til dæmis lasagna með svörtum pylsum sem bragðast eins og slátur og bacalao eða saltfisk með perum og marmelaði. Skemmtilegir staðir þar sem bragðlaukum hinna kröfuhörðustu ætti að verða vel fullnægt.

Bóhemstaðurinn El Salón er kannski þekktari fyrir fjölbreytta flóru fólks en fjölbreyttan matseðil og hér ætti enginn að stinga í stúf sem myndi kannski annars stinga í stúf í miðborginni.

Fágað umhverfi

Vilji maður hins vegar hreiðra um sig í fágaðra umhverfi er tilvalið að hreiðra um sig í hinu tælenska afdrepi Barcelonaborgar, Thai Garden, þar sem ekki er ólíklegt að umhverfið og ljúffengur matur dragi mann með sér til Bangkok í örskotsstund. Ekki er hægt annað en minnast á hina sígildu og vinsælu veitingastaði borgarinnar sem ófáir Barcelona-búar hafa prófað og maður veit að klikka ekki, enda sami eigandi að þeim öllum; Agua, Tragaluz, Acontraluz, Negro eða El Japones.

Ekki má svo gleyma því að hér á Spáni borða menn hádegismat á bilinu eitt til fjögur og kvöldverð á bilinu níu til tólf og afgreiðslutímarnir í samræmi við það.