K onungsbókhlaðan (Det kongelige Bibliotek) í Kaupmannahöfn var sett á stofn árið 1661 af hinum bókelska Friðrik 3., fyrsta einvaldi Dana. Safnið skiptist í tvær deildir; Gammel og Ny kongelig samling.

K onungsbókhlaðan (Det kongelige Bibliotek) í Kaupmannahöfn var sett á stofn árið 1661 af hinum bókelska Friðrik 3., fyrsta einvaldi Dana. Safnið skiptist í tvær deildir; Gammel og Ny kongelig samling. Þeirri fyrrnefndu heyrir til handrit í arkabroti (folio) sem ber skráninganúmerið GKS 1009, en er oftar kallað Morkinskinna þó að skinn þess sé ekki morkið. Þó ber handritið aldurinn með sér og ber þess vitni að ekki hefur verið til sparað við gerð þess.

Morkinskinnuhandritið er íslenskur dýrgripur frá 13. öld og síðastliðin sjö ár hefur Ármann Jakobsson íslenskufræðingur velt því og efni þess fyrir sér. Senn lýkur hann doktorsnámi þar sem lokaritgerðin er uppgjör rannsókna Ármanns á merkri gjöf Brynjólfs biskups Sveinssonar til Friðriks 3. Danakonungs árið 1662. Það var Morkinskinna sem síðan hefur verið geymd í konungsbókhlöðunni í Kaupmannahöfn.

"Haustið 1994 skrifaði ég stutta námsritgerð á meistarastigi um þætti í Morkinskinnu, en margir þeirra eru allfrægir og frægari en Morkinskinna sjálf," segir Ármann um upphaf rannsókna sinna. Hann segist hafa fjallað um þætti þessa í samhengi sögunnar og það hafi reynst vera upphafið að því verki sem nú hyllir undir lok á.

"Eftir gerð þeirrar ritgerðar var ég samt enn óánægður og fannst sem ég væri rétt að byrja á þessu efni. Síðan er það orðin bók sem verður í endanlegri mynd um 300 síður."

Ármann fjallaði nánar um konungsmynd íslenskra konungasagna í meistaraprófsritgerð sinni tveimur árum síðar og úr varð bókin Í leit að konungi. Í þeirri bók var talsvert fjallað um Morkinskinnu, þ.e. þá hlið sem sneri að konungsmynd. Morkinskinna skipaði þó ekkert öndvegi í þeirri bók og sökum sívaxandi áhuga á ritinu afréð Ármann að rannsaka efni þess nánar og velta þá betur fyrir sér formgerð ritsins, samfélagsmynd og ýmsu öðru en humyndum um konunga. Er sú rannsókn doktorsverkefni hans í íslensku við Háskóla Íslands. Hún hefur þegar vakið nokkra athygli þrátt fyrir að vera ekki komið út í endanlegri mynd, m.a. vegna tveggja erinda vísindamannsins erlendis, annars vegar í mars 1997 á ráðstefnu í Osló í Noregi og í ágúst sama ár á alþjóðlega fornsagnaþinginu í Þrándheimi.

"Þetta efni mitt vakti satt að segja nokkra athygli og það styrkti mig vitaskuld til að halda ótrauður áfram. Þegar þarna var komið við sögu hafði ég fyrst og fremst fengist við uppruna Morkinskinnu og form. Ég réðst að mörgu leyti til atlögu við fyrri hugmyndir fræðimanna sem voru þess efnis að Morkinskinna væri ekki alvöru konungasaga heldur aðeins einhvers konar handrit með sögum og ekki höfundarverk eins manns. Ég hóf að kanna hver rökin á bak við það væru og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki byggt á jafn ítarlegum rannsóknum og margir halda og ýmsar gloppur í rökfærslunni. Þetta hefur verið haft fyrir satt án þess að vera mikið rætt og tengist mati manna á sögunni; allt sem þótti kauðslegt og lélegt var talið vera innskot yngri afritara," segir hann.

Þættirnir eru engar viðbætur

Ármann bendir á að í tilfelli Morkinskinnu hafi hið listræna viðmið verið Heimskringla Snorra Sturlusonar. Allt í Morkinskinnu sem var frábrugðið Heimskringlu hafi verið talið e.k. villa, frávik eða viðbætur af einhverjum toga og almennt til hins verra. Ármann segir að það verði aldrei sannað nákvæmlega hvað hafi staðið í elstu gerð Morkinskinnutextans. Hins vegar séu rökin fyrir miklum breytingum og innskotum ónóg.

"Þættir Morkinskinnu voru meðal þess sem talið voru viðbætur í ritinu, smásögur," heldur Ármann áfram. "Þannig kynntust Íslendingar þáttunum í barnaskólum og þeir sem hafa lesið þætti á borð við Auðunar þátt vestfirska vita ekki eða fá ekki að vita að um sé að ræða kafla úr stórri sögu. Þegar nánar er að gáð finnast lítil sem engin rök fyrir því að þættir þessir séu innskot. Það er í raun fyrst og fremst spurning um smekksatriði hvort mönnum þykja þeir falla inn í heildarmynd sögunnar. Í ritgerð minni eyði ég talsverðu púðri í að sýna fram á að þeir falli hreint alls ekki illa að heildinni. Þvert á móti rími efni og þræðir í þáttunum við efni annars staðar í sögunni.

Þannig fjallar Auðunar þáttur vestfirska um deilur tveggja konunga og við lesum hann jafnan sem sögu af Íslendingi sem fer til tveggja konunga og skiljum ekki endilega ástandið milli þeirra af lestri þáttarins eins og sér. Sé hann á hinn bóginn lesinn í samhengi við annað efni Morkinskinnu kemur í ljós að deilurnar höfðu mikil áhrif á sögu konunganna tveggja. Eins er með fleiri þætti, þeir hafa bein áhrif á annað efni bókarinnar. Enn aðrir þættir hafa það ekki og því útúrdúr frá sjónarmiði fléttunnar. Ég tel hins vegar að þessir þættir hafi í ýmsum tilvikum efnisleg vensl við söguna sem heild. Það er nefnilega þá sem ýmsar hugmyndir sagnaritarans, m.a. um konungsvald og margt annað, koma fram."

Öðruvísi fagurfræði en í Heimskringlu

Að mati Ármanns er fagurfræði Morkinskinnu allt annarrar gerðar en Heimskringlu Snorra. Í þeirri fyrrnefndu sé margleitni í formgerð með tilheyrandi útúrdúrum og útskýringum en Heimskringla falli betur að hefðbundnari viðmiðum um upphaf, ris og endi.

"Ég held að höfundi Morkinskinnu hafi ekki þótt neitt athugavert við þessa aðferð. Enda er aðeins um annars konar listrænan skilning að ræða. Þetta þarf alls ekki að vera sönnun þess að fleiri en einn maður, jafnvel margir, hafi lagt til efni í Morkinskinnu, jafnvel á löngum tíma."

Ármann segir það athyglisverða koma í ljós að margt í formgerð Morkinskinnu sé í samræmi við það sem gerðist í evrópskum ritum þess tíma. Ritið sé þannig á margan hátt ólíkt Íslendingasögunum og hinu séríslenska formi þeirra en hins vegar fremur líkt evrópskum bókmenntum suðurálfu, t.d. riddarabókmenntum.

Hann bendir einnig á að hvað efnisinntak varðar megi færa fyrir því rök að margt sé sameiginlegt í samfélagsmynd Morkinskinnu og því sem einkennir Riddararsögur. Í því sambandi megi nefna aðalpersónurnar; konunga og hirðmenn. Áhersla sé lögð á margvíslegt skraut og hluti, glysið sem tengist hirðlífinu, stigveldi og samskipti kynjanna, svo eitthvað sé nefnt.

Nafnið á ekki vel við

Í ritgerð Ármanns er því lýst hvernig Brynjólfur biskup eignaðist ýmis handrit á vísitasíuferðum um landið, en hann var mikill bókasafnari. Eitt þessara handrita var það sem löngu síðar hlaut viðurnefnið Morkinskinna en ævintýramaðurinn Þormóður Torfason, sem atvinnu hafði af því að þýða og skrifa upp íslensk handrit í Hinu konunglega bókasafni í Kaupmannahöfn, fékk það frá Brynjólfi á söfnunarferð sinni fyrir konung 1662. Segir að ekkert sé vitað um sögu handritsins áður en Brynjólfi áskotnaðist það, lítið sé um spássíukrot í því og ekkert af því hjálpi að varpa ljósi á tilurðina. Það sé hins vegar svo glæsilegt, að alla tíð hljóti það að hafa verið í eigu stórmenna.

Morkinskinna er árið 1662 skráð í riti um nýkomin handrit sem Regum qvorundam Norvegorum historia. Í meðförum Þormóðs hlýtur það viðurnefnið Morkinskinna, eða putrida membrana, þá orðið um fjögurra alda gamalt. Segir Ármann það nafn ekki eiga vel við. Síður handritsins séu hreint ekki svo morknar og almennt sé það í giska góðu ástandi, sérstaklega borið saman við íslensk handrit almennt.

Handrit Morkinskinnu var notað árið 1832 til hliðsjónar við gerð ritraðarinnar Fornmanna sagna, 6. og 7. bindis sem Þorgeir Guðmundsson skrifaði upp og enginn annar en Rasmus Christian Rask las yfir. Árið 1867 komst Morkinskinna sjálf á prent í Osló sakir dugnaðar Norðmannsins Unger og er þar um að ræða fyrri útgáfu þá sem til er. Hin síðari var verk Finns Jónssonar og kom út 1928-1932 sem 53. bindi ritraðar á vegum Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur. Báðar þessar útgáfur eru stafréttar, en einnig er til ljósprentuð útgáfa af Morkinskinnu, en hún kom út árið 1934 á vegum Jóns Helgasonar.

Ekki aðgengileg íslenskum lesendum

Ármann segir það athyglisvert að allar þessar útgáfar séu ætlaðar fræðimönnum. Morkinskinna hafi þannig aldrei verið gefin út handa almenningi hér á landi, enda þótt Íslendingaþættir hennar hafi verið birtir hér og hvar. Af þessum sökum hafi fjarska fáir lesið Morkinskinnu og engin íslensk útgáfa ritsins sé í deiglunni. Þetta sé þeim mun merkilegra þar sem nýkomin sé út vönduð þýðing Theodore M. Andersson og Kari Ellen Gade á ensku á vegum Cornell University Press. Morkinskinnu sé með öðrum orðum unnt að lesa á ensku, enda þótt hún sé ekki enn aðgengileg með samræmdri stafsetningu á frummálinu.

"Þetta er vitaskuld mjög bagalegt og veldur því að sagnfræðingar sem vilja fræðast um atburði og samfélag hér á landi á 13. öld sækja nær einvörðungu í Heimskringlu til að afla heimilda. Staðreyndin er hins vegar sú að Snorri Sturluson sækir margt í efni Heimskringlu beint í Morkinskinnu og endursegir og styttir," segir Ármann ennfremur og nefnir sem dæmi um þetta frásögn af Miklagarðsævintýri Haralds harðráða. Frásögn Snorra í Heimskringlu sé nokkurs konar stytting á því sem segir í Morkinskinnu um sama mál.

"Morkinskinna er í raun og veru sambærileg Heimskringlu. Að minnsta kosti að umfangi, kannski ekki að gæðum þótt slíkt sé vitaskuld aðeins smekksatriði. Hins vegar eru þessi rit skrifuð undir áhrifum svo ólíkrar fagurfræði að vart verða borin saman. Engum vafa er hins vegar undirorpið að höfundur Morkinskinnu, sem í þessari sögu tekst á við eigin ævi og það sem honum þykir skipta máli við hlutskipti sitt sem hirðmaður og skáld, er eitt af stórskáldum íslenskra miðalda. Hver svo sem hann var," segir Ármann.

BJÖRN INGI HRAFNSSON bingi@mbl.is