Þorgerður Einarsdóttir
Þorgerður Einarsdóttir
Um samfélagið sem mannanna verk. Þorgerður Einarsdóttir. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Háskólaútgáfan, 2000.

BRYDDINGAR er safn ritgerða og greina sem höfundur hefur látið frá sér fara undanfarin ár. Greinarnar eru samtals fjórtán, sú elsta frá 1987, en hinar frá 1993 og upp úr. Allar fjalla þær um samskipti kynjanna og stöðu í nútíma samfélagi, utan ein, Evrópa í spánýju ljósi, sem gerir grein fyrir kenningum sænska félagsfræðingsins Görans Therborns. Þorgerður útskýrir í formála að þótt þessa grein skorti kynjavíddina hafi henni þótt viðeigandi að láta hana fylgja með, þar sem hún skírskotar svo kröftuglega til "samfélagsbyggingarinnar sem mannlegrar sköpunar". Í rannsóknum sínum og könnunum á samskiptum og stöðu kynjanna í samfélaginu gengur Þorgerður hiklaust út frá þeirri sannfæringu að misréttið milli kynjanna sé mannanna verk og sé af þeim sökum með öllu yfir markið skotið þegar menn skjóta sér undan ábyrgð með vísunum í eðlisbundna eiginleika kynjanna. Þorgerður sýnir fram á það á nokkuð írónískan máta hversu fjarstæðukennt þetta viðhorf kemur til með að líta út þegar því er gefið vægi í rannsóknum.

Hún segir þetta viðhorf einkum birtast í því að konum sé kennt um lága stöðu sína í stað þess að skuldinni sé skellt á samfélagsleg viðhorf til kynbundinna starfa og starfsskilyrða. Samkvæmt því er þá engin tilviljun að konur flykkist í vanmetin störf og þiggi lág laun fyrir vandasama vinnu sem krefur á um álíka mikla menntun og sambærileg karlastörf, sem einhverra hluta vegna eru vegin miklu þyngra á samfélagslegum vogarskálum. Kvenlegra eðliseiginleika sinna vegna eru þær einfaldlega illfærar um að taka að sér karllega skilgreind störf, burt séð frá því hvort þau útheimti meiri lagni, menntun, eða úthald. Írónískum tóninum bregður hvað eindregnast fyrir í greininni um stöðu kvenna í háskólasamfélaginu, þar sem Þorgerður gerir grein fyrir slíku viðhorfi í dönsku háskólasamfélagi. Þar þvertaka menn fyrir að lúta einhverjum jafnréttislögum og halda því til streitu að sá hæfasti muni ávallt komast áfram í slíku lýtalausu samfélagi hálærðra manna sem þeirra ku vera. Reyndin hefur orðið sú að danskar konur standa mun verr að vígi en konur í norrænum nágrannalöndum. Í framhaldi af því sér Þorgerður sér ekki annað fært en að íhuga hvort þær dönsku séu þá kannski snauðari af hæfileikum en starfssystur þeirra í nágrannalöndunum? Með því að undirstrika þá sannfæringun sína í sífellu að samfélagsbyggingin sé mannanna verk tekst Þorgerði að vísa slíkum viðhorfum á bug sem fáránlegum. Hún lætur í raun í veðri vaka að slík trúarbrögð kveði á um að konur séu, þegar öllu er á botninn hvolft, verr úr garði gerðar en karlar. Og er vonandi enginn tilbúinn til að trúa því.

Grein sína um Leyndardóma læknastéttarinnar: kynbundið val lækna á sérgreinum, byggir hún á doktorsritgerð sinni. Þessi grein þótti mér einna áhugaverðust fyrir þá sök að vera vandlega unnin samanburðarrannsókn og draga fram í dagsljósið sjálfgefin og afar fornfáleg viðmið um kven- og karlhlutverk innan viðkomandi starfsstéttar. Þorgerður skoðar þar ástæður þess að konur finni sig knúðar til að taka að sér vanmetin störf innan læknisfræðinnar. Setur hún fram sannfærandi rök fyrir því að konur fælist slík störf af þeim ástæðum einum að þau eru körlunum ætluð. Þær velja sér skiljanlega starfsvið sem samfélagið hefur úthlutað þeim, hvort sem sú kynskipting á við rök að styðjast eða ekki. Hér sem annar staðar virðist mér allra helst vaka fyrir Þorgerði að lýsa upp vettvanginn og velta vöngum yfir allskyns einkennum og skýringum. Hún tekur sjaldan af skarið um hvað sé "raunverulega" á seyði, en lætur nóg uppi til að lesendur geti velt vöngum yfir vandamálinu, og vel það.

Efnistökin þykja mér bæði skýr og vönduð, gætir t.d. hvergi predikunartóns eða forneskjulegra úrræða. Þorgerður tekur mið af fyrirferðarmestu nálgunum á kynjamisréttið nú til dags og fellur ekki í þá gryfju að etja saman konum og körlum sem svörnum erkióvinum. Hún telur kynjafræðina vera það sem taka þurfi við af kvennafræðum og leggur töluvert upp úr áhrifamætti kynbundinnar orðræðuhefðar og samfélagsformgerða. Eftir sem áður dregur hún ekki dul á það að við mennina eina sé að sakast og komi það því í þeirra hlut að bæta úr kynjamisréttinu. Athuganir hennar á íslensku samfélagi þykja mér góðar. Hún hefur góða yfirsýn yfir stöðu mála á Norðurlöndum og beitir óspart gagnlegum samanburði. Hún endurskoðar þar að auki oftast nær eldri greinarnar og sýnir fram á hvaða breytingar hafa orðið. Slíka viðbót kallar hún: Horft um öxl.

Ég saknaði þess að nokkru að Þorgerður gerði grein fyrir grundvallarkenningum um jaðarstöðu, kvenleika og karlleika, samfélagslega þöggun og orðræðuvald, sem greinilega grundvalla efnistök hennar. Hún gerir sjaldan grein fyrir slíkum kenningarlegum bakgrunni og hefði ég að minnsta kosti viljað sjá því stað í eftirmálsgreinum. Þá er á það að líta að Þorgerður hefur bersýnilega einsett sér að gera úr garði aðgengilegt greinarsafn. Hún færir flókna hluti yfir á auðskilið mál og fer yfirleitt lipurlega með, en sýnist mér þó hafa mátt liggja betur yfir málfari í einstökum greinum.

Ragna Garðarsdóttir