Leikstjóri, handritshöfundur og klipping: Jón Egill Bergþórsson. Texti: Sonja B. Jónsdóttir, Jón Egill Berrgþórsson, Salvör Nordal. Tónskáld: Karl Olgeirsson. Kvikmyndatökustjóri: Karl Lilliendahl. Heimildarmynd. Sýningartími: 60 mín. Sýnd í Sjónvarpinu 25. des. Nýja bíó. Árgerð 2000.

Á BARNASKÓLAÁRUNUM þótti manni undur og stórmerki að höfundur einna fegurstu ættjarðarljóðanna, þrunginna væntumþykju og virðingu, var lengst af búsettur í ljósárafjarlægð frá yrkisefninu, vestur í Kanada. Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephansson (1853-1927) var engu að síður jafnan mikill Íslendingur þótt höf og lönd skildu hann frá fósturjörðinni mestan hluta ævinnar. Manni lærist fljótt að slíkt er smámunir þegar hugheilar tilfinningar eru annars vegar.

Heimildarmynd Jóns Egils Bergþórssonar, Að láta ekki baslið buga sig, sýndi okkur einnig að Stephan G. náði einnig að festa rætur í nýjum heimkynnum, í Alberta-fylki í Kanada, eftir að hafa leitað fyrir sér sunnan landamæranna. Myndin hefst á svipmyndum frá æskustöðvum Stephans, sem skírður var Stefán Guðmundur Guðmundsson, norður í Skagafirði, á ofanverðri 19. öld. Foreldrar hans voru fátækt fólk, líkt og flestir okkar forfeður. Hokruðu á nokkrum bæjum, leystu síðar upp heimilið og réðu sig í vinnumennsku er Stephan var kominn hátt á tvítugsaldur. Hann vistaður annað. Þá voru söguleg hafísa- og harðindaár, fólk flosnaði unnvörpum upp af kotum sínum. Þúsundum saman lagði alþýðan upp í mestu fólksflutninga Íslandssögunnar, vestur um haf. Fjölskyldan sameinaðist aftur er hún lagði land undir fót, hélt til Kanada árið 1873, eftir erfitt ferðalag um Skotland til Québec. Sú borg var enn einn áningarstaðurinn á langri leið, við tók lestarferð sem endaði í Milwaukee í Bandaríkjunum. Þar var lífsbaráttan lítið óvægari en í Skagafjarðarbyggðum, áfram hélt Stephan og settist næst að í Íslendingabyggðinni í N-Dakóta. Það var ekki fyrr en hann kom til Alberta, norður í Kanada, að fyrirheitna landið var loks fundið. Stephan gekk að eiga frænku sína, Helgu, eignaðist börn og buru og bjó frá 1889 til dauðadags í skjóli fjallanna miklu í Kanada.

Jón Egill segir sögu skáldsins á lifandi og fróðlegan hátt. Notar mikið landakort og landslagstökur sem hann blandar leiknum atriðum úr lífshlaupi Stephans, þar sem afkomendur hans eru í aðalhlutverkum. Útkoman snjöll og einkar viðunandi heimid, vandvirknisleg að allri gerð. Eftir sýningu er áhorfandinn mun betur að sér um einstæðan mann, sem fyrst og fremst var þjóðskáld tveggja heima. Hugur Stephans jafnan nátengdur Íslandi, þjóðinni og sögunni, en gerðist smám saman elskur að sínum nýju heimkynnum, sem hann yrkir svo fallega um, t.d. í Sveitin mín: "... einn með þér gott er að ganga." Textahöfundar vitna í kraftmikinn, myndríkan og tilfinningaþrunginn skáldskap sem kveikir löngun til frekari kynna.

Áhorfandinn fær jafnframt innsýn í veraldleg umsvif bóndans og framkvæmdamannsins, sem treyst var til ábyrgðarstarfa í hinu nýja bændasamfélagi í Alberta þar sem Stephan braut land og reisti Espihól, sitt framtíðarheimili. Gerð grein fyrir róttækum skoðunum hans á þjóðfélagsmálum, óbeit á stríði og auðvaldshyggju. Sú kenning hrakin að Stephan hafi verið kaldlyndur, jarðbundinn efasemdamaður, heldur var hann viðkvæmur tilfinningamaður sem kaus að eiga með sjálfum sér sínar innstu tilfinningar eða setja þær, af alúð og yfirlegu, á blað. Að velja afkomendur Stephans og Helgu í hlutverk þeirra gefur heimildarmyndinni sannan tón, færir okkur nær viðfangsefninu. Að láta ekki baslið smækka sig er vel heppnaður minnisvarði um mikilvægan mann í menningarsögu lítillar þjóðar, leiftur frá liðinni tíð sem er höfundum til sóma og okkur til ánægju og fróðleiks.

Sæbjörn Valdimarsson