VERSLUNIN Nettó hyggst bregðast harkalega við niðurstöðu verðkönnunar sem Morgunblaðið stóð fyrir á fimmtudaginn, en í henni kom í ljós að innkaupakarfan í Nettó í Mjódd er tæplega 29% dýrari en í Bónusi í Holtagörðum og um 27% dýrari en í Krónunni í...

VERSLUNIN Nettó hyggst bregðast harkalega við niðurstöðu verðkönnunar sem Morgunblaðið stóð fyrir á fimmtudaginn, en í henni kom í ljós að innkaupakarfan í Nettó í Mjódd er tæplega 29% dýrari en í Bónusi í Holtagörðum og um 27% dýrari en í Krónunni í Skeifunni. Elías Þorvarðarson, verslunarstjóri Nettó, sagði að Nettó skilgreindi sig áfram sem lágvöruverðsverslun og myndi því lækka vöruverð í kjölfar könnunarinnar, en hann sagði að verðmunurinn lægi að mestu í grænmeti og ávöxtum.

"Það er alveg ljóst að við fengum þarna ákveðinn rassskell, en það er alveg á hreinu að þessi munur verður aldrei liðinn," sagði Elías. "Við munum bregðast mjög harkalega við þessu og ég vonast til þess að Morgunblaðið geri aðra könnun á næstunni því að ég tel það af hinu góða þegar fylgst er svona með þessu. Ég vona að neytendur verði með augun á markaðnum á næstunni og sjái hvað fer í gang núna." Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri hjá Bónusi, sagðist vera mjög ánægður með niðurstöðu könnunarinnar.

"Þetta segir sig sjálft, við erum ódýrastir og höfum verið það í ellefu ár og það verður engin breyting á því," sagði Guðmundur en bætti við að samkeppnin á matvörumarkaðnum hefði sjaldan verið harðari en núna. "Kúnninn greiðir atkvæði með fótunum - hann fer þangað sem hann telur sig fá mest fyrir peningana og því er okkar stefna skýr: að bjóða alltaf besta verðið."

Ekki marktækur munur á verði í Bónusi og Krónunni

Guðmundur vildi ekki segja hvers vegna Bónus væri þetta mikið ódýrari en Nettó. "Við erum bara að vinna okkar vinnu og þeir eru greinilega að fara einhverjar aðrar leiðir." Aðeins munaði 42 krónum á innkaupakörfu Bónuss og Krónunnar, en Guðmundur vildi þó ekki viðurkenna að Krónan væri helsti keppinautur Bónuss í dag. "Við erum í samkeppni við alla."

Sigurjón Bjarnason, framkvæmdastjóri Krónunnar, sagðist vera mjög sáttur við niðurstöðu könnunarinnar. Hann sagði að munurinn á verði í Krónunni og Bónusi væri innan skekkjumarka og því ekki marktækur. "Innkoma okkar á þennan markað hefur komið neytendum verulega til góða og við munum halda áfram að gera eins vel og hægt er í að halda verðinu lágu. Við fórum inn á þennan markað til þess og munum halda okkar striki."