[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SKRÝTINN er hann en skemmtilegur, leikarinn Nicolas Cage, sem á afmæli í dag og verður heilla 35 ára, blessaður. Vonandi verður kátt hjá honum í höllinni, en hann býr víst í gervikastala í útjaðri Englaborgarinnar svo hann ætti að geta boðið nógu fólki.

SKRÝTINN er hann en skemmtilegur, leikarinn Nicolas Cage, sem á afmæli í dag og verður heilla 35 ára, blessaður. Vonandi verður kátt hjá honum í höllinni, en hann býr víst í gervikastala í útjaðri Englaborgarinnar svo hann ætti að geta boðið nógu fólki.

Nicolas er mikil steingeit, með áhrifamiklar stjörnur; sólina, merkúr og mars, í merkinu því arna. Sólarstaðan gerir hann að íhaldssömum manni, áhrifaríkum, duglegum og áreiðanlegum.

Merkúr er stjarnan sem ræður rökhugsun, skarpskyggni, skynsemi, munnlegum samskiptum og gagnrýni. Hann ætti því að vera mjög hagsýnn, vill vera skipulagður og tjá sig á agaðan hátt. Mars sem ræður vinnukrafti, löngunum og baráttuvilja gerir hann að hagsýnum vinnukrafti, sem vill byggja upp og ná áþreifanlegum árangri.

Tungl sem stjórnar heimili og tilfinningum hefur Nicolas í vog, merki jafnvægis og samvinnu, sem þýðir að hann er tilfinningalega ljúf, vinaleg og kurteis manneskja sem langar að eignast fallegt heimili og samstillt fjölskyldulíf. Ekki hefur það gengið eftir, allir vita að hjónaband hans og leikkonunnar Patriciu Arquette hefur gengið heldur brösuglega. Því má kannski kenna um að hún er hrútur og ef hann er mikil steingeit í sér á hann bágt með að þola hvatvísi hrútsins, frekju og hamagang.

Eða það að Nicolas er með Venus, sjálfa ástarstjörnuna, í vatnsbera, merki sjálfstæðis og nýjunga, sem þýðir að honum finnst mjög gaman að kynnast nýju fólki, alls konar fólki, en hefur jafnframt mikla þörf fyrir að vera sjálfstæður og frjáls.

Rísandi stjarna fólks segir til um persónulegan stíl, ímynd og framkomu fólks, hvernig það kýs að sýna sig heiminum. Og Nicolas er rísandi bogmaður. Hann virkar því opinn og vinalegur, og viðbrögð hans við öðrum eru blátt áfram og einlæg. Stundum gæti hann þó virkað of hispurslaus og hreinlega taktlaus, en þá er hann bara að horfa á hlutina í heimspekilegu ljósi, ekki persónulegu.

Rísandi bogmenn eru gjarna hávaxnir og grannir og eiga það til að lúta. Þeir hafa langa útlimi, og bæði menn og konur eru oft beinastór. Hárið er oft mikið og liðað en menn eiga það til að verða sköllóttir snemma. Vandamálasvæðin eru mjaðmir og lifur og þeir eiga til að borða og drekka of mikið. Þeir hafa heilbrigt viðhorf til kynlífs og mikið líkamlegt þol þegar kemur til átaka á því sviðinu og ættu að velja sér mótspilara með sömu eiginleika.

Tunglið er í tvíbura í dag í henni Kaliforníu, og gæti Nicholas því orðið eirðarlaus á afmælisdaginn og langað til þess að gera breytingar á lífi sínu. Stemmningin í veislunni verður sjálfsagt mikil þar sem þetta gerir fólk taugastrekkt sem leiðir til þess að það talar meira og hreyfir sig hraðar. Fólk finnur þörf til þess að tjá sig, segja frá nýjum hugmyndum, þótt flestir ættu að fara varlega í efnum í henni Hollywood. Enda verður fólk forvitnara en vanalega og drekkur í sig hvaða upplýsingar sem er. Fleiri sem eiga afmæli eru Rod Stewart sem verður 56 ára á miðvikudaginn, hvort sem hann vill það eða ekki. Kóngurinn sjálfur, Elvis Presley, hefði orðið 66 ára á morgun, hefði hann lifað.