Wagon R+ er orðinn nokkuð laglegur bíll.
Wagon R+ er orðinn nokkuð laglegur bíll.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SUZUKI Wagon R+ er fyrir nokkru kominn til Íslands í sinni nýju og breyttu mynd og er hann sannast sagna allmikið og vel endurbættur.

SUZUKI Wagon R+ er fyrir nokkru kominn til Íslands í sinni nýju og breyttu mynd og er hann sannast sagna allmikið og vel endurbættur. Wagon R kom fyrst fram í heimalandinu, Japan, árið 1993 og hafa alls verið framleiddar 1,3 milljónir bíla af þessari gerð. Nýja gerðin var kynnt fyrir Evrópubúum snemma á síðasta ári og hefur verið að ná inn á markaði í flestum löndum álfunnar síðustu mánuðina. Suzuki-bílar bjóða bæði handskiptan bíl og sjálfskiptan og er verðið 1.150 þúsund krónur og 1.250 þúsund.

Wagon R er ekki stór eða mikill en mun stærri og meiri bíll en sýnist hið ytra. Helst er að vélaraflið mætti vera meira en ekki er á allt kosið í bíl í lægri verðflokkunum.

GM framleiðir hliðstæðan bíl undir heitinu Opel Agila en hann er byggður á grunnhugmyndinni frá Suzuki. GM hefur hins vegar séð um hönnun hið innra og þykir slíkt samstarf hafa gengið vel upp. Hvor framleiðandi um sig býður eigið úrval véla.

Er líka laglegri

Wagon R er bæði orðinn stærri og laglegri bíll en fyrsta útgáfan og talsvert meira í hann spunnið með meiri búnaði. Bíllinn er 3,5 m langur og hefur lengst um 10 cm og hjólahafið 2,36 m. Breiddin er einnig meiri, er nú 1,62 m og hefur verið aukin um 4,5 cm. Hann er því rúmbetri en var og þótt ekki sé hann stór eða mikill er hann drýgri en sýnist. Hið ytra hafa helstu horn og línur verið mýktar með bogadreginni áferð en lagið er hið sama og hjólin virðast áfram lítil þótt þau séu það ekki í reynd. Er bíllinn á 14 þumlunga felgum.

Sætin eru líka orðin verklegri og þægilegri og talsvert meira lagt í allan innri búnað. Þannig eru framstólarnir vel boðlegir og aftursætin þokkaleg en þar er þó enginn afgangur af rými fyrir fætur. Einn helsti kosturinn við Wagon R, sem er svipað og á við um aldrifsbílinn Ignis sem var kynntur á dögunum, er að menn setjast beint inn í bílinn, hvorki þarf að beygja sig né teygja. Þessi staðreynd er þýðingarmeiri en menn gera sér grein fyrir, ekki síst þeir sem eru vel liðugir. En fyrir þá sem eru farnir að stirðna og kannski eldast er þetta afskaplega verðmætur kostur í bíl.

Vélin í Wagon R er 1,3 lítrar, fjögurra strokka og 76 hestöfl. Snúningsvægið er 115 Nm við 3.500 snúninga. Hún er sæmilega hljóðlát nema þegar hún er krafin um ítrasta viðbragð og furðu rösk á handskipta bílnum. Í þeim sjálfskipta finnst ökumanni skiptingin niður stundum koma of seint og því skal fremur mælt með þeim handskipta sem vilja ráða skiptihraðanum sem mest sjálfir. En sjálfskipta gerðin er þægileg, ekki síst í innanbæjarskakinu.

Aðallega á malbiki

Notkun á Suzuki Wagon R verður líka trúlega mest innan þéttbýlis og ekki sérlega skemmilegt að þeysa mjög mikið um þjóðvegi á þetta litlum bíl. Á varanlegu slitlagi er það þó vandalaust en tæpast er unnt að mæla með honum ef menn þurfa að ferðast mikið á malarvegum.

Miðað við það sem í boði er má því hiklaust benda á Wagon R sem góðan kost í þéttbýli. Umgengni er góð, vél þokkaleg og rými yfirleitt nóg fyrir daglega notkun eins til tveggja á ferð. Verðið ætti því ekki að fæla menn frá þessum kosti og ekki skaðar heldur að eyðslan er uppgefin 6,1 lítri í blönduðum akstri en sá sjálfskipti eyðir hins vegar um 9 lítrum í þéttbýli.

Ódýrari gerðin af Suzuki Wagon R+, GA gerðin, kostar 1.085.000 kr. en sú dýrari, GL, kostar 1.150 þúsund með fimm gíra handskiptingu og sú sjálfskipta kostar 1.250 þúsund krónur.

jt