James Beattie hefur sérhæft sig í skorun glæsilegra marka í vetur.
James Beattie hefur sérhæft sig í skorun glæsilegra marka í vetur.
GRÍS, sögðu margir þegar James Beattie, miðherji Southampton, skoraði eitt af mörkum leiktíðarinnar á Ljósvangi í Sunderland - með viðstöðulausu skoti af um fjörutíu metra færi.

GRÍS, sögðu margir þegar James Beattie, miðherji Southampton, skoraði eitt af mörkum leiktíðarinnar á Ljósvangi í Sunderland - með viðstöðulausu skoti af um fjörutíu metra færi. Sveiflan minnti á Tiger Woods og tuðran sveif eins og örn í aðflugi yfir aumingja Thomas Sörensen í markinu. Daninn var varnarlaus. Hundaheppni! Eða hvað? "Menn eru sífellt að spyrja mig hvort ég hafi ætlað að skjóta, eins og ég hafi haft eitthvað annað í huga," segir skyttan sjálf. "Ég sá að markvörðurinn stóð framarlega og lét skeika að sköpuðu - svo einfalt er málið. Ég smellhitti boltann og sá að flugið var gott. Þetta var aðeins spurning um það hvort hann næði yfir markvörðinn og undir slána. Fái ég annað tækifæri af þessu tagi mun ég reyna aftur!" Brattur, Beattie.

Samt voru ekki allir sannfærðir og sveit sjónvarpsmanna birtist á Staplewood Park, æfingasvæði Southampton, nokkrum dögum síðar. Menn voru æstir. Áskorunin var einföld: Þú færð þrjár tilraunir til að endurtaka leikinn! Beattie hugsaði sig ekki um tvisvar. Reimaði á sig skóna. Hann sveiflaði hægri fæti. Skotið fór framhjá. Tilraun tvö fór á sömu leið. Nú hlakkaði í sjónvarpsmönnum. Beattie beit á jaxlinn. Og viti menn, þriðja skotið leið um loftið - og þandi út netmöskvana. Bíngó! Fullnaðarsigur! Beattie brosti út að eyrum. Sjónvarpsmenn boruðu í nefið. Aumir. Sé þetta tölfræðin, þriðja hvert skot af fjörutíu metra færi á rammann, er ekki amalegt að hafa James Beattie í sínu liði.

Tíu mörk í ellefu leikjum

Ekki þurfti raunar undramarkið til. Aðdáendur Southampton báru hinn tæplega 23 ára gamla Beattie þegar á höndum sér. Hann hefur verið í svakalegu formi á síðustu vikum og mánuðum. Skorað mörk í öllum regnbogans litum, tíu stykki í ellefu síðustu leikjum og í sex heimaleikjum í röð. Ef marka má tölfræðina á heimasíðu Southampton skorar miðherjinn úr fjórða hverju skoti. Sjálfstraustið vellur út um eyru og nef.

Dýrlingarnir væru eflaust illa staddir án hans. "Við værum í vandræðum. Það er næsta víst. Hann hefur svo sannarlega staðið sig í stykkinu og skorar nú mörk eins og að drekka vatn. Í hvert sinn sem hann nálgast markið finnst honum að hann muni skora. Þannig virkar sjálfstraustið. James er líka í stöðugri framför hvað varðar hreyfingu án bolta og fyrstu snertingu. Hann hefur ekki sagt sitt síðasta orð," segir Glenn Hoddle knattspyrnustjóri.

Aldeilis ekki.

"Mörkin hlaðast upp hjá mér og liðinu í heild hefur vegnað vel. Það er þrælgaman að leika knattspyrnu um þessar mundir," segir Beattie. "Því fleiri mörk sem framherji skorar þeim mun öruggari verður hann í leik sínum. Vonandi held ég áfram á sömu braut. Það yrði frábært að skora í hverjum leik en ég veit að það mun ekki gerast. Markmiðið er að halda sætinu í liðinu og leggja sitt af mörkum til að Southampton hali inn stig. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að halda sæti okkar í úrvalsdeildinni. Við flytjum á nýjan og glæsilegan völl á næsta tímabili og það yrði hræðilegt að bjóða fólki upp á fyrstu deildar fótbolta þar."

Liðtækur í lauginni

Southampton er heldur ekki líklegt til að heltast úr lestinni. "Andinn í liðinu er frábær og á góðum degi getum við unnið hvaða lið sem er. Með aðeins meiri stöðugleika er ég sannfærður um að við höfum burði til að komast í hóp sex bestu liðanna í landinu," segir Beattie.

Athygli vekur að hann fór ekki að æfa knattspyrnu af krafti fyrr en hann var orðinn fjórtán ára. Lagði kapp á sund á yngri árum. Var til að mynda annar besti skriðsundsmaður Englands í sínum aldursflokki.

Markaskorarinn þakkar sinn árangur einum manni öðrum fremur. "Glenn Hoddle hefur unnið frábært starf með mér. Hann hefur dregið mig afsíðis og leiðbeint mér. Sagt mér hvað ég eigi að gera og hvernig. Þetta hefur enginn gert í annan tíma. Glenn hefur stórbætt leikskilning minn. Hefur lagt sérstaka áherslu á hreyfingu innan vítateigs - að finna rýmið. Fyrir vikið hef ég bætt mig verulega. Glenn er stórbrotinn þjálfari og það er mín gæfa að hann álíti mig þess verðugan að leiðbeina mér." Þarna er styrk Hoddles lýst í hnotskurn. Bara að aumingja maðurinn hefði munninn fyrir neðan nefið. Þá væri hann líkast til enn með enska landsliðið á sinni könnu.

Og Beattie hefði hæglega getað verið hjá öðru liði líka. Í byrjun október samþykkti Southampton nefnilega kauptilboð Crystal Palace í kappann - 2,6 milljónir sterlingspunda. Leikmaðurinn neitaði hins vegar að fara. Vildi ekki leika í fyrstu deild.

Í ljósi síðustu atburða er þetta ótrúlegt. Hið sanna í málinu er hins vegar að Beattie byrjaði leiktíðina illa, rétt eins og hann lauk þeirri síðustu. Skoraði ekki eitt einasta mark í átján deildarleikjum í fyrra - kom aðeins sjö skotum á mark - og var grátt leikinn af meiðslum. Lái því hver sem vill Hoddle að hafa ekki trú á honum. Stjórinn virðir þó þrjóskuna við piltinn - og hrósar ugglaust happi.

"James hefur verið mjög þolinmóður. Beðið átekta eftir tækifærinu. Þegar það gafst lét hann aldeilis til sín taka," segir Hoddle.

Sendir Sveinn eftir honum?

Styrkur Beatties felst ekki síst í líkamlegu atgervi. Hann er sterkur sem naut. Það hefur hver landsliðsmaðurinn af öðrum fengið að reyna. Gareth Southgate og Sol Campbell gengu báðir sneyptir af velli eftir glímuna við hann. Pilturinn er auðvitað afbragðs skytta, eins og komið hefur fram, á stuttu færi og löngu, og ekki síðri skallamaður. Í þessu formi er ekki annað að sjá en hann hafi allt sem til þarf. Minnir jafnvel á sjálfan Alan Shearer, þegar hann var upp á sitt besta. Það er ekki leiðum að líkjast. Sven-Göran, hefurðu augun hjá þér?

Sveiflurnar í leik Beatties hafa þó verið miklar frá því hann kom í skiptum fyrir Kevin Davies frá Blackburn sumarið 1998. Gekk raunar upp í kaupverðið á Davies. Hann hafði getið sér gott orð við markaskorun í unglingaliði Blackburn og gerði til að mynda fimmtíu mörk einn veturinn. Gekk þó illa að vinna sér sæti í aðalliðinu. Lék aðeins sjö leiki fyrir Blackburn.

Beattie náði sér fljótt á strik á The Dell, meðan Davies leið vítiskvalir hjá Blackburn. Sá síðarnefndi hitti ekki einu sinni gömlu góðu fjósdyrnar. Beattie skoraði raunar ekki mörg mörk, alls fimm í 35 deildarleikjum um veturinn og eitt til viðbótar í deildabikarnum, en lék vel, einkum á lokasprettinum, þegar Dýrlingarnir háðu enn eina baráttuna fyrir lífi sínu. Stóð kappinn loks uppi sem leikmaður ársins hjá félaginu.

Fyrir þá sem ekki vita sneri Davies heim á The Dell eftir rúmt ár hjá Blackburn, eftir fall niður um deild. Hann styður nú við bakið á Beattie í framlínunni. Þegar honum er treyst.

Beattie er aftur á móti á beinu brautinni og hyggst ekki líta til baka.

Orri Páll Ormarsson skrifar