½ Leikstjóri: Mary Harron. Handrit: Mary Harron, Guinevere Turner. Byggt á samnefndri skáldsögu Bret Easton Ellis. Aðalhlutverk: Christian Bale, Willem Dafoe, Reese Witherspoon, Chloe Sevigny og Jared Leto. (101 mín.) Bandaríkin, 2000. Sam-myndbönd. Bönnuð innan 16 ára.

SKÁLDSAGA Bret Easton Ellis, American Psycho, kom út árið 1991 og vakti strax miklar deilur. Lýsing Ellis á lífi siðblinda verðbréfabraskarans og raðmorðingjans Patrick Bateman var svo blóði drifin að mörgum þótti nóg um. En bókin er ekki eingöngu morðsaga heldur felur hún í sér beitta gagnrýni á velmegunardýrkun og efnishyggju uppasamfélagsins í New York og má hiklaust lýsa American Psycho eina af mikilvægustu skáldsögum síðasta áratugar. Margir hafa látið þau orð falla að skáldsagan sé ókvikmyndunarhæf, enda hafa ráðagerðir um kvikmyndun hennar staðið yfir í fjölmörg ár. Það er því einkar ánægjulegt að sjá hversu vel leikstýrunni Mary Harron hefur tekist til með aðlögun sögunnar yfir í samnefnda kvikmynd. Harron afgreiðir ofbeldisþáttinn snyrtilega, þ.e. með því að gefa meira í skyn heldur en að sýna. Hún og meðhandritshöfundurinn leggja aftur á móti mikla rækt við það að draga fram menningarumhverfið og tíðarandann á Manhattan hinna nýríku á níunda áratugnum. Þá er miðlað á meðvitaðan hátt þeim hugsunarhætti sem er allt í kringum Bateman (sem leikinn er frábærlega af Christian Bale), nær hámarki í hans persónuleika og getur af sér skrímsli. Amerískur vitfirringur er án efa meðal bestu mynda ársins auk þess sem hér er á ferðinni ein snjallasta kvikmyndaaðlögun sem ég hef séð lengi.

Heiða Jóhannsdóttir