[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin þekkta gjafavöruverslun Tékk-Kristall fyllti þriðja áratuginn á síðasta ári en þar hafa hjónin Erla Vilhjálmsdóttir og Skúli Jóhannesson staðið vaktina frá upphafi. Byrjuðu smátt og eiga í dag traust og rótgróið fyrirtæki.

Skúli segir um Erlu konu sína að hún hafi nánast fæðst fullskapaður verslunarmaður og aðeins tíu ára gömul hafi hún gengið á fund Óskars í Sunnubúðinni í Hlíðunum og beðið um vinnu. "Já, mér fannst þetta alltaf spennandi. Ég spurði Óskar hvort ég mætti vinna fyrir hann, vigta vörur og svoleiðis. Hann þyrfti ekkert að borga mér. Þetta gekk eftir, fljótlega var ég komin bak við borðið hjá honum með hvítan kappa og næstu árin vann ég ýmis verk hjá honum," segir Erla.

Erla og Skúli giftust ung og voru með tvo unga syni þegar Tékk-Kristall kom til sögunnar, Erla hafði unnið hjá Brauðbæ og Skúli hjá Vísi sáluga sem auglýsingastjóri og síðar við fjármálastjórn, og hélt því starfi áfram um skeið eftir að verslunarreksturinn var kominn í fullan gang.

Tékkneskur kristall

Tveir bræður Erlu komu að rekstrinum í upphafi, þeir ráku innréttingaverslun á Skólavörðustíg 16 og í hluta af því húsnæði opnaði Tékk-Kristall verslun sína, í nóvember 1970, en fljótlega var hún alfarið í höndum Erlu og Skúla og flutti verslunin að Laugavegi 15, í hús Ludvig Storr.

"Í fyrstu hét verslunin einfaldlega Kristall," segir Skúli, "en vegna þess að þá var starfrækt sælgætisgerð með nafninu Crystal var ákveðið af tillitssemi við eigendur þess fyrirtækis, að breyta nafninu í Tékk-Kristall. Stóð til að einbeita sér að innflutningi hins heimsþekkta Bæheimskristals frá Tékkóslóvakíu, sá kristall er einstaklega tær, skurðurinn og handverkið allt unnið af listamönnum, þessi listiðn hefur gengið í ættir mann fram af manni. Þó að vöruúrvalið hafi breyst gífurlega mikið og aðeins brot af því sé Bæheimskristall höfum við ekki viljað breyta nafninu á versluninni."

Það er sem sagt minnst af tékkneskum kristal í versluninni Tékk-Kristal?

"Já, það er nú þannig," svara þau hjón, "ástæðurnar eru margar. Ein er sú að á þessum árum tók það ótrúlega marga mánuði og allt upp í ár að ná vörum út úr gömlu Tékkóslóvakíu. Einnig vildum við auka vöruúrvalið og snerum okkur mikið til Ítalíu, Þýskalands og Austurríkis, þar sem eru miklar hefðir fyrir kristals- og postulínsvinnu auk mikils úrvals af öðrum fallegum húsmunum. Í dag höfum við varla tölu á þeim löndum sem við höfum verslað við, en vöruúrvalið hefur líka aukist gífurlega mikið, má þar nefna ýmis húsgögn, gluggatjöld, dúka, púða og margt fleira að ógleymdum matar- og kaffistellunum, hnífapörunum og glösunum, en magninnkaup á þessum vörum í dag gera þær ótrúlega ódýrar, og vörurnar koma nú víða að, jafnvel frá Kína, Indlandi og Mexíkó." Þau stoppuðu stutt á Skólavörðustígnum og fluttu fljótlega í húseign Ludwigs Storr á Laugavegi 15 eins og fyrr var sagt, og var verslað þar í tuttugu ár. Þau nefna að skemmtilegt og lærdómsríkt hafi verið að kynnast Storr-hjónunum og þar hafi tekist mikil vinátta. "Margir þekkja búðina frá þessum tíma og þar eignuðumst við fjölmarga viðskiptavini sem hafa haldið tryggð við okkur æ síðan," segir Skúli og bætir við að í árslok 1992 hafi þau lokað verslun sinni við Laugaveginn, en þá höfðu þau opnað stóra og myndarlega verslun við Faxafen í Skeifuhverfinu. Það hafi verið kominn doði í verslun á Laugaveginum eftir að Kringlan var opnuð.

Kringlan eða Fenin?

Þau Erla og Skúli eru í ákjósanlegri aðstöðu til að bera saman gæði verslunarstaðsetninga, með verslanir bæði í Fenjunum og í Kringlunni og áður á Laugaveginum. Þau segja bæði að Kringlan sé góður staður og verslunin þar gangi afar vel, en þegar upp sé staðið skili verslunin í Fenjunum meira. Munurinn á Laugaveginum og Faxafeni þegar þau fluttu 1992 hafi hins vegar verið gífurlegur og hafi þau verið með tugum prósenta ef ekki yfir hundrað prósenta betri sölu í Faxafeni heldur en á Laugaveginum.

"Við veltum því aldrei fyrir okkur að Fenin væru eitthvað áhættusöm í þessum skilningi. Okkur sýndist að upp væri að rísa veglegur verslunarkjarni og þetta svæði er vel staðsett gagnvart stórum íbúðabyggðum. Hér er gífurleg umferð og fer vaxandi. Auk þess eru hér vinsælir veitingastaðir, nokkrir stórmarkaðir, margar fataverslanir, húsgagnamarkaður og lengi mætti telja. Allt styður þetta hvað við annað og laðar að fjölda fólks. Þetta er meiri háttar verslunarhverfi," segja þau hjón.

Það kemur dálítið á óvart að þið gefið Fenjunum betri einkunn en Kringlunni?

"Það er einfaldlega staðreynd, en við erum jú bara að tala um okkar verslanir. Vel má vera að aðrir segi aðra sögu, en við eigum sem betur fer stóran og góðan hóp viðskiptavina og ótrúlega mörgum finnst betra að koma í verslun okkar í Faxafeni, fljótlegt og þægilegt, ætla sér ekki að fara í búðaráp, vita að hverju þeir ganga hér og geta svo farið. Við lifum jú á tímum þar sem allir eru að flýta sér og aðgengi verslana þarf að vera gott. Við sögðum áðan, að Kringlan væri góður verslunarstaður, en stærsti gallinn við Kringluna er sá að stjórn hússins hefur ekki hlotnast sú gæfa að standa sig eins og fyrirliði sem fer fyrir liði sínu, hvetur þá og hjálpar þeim til heilla, þvert á móti eru því miður ótal dæmi um að reynt sé að bregða fæti fyrir samherjana. Síðasta dæmið, sem er að gerast þessa dagana, er þrenging á aðgengi sem felur í sér að taka í burtu rúllustiga í húsinu sem gerir viðskiptavinum erfitt fyrir, og minnkar og takmarkar allt flæði fólks í húsinu. Þetta er gert í trássi við vilja meirihluta verslunareigenda og á ekki eftir að laða fólk í Kringluna."

Þetta gæti hljómað eins og ófremdarástand?

"Við getum orðað það þannig," segir Skúli, "að þetta sé erfitt og þrúgandi. Það kemur alveg til greina að bregða búi í Kringlunni. Það er ekki útilokað."

Hvað tæki þá við, ef af yrði, önnur verslun, t.d. í Smáranum?

"Um það er ekkert hægt að segja á þessu stigi. Fólk sem er í viðskiptum verður að fylgjast vel með því sem er að gerast og þar af leiðandi fylgjumst við að sjálfsögðu vandlega með því hvað um er að vera í Smáranum jafnt sem öðrum stöðum.

Mikið breyst

Fólk sem staðið hefur jafn lengi í eldlínunni og þau Erla og Skúli muna tímana tvenna. "Mikil breyting hefur orðið í verslun á þessum árum, kalkipappírinn sem var ómissandi við bréfaskriftir á árum áður er horfinn, ljósritunarvélar sem telja mátti á fingrum annarrar handar áður fyrr eru ómissandi í hverju fyrirtæki í dag.

Faxvélin sem þótti meiriháttar tækniundur fyrir örfáum árum hefur orðið að hopa fyrir Netinu, stórmarkaðir hafa lagt kaupmanninn á horninu að velli og lengi má upp telja," segir Skúli og bætir við að Erla hafi alla tíð verið andlit Tékk-Kristals, verið hinn sýnilegi stjórnandi í verslununum, en sjálfur hafi hann verið baka til á skrifstofunni, en einnig sinnt félagsmálum, verið í stjórn Kaupmannasamtakanna til margra ára, einnig í stjórn Vinnuveitendasambandsins og öðrum störfum sem tengjast versluninni.

"Verslanirnar hafa verið eins og ungbörn í höndum góðrar móður," segir Skúli um Erlu, sem bætir við, "ég tel að þeir sem hafa starfað hér hafi lært margt, en þeir hafa einnig gefið okkur mikið. Okkur hefur haldist vel á starfsfólki, margar hafa verið hjá okkur í áratugi, og ungar skólastúlkur sem unnið hafa hjá okkur með skólanum, hafa komið til okkar árum saman í afleysingum eða aftur til starfa, t.d. eftir barneignir. Þetta er eins og stór fjölskylda og það er ljúft."

Erla heldur áfram og rifjar upp breytt verslunarumhverfi hvað tolla varðar, "Þegar við byrjuðum var 70% lúxusgjald á vörum þessum og 30% vörugjald í ofanálag. Og þá fékk kristalskertastjaki enn fremur 15% aukatoll því hann var kallaður "lýsingartæki". Sá tollur er raunar enn við lýði. Það má vera að þessir háu tollar og þar af leiðandi hátt verð hafi gert það að verkum að fólk var í mörg ár að safna sér matar- og kaffistelli, keypti einn og einn disk í einu og lét svo gefa sér t.d. í afmælis- eða jólagjöf í stellið. Enn eimir eftir af þessu þó að stell séu orðin ótrúlega ódýr, en hlutur í stellið er jú kærkomin gjöf.

Það koma tískustraumar í þessa hluti eins og aðra og stundum eru matar- og kaffistell, já og glasalínur, ekki mjög langlíf. Þegar breytingar eiga sér stað hjá framleiðendum erlendis er litli markaðurinn á Íslandi aldrei spurður. En samt sem áður erum við að selja nokkur matar- og kaffistell og einnig glös sem við byrjuðum með fyrir 30 árum, þetta eru sannarlega sígildar vörur.

Núna eru tollaálögur miklum mun minni en áður og meiri möguleikar að kaupa inn og selja ódýrt, jafnvel hágæðavörur. Eitt dæmi frá síðustu dögum er um 18 gæðakristalsglös í gjafakassa fyrir tæpar 3.000 krónur. Nútímalegur greiðslumáti eins og raðgreiðslur hjálpar fólki í dag til að eignast söfnunarvöru hraðar. Þá gerum við meira af því núorðið, að stafla vörum út á gólf, verðmerkja þær vel þannig að fólk getur gengið um, skoðað og tekið það sem það þarf."

Og Erla heldur áfram: "Áður fyrr, þegar tollar voru háir, var Tollvörugeymslan þarfaþing. Ekki var hægt að hafa stóran lager í versluninni og því var sótt í Tollvörugeymsluna eftir hendinni, stundum tvisvar til þrisvar á dag. Þetta var mikil vinna en auraráðin buðu ekki upp á annað. Nú hefur Tollvörugeymslan annað hlutverk."

Við þetta bætir Skúli að almenningsálitið í garð Tékk-Kristals hafi breyst. "Sú var tíðin að fullt af fólki þorði ekki að koma inn í verslunina því að kristalsnafnið kom því inn í huga þess að allt hér væri dýrt.

Þetta er líklega gömul Grýla frá þeim árum þegar kristall var með lúxustollum, sem er ekki í dag. Hjá Tékk-Kristal eru hundruð gjafalista fyrir brúðkaup og afmæli. Allt þetta fólk veit að hagstætt er að versla hér, við eigum sterkan hóp fastra viðskiptavina, og það sem segir okkur það best er að við þurfum að hafa afgreiðslunúmer á álagstímum. Hjá okkur hefur sannast frasinn að besta auglýsingin sé ánægður viðskiptavinur."

Erla tekur við og heldur áfram: "Þetta er ekkert rakettufyrirtæki. Við byrjuðum með ekkert í höndunum og höfum tekið eitt skref í einu og stöndum nú með sterkt og rótgróið fyrirtæki. Hjá okkur, eins og öðrum sem reka verslanir, er þetta mikil vinna, en síðustu tólf árin hefur Vilhjálmur sonur okkar starfað með okkur."

Framtíðin björt og samkeppnin mikil

Hvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur?

Þau svara þessu þannig: "Okkur gengur vel, en samkeppnin er gífurleg og því verðum við að vera vel vakandi. Við höfuð skapað okkur nafn og byggjum því á sterkum stoðum.

Við teljum okkur því geta litið björtum augum fram veginn. Að vísu eru miklar sviptingar framundan, þegar um 100 nýjar verslanir af ýmsum toga bætast við í Smáranum eftir níu mánuði. Það er erfitt að sjá hverjir eiga að versla og vinna við þær allar. Þó að verslunin hafi verið góð síðustu ár þá hefur okkur sýnst góðærið einkum vera fólgið í bifreiða- og fasteignakaupum, ferðalögum til útlanda og hlutabréfakaupum. En við erum bjartsýn og það má ekki gleyma sér."