Davíð Stefánsson
Davíð Stefánsson
Davíð Stefánsson, stjórnsýslufræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, hefur á undanförnum árum haft umsjón með upplýsingavef um sóknarfæri EES á slóðinni http://www.sa.is. Hann var spurður um aðgengi að upplýsingum um Evrópuverkefni hér á landi.

Davíð Stefánsson, stjórnsýslufræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, hefur á undanförnum árum haft umsjón með upplýsingavef um sóknarfæri EES á slóðinni http://www.sa.is. Hann var spurður um aðgengi að upplýsingum um Evrópuverkefni hér á landi.

,,Það hefur lengi legið ljóst fyrir að slíkt aðgengi hefur verið afskaplega brotakennt. Í nokkrum málaflokkum eru reknar upplýsingastofur hérlendis, sem flestar standa sig með prýði, en oft krefst það mikillar fyrirhafnar að afla sér nauðsynlegra upplýsinga. Einmitt af þeim sökum hafa Samtök atvinnulífsins talið mikilvægt að reka vef, sem veitir heildaryfirlit yfir allar þær áætlanir sem við Íslendingar höfum aðild að. Er hann í raun eins konar leiðarvísir fyrir fólk sem vill kynna sér þau tækifæri sem Evrópusamvinnan færir okkur. Það er ljóst að fyrir fjölda fólks liggja mikil sóknarfæri í umræddum áætlunum en þau verða þó aldrei nýtt án víðtækrar vitneskju um þau.

Á vefnum má nálgast upplýsingablöð um hverja áætlun fyrir sig og lesa sér til um markmið, umsóknarferli, þátttöku o.fl. Þau blöð eru þó alls ekki tæmandi og munu aldrei svara öllum spurningum umsækjenda. Af þeim sökum leggjum við mikla áherslu á að benda á aðila, sem veitt geta frekari upplýsingar og aðstoð, enda gegnir fjöldi fólks því hlutverki hér á landi. Það getur hins vegar verið talsvert erfitt að hafa uppi á því fólki ef maður veit ekki hvar á að leita.

Það er mjög ánægjulegt að aðsókn á vefinn er mikil og umrædd upplýsingablöð t.a.m. meðal mest sóttu skjala á vef SA. Það er því ákaflega mikilvægt að efni hans sé vel við haldið og því er hann í sífelldri endurskoðun. Nú í sumar fór fram umfangsmikil uppfærsla á efninu en í því felst sjálfsagt mun meiri vinna en marga grunar. Samtök atvinnulífsins hafa verið í góðu samstarfi við Euro-Info skrifstofuna á Íslandi og fleiri aðila við þá vinnu enda ljóst að margir geta nýtt sér þetta verkefni.