Skipulagsbreytingar gerðar á ritstjórn Morgunblaðsins VIÐAMIKLAR skipulagsbreytingar tóku gildi á ritstjórn Morgunblaðsins um áramótin í kjölfar þess að Matthías Johannessen lét af starfi ritstjóra á gamlársdag eftir rúmlega 41 ár í því starfi.

Skipulagsbreytingar gerðar á ritstjórn Morgunblaðsins

VIÐAMIKLAR skipulagsbreytingar tóku gildi á ritstjórn Morgunblaðsins um áramótin í kjölfar þess að Matthías Johannessen lét af starfi ritstjóra á gamlársdag eftir rúmlega 41 ár í því starfi.

Styrmir Gunnarsson verður sem fyrr ritstjóri blaðsins en stjórn Árvakurs hf. hefur ráðið Björn Vigni Sigurpálsson, sem var ritstjórnarfulltrúi Morgunblaðsins, sem fréttaritstjóra og þá Karl Blöndal blaðamann og Ólaf Þ. Stephensen, forstöðumann stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, sem aðstoðarritstjóra. Þessir menn munu taka þátt í stefnumörkun blaðsins ásamt ritstjóra og jafnframt er þeim ætlað að fylgja eftir nýju skipulagi ritstjórnar. Auk þess mun Karl Blöndal hafa yfirumsjón með sunnudagsblaði og sérblöðum Morgunblaðsins og Ólafur Þ. Stephensen sjá um rekstrarstjórn ritstjórnar.

Jafnframt hafa Sigtryggur Sigtryggsson og Ágúst Ingi Jónsson verið ráðnir aðstoðarfréttaritstjórar blaðsins og gegna því starfi ásamt fréttastjórastörfum. Agnes Bragadóttir fréttastjóri mun jafnframt því starfi taka við nýjum verkefnum sem tengjast Alþingi og þjóðmálum. Orri Páll Ormarsson hefur verið ráðinn ritstjórnarfulltrúi menningar, Þröstur Helgason umsjónarmaður Lesbókar og Hávar Sigurjónsson sér um málefni sem varða bókmenntir og leikhús. Um áramót var verulegur hluti framleiðsludeildar blaðsins sameinaður ritstjórn og hefur Guðbrandur Magnússon framleiðslustjóri Morgunblaðsins jafnfamt tekið við starfi sem sérstakur framleiðslustjóri ritstjórnar.