Síðustu vikur hafa staðið miklar deilur í Prag vegna ráðningar sjónvarpsstjóra tékkneska ríkissjónvarpsins. Um 50 fréttamenn sjónvarpsstöðvarinnar hafa lokað sig inni á fréttastofunni frá því á Þorláksmessu og sent út eigin fréttir.

Síðustu vikur hafa staðið miklar deilur í Prag vegna ráðningar sjónvarpsstjóra tékkneska ríkissjónvarpsins. Um 50 fréttamenn sjónvarpsstöðvarinnar hafa lokað sig inni á fréttastofunni frá því á Þorláksmessu og sent út eigin fréttir. Athugasemdir þeirra beinast að því, að hinn nýi sjónvarpsstjóri sé í mjög nánum tengslum við einn helzta stjórnmálaforingja landsins, Vaclav Klaus. Jafnframt hafa þeir gert athugasemdir við ráðningu sjónvarpsstjórans á fréttastjóra, sem áður var einn af ráðgjöfum Klaus.

Talið er að um eitt hundrað þúsund manns hafi komið saman í miðborg Prag til þess að mótmæla ráðningu sjónvarpsstjórans. Um 130 þúsund Tékkar hafa skrifað undir áskorun um afsögn sjónvarpsstjórans. Vaclav Havel, hinn virti forseti Tékklands og einn helzti andófsmaðurinn á tímum kommúnismans þar í landi, hefur tekið afstöðu með fréttamönnunum.

Mál þetta er byrjað að hafa áhrif utan Tékklands eins og bezt sést á því, að Alþjóðasamband blaðamanna hefur lýst yfir stuðningi við fréttamennina.

Deilurnar í Prag sýna glögglega hve viðkvæm tengslin á milli fjölmiðla og stjórnmálanna eru.

Framan af síðustu öld voru dagblöð á Vesturlöndum í mjög nánum tengslum við stjórnmálaflokka. Það átti ekki bara við um Ísland eins og margir hafa kannski haldið. Hið sama tíðkaðist á öðrum Norðurlöndum. Þar varð nákvæmlega sama þróun og hér að dagblöð fóru smátt og smátt að fjarlægjast stjórnmálaflokka og gekk á ýmsu meðan á því stóð.

Í bókum, sem skrifaðar hafa verið um blöð í Bretlandi og Bandaríkjunum, kemur glöggt fram, hvað þessi tengsl voru náin. Á tímabili sátu ritstjórar eða útgefendur blaða á borð við The Times og Daily Telegraph einkakvöldverði með forsætisráðherrum Breta, þegar mikið gekk á og fóru síðan á blað sitt og skrifuðu leiðara þess daginn eftir.

Á milli forseta Bandaríkjanna og útgefenda eða ritstjóra áhrifamestu blaða þar voru lengi náin tengsl, þótt þau hafi verið með ýmsum hætti. Fræg eru ummæli einnar áhrifamestu konu í sögu New York Times og aðaleiganda blaðsins á þeim tíma, þegar sonur hennar hringdi í hana og stærði sig af því að hafa verið í fjögurra manna hádegisverði með forseta, varaforseta og utanríkisráðherra Bandaríkjanna. "Hvað vildu þeir fá þig til að gera, sonur sæll?" var svar móður hans og þurfti ekki fleiri orð um.

Hjá einkareknum fjölmiðlum, hvort sem um er að ræða dagblöð eða sjónvarpsstöðvar, eru þessar línur skýrar. Ritstjórar og fréttastjórar eru ráðnir og hafa þar með umboð til þess að marka ritstjórnarstefnu eða fréttastefnu viðkomandi fjölmiðils. En um leið er ljóst, að stjórnir viðkomandi fyrirtækja geta sagt þeim hinum sömu upp störfum án frekari eftirmála.

Þegar um ríkisrekna fjölmiðla er að ræða er málið allt viðkvæmara. Þá er hætt við að þeir sem með völdin fara hverju sinni liggi undir grunsemdum um að reyna að hafa áhrif á starfsemi hins ríkisrekna fjölmiðils, jafnvel þótt þeir hafi ekki uppi neina tilburði til þess. Áratugum saman hér áður fyrr lá það orð á hér á Íslandi, að vinstri menn og kommúnistar réðu ferðinni á fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Auðvitað er ljóst, að fréttamenn og blaðamenn þurfa aðhald ekki síður en aðrir. Ætla verður að sterkasta aðhaldið komi frá lesendum, áhorfendum og hlustendum og að fari fjölmiðlamenn út fyrir ákveðin mörk tapi þeir trausti.

En jafnframt er ljóst að í okkar heimshluta a.m.k. hefur orðið til á síðustu áratugum vel menntuð stétt fjölmiðlafólks, sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna og hefur fyrst og fremst faglegan metnað en ekki pólitískan.

Kannski sýna deilurnar í Prag okkur í hnotskurn að tími ríkisrekinna fjölmiðla sé liðinn og að það sé ákaflega erfitt ef ekki ómögulegt að finna aðferð til þess að tryggja sjálfstæði ríkisrekinna fjölmiðla á þann veg, að grunsemdir vakni aldrei um, að áhrif þeirra, sem með völdin fara hverju sinni, komi við sögu.