.
.
ÍSLENDINGUM mun nú gefast kostur á reglulegu beinu leiguflugi allt árið um kring til eyjarinnar Kýpur í Miðjarðarhafi fyrir tilstuðlan ferðaskrifstofunnar Sólar sem taka mun til starfa um næstu mánaðamót.

ÍSLENDINGUM mun nú gefast kostur á reglulegu beinu leiguflugi allt árið um kring til eyjarinnar Kýpur í Miðjarðarhafi fyrir tilstuðlan ferðaskrifstofunnar Sólar sem taka mun til starfa um næstu mánaðamót. Fyrirhugað er að fyrstu ferðirnar á vegum skrifstofunnar verði farnar í aprílbyrjun.

Flogið verður á tveggja vikna fresti til Limassol á Kýpur með Airbus 320 flugvélum frá ríkisflugfélaginu EuroCypria.

Að sögn Ómars Kristjánssonar, forstjóra, munu um leið opnast nýir möguleikar fyrir Íslendinga í framlengingu ferða frá eyjunni en nú þegar hafa verið skipulagðar ferðir undir íslenskri fararstjórn frá Kýpur til Ísrael og Egyptalands sem hefjast munu strax í vetur. "Áætlað er að bjóða síðar meir upp á ferðir frá Kýpur til Líbanon, Damaskus og Jórdaníu enda er stutt í allar áttir frá Kýpur og miklir möguleikar á hvers kyns ævintýraferðum þaðan," segir Ómar.

Hann segir Kýpur um langt skeið hafa verið gífurlega vinsælan ferðamannastað og ávallt hafi verið mikil eftirspurn eftir ferðum þangað.

Að sögn Ómars munu ýmsar fleiri nýjungar líta dagsins ljós hjá ferðaskrifstofunni á næstunni og nefnir hann þar á meðal borgarferðir, sólarferðir til Flórída og siglingu um Karíbahaf en einnig verður boðið upp á heilsuferðir til Ungverjalands.

Ferðaskrifstofan Sól mun jafnframt bjóða upp á vikulegt leiguflug á föstudögum til Faro við Albufeira í Portúgal þar sem hún hefur gert samning við nýtt íbúðahótel.