Áður hefur verið minnzt á sögnina að leigja í þessum pistlum og þá tvíræðni, sem felst í henni. Sannleikurinn er sá, að merking hennar er ekki alltaf ljós, en oftast má samt ráða í merkingu hennar.

Áður hefur verið minnzt á sögnina að leigja í þessum pistlum og þá tvíræðni, sem felst í henni. Sannleikurinn er sá, að merking hennar er ekki alltaf ljós, en oftast má samt ráða í merkingu hennar. Fyrir nokkru var eftirfarandi frétt lesin upp í Ríkisútvarpinu: "Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hefur selt allar fasteignir sínar og ætlar að leigja þær aftur." Var þetta sagt í fréttayfirliti og svo endurtekið í lok fréttatímans. Vissulega áttaði ég mig á því, hvað fréttamaður sá, sem setti þetta saman, átti við, enda kom það svo skýrt fram í sjálfri frásögninni, að Sparisjóðurinn hafði ákveðið eftir sölu eignanna að taka þær aftur á leigu frá hinum nýju eigendum, enda gat Sparisjóðurinn ekki leigt þær öðrum, þegar hann hafði selt þær úr hendi sér. Engu að síður hefur fyrrnefnt orðalag fréttastofunnar getað valdið einhverjum heilabrotum. Hér er bein þýðing á danska so. leje, sem merkir ýmist að leigja e-m e-ð eða taka e-ð á leigu. Þessi tvíræðni er þekkt í máli okkar allt frá lokum 16. aldar og vafalaust borizt hingað með Dönum. E.t.v. finnst mörgum þetta ekki skipta miklu máli, því að alltaf skiljist við hvað sé átt. En er það svo? Í auglýsingum má sjá eftirfarandi: Vil leigja tveggja herbergja íbúð. Hvort á að taka íbúð á leigu eða leigja hana öðrum? -

J.A.J.